Það var 21. apríl 1971 að menntamálaráðherra Danmerkur afhenti Íslendingum Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða með viðhöfn í Háskóla Íslands. Þann dag var þjóðhátíð á Íslandi. Þetta var í reyndinni heimssögulegur viðburður.
Íslendingasögur og Timbúktú
Allar götur frá 1907 höfðu Íslendingar reynt að heimta forn íslenzk handrit úr höndum Dana líkt og þeim hafði loksins tekizt að telja Dani á að veita Íslendingum heimastjórn þrem árum áður, 1904. Árin liðu. Alþingi samdi margar ályktanir um málið, en Danir héldu að sér höndum og gekk hvorki né rak fyrr en um hálfri öld síðar.
Rök Íslendinga í málinu voru skýr. Handrit íslenzkra höfunda sem höfðu ratað til Danmerkur einkum fyrir tilverknað Árna Magnússonar prófessors (1663–1730), handritasafnarans mikla, eiga að réttu lagi heima á Íslandi hvað sem öllum eignarrétti líður í venjulegum skilningi þess orðs. Árni hafði safnað flestum handritunum og ánafnað þau eftir sinn dag sérstakri sjálfseignarstofnun sem við hann er kennd enn í dag við Kaupmannahafnarháskóla. Íslendingar áttu því ekki rétt til handritanna samkvæmt eignarréttarákvæðum gildandi laga.
Handritin, skráð á 12. og 13. öld, voru og eru enn helzta framlag Íslendinga til heimsmenningarinnar og sjálfra sín að segja má. Þau eru eftir því sterkur strengur í þjóðarvitund Íslendinga svo sem Jón Sigurðsson forseti þreyttist um sína daga ekki á að halda fram í þjóðfrelsisbaráttunni við Dani.
Sögurnar og kvæðin skiptu jafnvel enn meira máli en svo. Lestrarkunnátta varð almenn á Íslandi á 18. öld þegar henni var komið á samkvæmt konunglegum tilskipunum til að efla fermingarfræðslu. Lestrarskyldu var komið á einkum til að kenna börnum og unglingum að lesa kverið sem kallað var. Í krafti almennrar lestrarkunnáttu urðu fornritin síðan eftirsótt lesefni, fyrst fornaldar- og riddarasögur á 19. öld og síðan Íslendingasögur kringum 1900. Það var því mest fyrir tilstilli fornritanna að flestir Íslendingar kunnu að lesa sér til gagns og gamans á 19. öld þrátt fyrir nístandi fátækt og voru að því leyti vel búnir undir heimastjórn 1904 og þau verkefni 20. aldarinnar sem biðu. Almennt læsi var mikilvæg forsenda árangursríkrar innreiðar Íslendinga inn í nútímann að fenginni heimastjórn. Íslendingar standa einnig að þessu leyti í þakkarskuld við handritin.
Til samanburðar er þriðji hver fullorðinn íbúi Afríku enn í dag ólæs. Ekki þar fyrir að Afríkumenn hafi ekki byrjað snemma að skrifa bækur líkt og Íslendingar. Rithöfundar í Timbúktú í Malí skrifuðu merkar bækur um listir, læknisfræði, heimspeki og vísindi á 13. öld, þ.e. um svipað leyti og höfundar Íslendingasagna sátu við kálfskinnin, en bragðdauf fræðiritin frá Timbúktú hentuðu síður til heimabrúks á kvöldvökum en safaríkar sögulegar skáldsögur Íslendinga þóttu henta hér heima þegar fram í sótti og urðu því ekki til þess að breiða út læsi meðal almennings í Afríku.
Fögur fordæmi eru til þess að fylgja þeim.
Flateyjarbók og Edda
Danir litu handritin öðrum augum en Íslendingar í upphafi. Danir féllust ekki á þá skoðun Íslendinga að íslenzk skyldu öll þau handrit teljast sem íslenzkir menn höfðu skrifað. Danir litu heldur svo á að íslenzk skyldu þau handrit ein teljast sem íslenzkir menn höfðu skrifað og fjölluðu um íslenzk efni. Eftir þeim skilningi hefðu Danir haldið bæði Flateyjarbók og Konungsbók Sæmundar-Eddu eftir hjá sér þar eð Flateyjarbók fjallar meðal annars um ævir Noregskonunga og Edda geymir germönsk kvæði en þar er einnig að finna bæði Hávamál og Völuspá. Þetta er eina handrit Eddukvæða sem varðveitzt hefur. Deilan var leyst með því að Íslendingar fengu bæði Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða fyrstar bóka í apríl 1971 og fyrirheit um nærri tvö þúsund handrit önnur smám saman eftir nánara samkomulagi. Ýmis íslenzk handrit urðu eftir í Danmörku, einkum sögur um konunga Danmerkur og Noregs.
