Sölvi Tryggvason fjölmiðlamaður hefur birt færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann neitar sögum sem gengið hafa um að hann hafi beitt konu ofbeldi. Síðustu daga hefur verið fullyrt á samfélagsmiðlum og samtali milli fólks að Sölvi hafi keypt kynlífsþjónustu af konu, gengið í skrokk á konunni sem hafi endað með því að lögregla var kölluð á staðinn. Sölvi hafi verið handtekinn og fluttur í fangaklefa.
„Um þetta er bara eitt að segja, málið er þvættingur frá upphafi til enda“
Þessu neitar Sölvi staðfastlega í færslunni og segir um rætnar slúðursögur að ræða. Þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. „Um þetta er bara eitt að segja, málið er þvættingur frá upphafi til enda,“ skrifar Sölvi sem jafnframt segir að umræddar sögur hafi haft mikil áhrif á sig og þá sem næst honum standi. „Ég hef verið sem lamaður síðustu daga og neitaði lengi vel að trúa að fólk tæki þátt í að dreifa slúðursögum sem þessum.“
Til að bregðast við segir Sölvi að hann hafi leitað sér aðstoðar lögmanns, Sögur Ýrrar Jónsdóttur. Hún hafi fyrir hans hönd kallað eftir málaskrá Sölva hjá lögreglu undanfarinn mánuð, en á þeim tíma hafi umrætt atvik átt að eiga sér stað. Birtir Sölvi málaskránna, á tímabilinu 1. apríl til 3. maí. Þar kemur fram að engin mál séu skráð á Sölva á umræddu tímabili. Því sé, skrifar Sölvi, ekkert til í sögunum.
„Ég óska engum að lenda í þeirri hakkavél sem slúðursögur eru. Þær eru mannskemmandi, niðurbrjótandi og hafa valdið mér og mínum meira hugarangri en ég hefði getað ímyndað mér,“ skrifar Sölvi enn fremur og tiltekur að hann treysti sér ekki til að tjá sig frekar um málið og biður fjölmiðla að virða þá ósk sína.
Athugasemdir