Svæðið sem Jórdanía nær nú yfir er mestallt hrjóstrugt og gróðurvana, þótt það beri nafn af ánni Jórdan. Við ána og úti í eyðimerkinni hafa búið arabískir þjóðflokkar frá aldaöðli og kringum upphaf tímatals okkar var þar yfirráðasvæði svonefndra Nabatea. Þeir komu sér upp nokkuð voldugu ríki sem auðgðist sem áfangastaður verslunarlesta. Nabatear byggðu höfðuborgina Petru inn í mjúk klettabelti í suðurhluta héraðsins.
Petru tók svo hnigna og eftir fáeinar aldir var borgin fallin í gleymsku og dá.
Þjóðflokkar sunnan frá Medína og Mekka hófu hins vegar mikla útrás norður Arabíuskaga þegar þriðjungur var af sjöundu öld og sigursælir herir fóru um svæðið með nýja trú sína, íslam, en sáu litla ástæðu til að staldra við á eystri bakka Jórdanár.

Jórdanía skiptir um eigendur
Eftir að voldugt ríki Araba í Miðausturlöndum tók að liðast í sundur skipti Jórdanía margoft um eigendur, og var ýmist á valdi herranna í Egiftalandi eða Sýrlandi.
En reyndar hirtu höfðingjar lítt um þetta svæði. Eftir að Petra gleymdist og huldist sandi í klettagljúfrum sínum voru fáar borgir á svæðinu. Nokkuð bjó raunar af fólki þar sem hét Amman en þar koðnaði öll byggð niður á 14. öld.
Íbúarnir í Jórdaníu um þær mundir voru aðallega Bedúína þjóðflokkar sem ráfuðu um með hjarðir sínar. Einhver þjónusta var þó við ferðalanga sem voru á leið til eða frá borgunum suður á Arabíuskaga.
Hejaz nefndist þá svæðið vestan til á Arabíuskaga, þar sem Mekka og Medína voru niðurkomnar.
Í byrjun 16. aldar lögðu hinir tyrknesku Ottómanar svæðið undir sig en þeir höfðu lítinn áhuga á því enda var þangað fátt að sækja. Um 1800 létu hinir oftrúuðu Wahabítar mjög að sér kveða á svæðinu en þeir voru kveðnir í kútinn af Egiftum og Tyrkjum.
Frá Kákasus til Jórdaníu
Landbúnaður var þá orðinn ögn blómlegri en áður á svæðinu og þegar múslimaþjóðir í Kákasus-fjöllum (Kirkassar og Téténar) hrökkluðu frá heimkynnum sínum undan vaxandi sókn Rússa í þeim fjöllum, þá settust þeir margir að í Jórdaníu. Og rétt fyrir 1880 fóru Kirkassar til dæmis að byggja upp að nýju borgina Amman þar sem varla hafði búið hræða í 500 ár.
Þá var Tyrkjaveldi mjög á fallanda fæti og suður í Hejaz var emírinn í Mekka til dæmis meira og minna orðinn sjálfstæður landshöfðingi, þótt hann lyti að nafninu til soldáninum í Konstantínópel. Emírar þar voru af hinni fornu ætt Kvarasía frá Mekka og röktu ættir til Múhameðs spámanns á 7. öld.
Árið 1908 skipuðu Tyrkir nýjan emír í Mekka og síðar fékk hann titilinn sjaríf og emír í Mekka bæði og Medína.
Tyrkir gera mistök
Þessi maður hét Hussein bin Ali og var í föðurætt af emírunum í Hejaz suður á Arabíuskaga en móðir hans var kirkassísk úr Kákasusfjöllum. Hussein bin Ali var rúmlega fimmtugur og enginn æsingamaður og framan af tók hann lítt undir kröfur um að Arabar ættu að brjótast undan tyrkneskri yfirstjórn.
Þær kröfur urðu þó æ háværari og meðal annars hélt næstelsti sonur Husseins því statt og stöðugt fram að leiðir Tyrkja og Araba ættu að skilja sem fyrst. Þessi næstelsti sonur hét Abdullah og var fæddur 1882.
Í fyrri heimsstyrjöldinni 1914-1918 gerðu Tyrkir þau mistök að ganga í lið með Þjóðverjum. Bretar og Frakkar brugðust hart við og sendu herlið til Miðausturlanda til að hjálpa til við að knésetja Tyrki. Evrópuþjóðirnar — og sér í lagi Bretar — ýttu mjög undir sjálfstæðishugmyndir Araba, jafnt á Hejaz-svæðinu, í Palestínu, Sýrlandi og Mesópótamíu.
Arabar gerðu loks uppreisn gegn Tyrkjum 1916 og fyrir þeim fór Hussein bin Ali og synir hans þrír — frumburðurinn Ali, hinn fyrrnefndi Abdullah og Fæsal sá þriðji.
Kóngur í Mekka
Nú lýsti Hussein bin Ali yfir stofnun konungsríkis í Hejaz og tók sér konungsnafn. Og Bretar hétu því að styðja alla Araba til sjálfstæðis þegar Tyrkjum hefði verið kastað á braut.