Íslendingum var í mun að ljúka málinu fyrir 150 ára afmæli Jóns forseta og 50 ára afmæli Háskóla Íslands 17. júní 1961. Það tókst á þann hátt að danska þingið afgreiddi málið fyrir sitt leyti 10. júní 1961 með yfirburðum, nærri þrem fjórðu hlutum atkvæða. Minni hlutinn undi ósigrinum ekki vel heldur neytti réttar síns til að fresta fyrst gildistöku laganna og höfða síðan mál vegna meints eignarnáms. Sumir þóttust sjá að hörð andstaða minni hlutans í Danmörku snerist ekki aðeins um handritin heldur hefðu sumir Danir horn í síðu Íslendinga fyrir að hafa stofnað lýðveldi 1944 og sagt sig þá úr lögum við Dani sem gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér vegna hernáms nasista.
Áratug síðar, 19. marz 1971, úrskurðaði Hæstiréttur Danmerkur að ekki væri um eignarnám að ræða og ekki skyldu því koma skaðabætur fyrir handritin. Málinu var lokið.
Lykillinn og lausnin
Lykillinn að úrskurði Hæstaréttar og þá um leið að lausn málsins var skilgreining væns hluta handritanna sem menningareignar (d. kultureje) Íslendinga og skyldi sá hluti handritanna afhentur Íslendingum til umráða. Menningareign er næsti bær við þjóðareign. Í lausninni fólst að Danir gáfu Íslendingum þau handrit sem þeir létu af hendi. Með þeim gjafagerningi urðu handritin að íslenzkri menningareign, þjóðareign.
Þetta er einnig hugsunin á bak við menningareignarákvæðið í nýju stjórnarskránni sem Alþingi á enn eftir að staðfesta, en það hljóðar svo:
„32. grein. Menningarverðmæti. Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.“
Lausn handritamálsins fól í sér staðfestingu þess að Íslendingar ættu ekki lagalegt tilkall til handritanna sem geymd voru í dönskum söfnum heldur var handritunum skipt bróðurlega milli þjóðanna samkvæmt samkomulagi. Þess var gætt að lausnin yrði ekki notuð sem ávísun á tilkall annarra til gripa í dönskum söfnum né heldur sem ávísun á tilkall Dana til gripa í öðrum löndum. Þessi lausn setti niður erfiða innanlandsdeilu í Danmörku og stóðst öll próf á vettvangi dómstóla og stjórnmála. Á Íslandi var einhugur um málið alla tíð ef frá eru taldir þeir sem fyrtust við að þiggja að gjöf það sem þeir þóttust eiga fyrir. Skiptunum lauk endanlega 1986.
Fagurt fordæmi
Lausn handritamálsins var heimssögulegur viðburður. Hvernig þá? Danir hefðu getað setið fastir við sinn keip og haldið öllum handritunum hjá sér, en þeir kusu að gera það ekki þótt sumum þeirra hefði sárnað framganga Íslendinga við lýðveldisstofnunina 1944. Lausnin sem Danir féllust á vitnaði um réttsýni, sanngirni og drenglyndi, meira drenglyndi en gömlu nýlenduveldin hafa sýnt fyrrum nýlendum sínum í Afríku og Asíu. Reyndar fór frekar gott orð af Dönum sem nýlenduherrum í Vestur-Indíum og Vestur-Afríku og á Indlandi. Af dönskum nýlenduherrum fyrri tíðar ganga færri grimmdarsögur en af Bretum, Frökkum, Belgum, Portúgölum og öðrum.
Afríkumönnum þykir það mörgum þungbært að sjá afríska dýrgripi í brezkum, frönskum, belgískum og portúgölskum söfnum. Suma þessara gripa hafa brezkir og franskir menn og Belgar og Portúgalar eflaust eignazt með lögmætum hætti, en aðra hafa þeir tekið ófrjálsri hendi eins og háttalag þeirra var gagnvart undirokuðum nýlendum. Samt eiga Afríkumenn ekki lagalegt tilkall til endurheimtar þessara gripa, ekki frekar en Íslendingar áttu lagalegt tilkall til handritanna.
Því færi vel á að gömlu nýlenduveldin – Bretar, Frakkar, Belgar, Portúgalar og fleiri – tækju Dani sér til fyrirmyndar og skiluðu vænum hluta dýrgripanna aftur til síns heima með menningareignarhugtakið að vopni frekar en að halda áfram að skýla sér á bak við eignarrétt í þröngum skilningi laga.
Þá yrði heimurinn bæði betri og fallegri og stæði í djúpri þakkarskuld við Dani. Fögur fordæmi eru til þess að fylgja þeim.
Athugasemdir