Nú tekur við löng og flókin saga en hér dugar að taka fram að Tyrkir lyppuðust niður og stjórn þeirra var úr sögunni. Arabar bjuggust nú við að taka við ríkjum en uppgötvuðu brátt að Bretar og Frakkar — sem höfðu hernaðarlega yfirburði á svæðinu — voru ekki eins viljugir og þeir höfðu látið til að hleypa heimamönnum að stjórnartaumunum.
Arabar ætluðu þó ekki að láta bjóða sér neitt hálfkák og snemma árs 1920 var lýst yfir stofnun Stór-Sýrlands undir stjórn Fæsals, þriðja sonar konungsins í Hejaz, Husseins bin Alis.
Þetta Stór-Sýrland hafði innan sinna vébanda, eða átti að hafa, þau svæði sem nú heita Sýrland, Líbanon og Jórdanía.
Frakkar taka sjálfstætt Sýrland ekki í mál
Bretar voru að vissu leyti hliðhollir hugmyndinni um þetta nýja ríki, að minnsta kosti ef Fæsal prins, sem nú var lýstur kóngur þar, féllist á að Gyðingar fengju heimaland í Palestínu.
Hvað fólst í hugmyndinni um „heimaland Gyðinga í Palestínu“ var nokkuð óljóst, en Fæsal tók ekki ólíklega í að hann kynni að styðja slíka hugmynd í einhverri mynd.
Á stuðning hans reyndi þó ekki. Frakkar tóku ekki í mál að viðurkenna hið nýja ríki, því þeir ætluðu sér Sýrland og engar refjar. Á ráðstefnu í apríl 1920 fengu þeir Evrópuveldin til að samþykkja yfirráð sín yfir Sýrlandi og Líbanon og herlið þeirra sigraði svo vanburða her Fæsals um sumarið.
Frá því öllu saman segi ég hér.
Nema hvað, þegar Frakkar stofnuðu sitt „verndarsvæði“ í Sýrlandi og Líbanon, þá nenntu þeir ekki að hirða Jórdaníu líka, svo lítils virði var það svæði talið. Bretar tóku Jórdaníu þá að sér en íbúar á svæðinu höfðu lítil til málanna að leggja að sinni, nema hvað þeir vildu alls ekki að Jórdanía yrði sameinuð Palestínu, sem mun hafa komið til álita. Þeir óttuðust að Gyðingar yrðu fljótt of fjölmennir og ráðandi á svæðinu.

Óvæntur gestur
Í nóvember 1920 mætti svo óvæntur gestur á staðinn. Það var Abdullah prins frá Hejaz. Honum hafði verið boðin konungstign í Mesópótamíu en hafnað boðinu, en hafði nú hugsað sér að reyna að heimta Stór-Sýrland úr höndum Frakka.
Abdullah áttaði sig þó fljótt á að hann myndi ekki ná neitt betri árangri en Fæsal bróðir hans.
Hins vegar varð úr að Abdullah var boðin emírtign í Jórdaníu — undir yfirstjórn Breta. Íbúar þar vildu nú gjarnan styrkja sig í sessi andspænis Palestínu með því að koma sér upp eigin emír.
Ekki er að vísu hægt að segja að í Jórdaníu hafi búið sérstök þjóð í þá daga, ekki einu sinni sérstakur ættbálkur, heldur var Mið-Jórdanía, eins og svæðið var þá kallað, fyrst og fremst pólitískt hugtak og íbúar af ýmsu sauðahúsi.
Emír verður kóngur
Bretar féllust greiðlega á að prinsinn sunnan frá Mekka yrði emír á svæðinu og veittu honum allvíðtæk völd, enda var eftir litlu að slægjast fyrir þá sjálfa á þessu svæði. Svo Abdullah var óvænt orðinn emír á eyðimerkursvæði þangað sem hann hafði aldrei komið áður — nema brunað gegnum það í járnbrautarlest — og árið 1946 slepptu Bretar hendi af þessu nýja landi.
Jórdanía varð þá sjálfstæð og Abdullah konungur.
Og hann var langafi þess Abdullah 2. sem nú hefur hneppt bróður sinn í varðhald. Hvernig það vildi til fylgir sögunni síðar.

Athugasemdir