Fyrsti hagfræðingur heimsins, Adam Smith (1723–1790), var heimspekingur, nánar tiltekið siðfræðingur, og kenndi fræði sín í Háskólanum í Glasgow sem þótti þá vera ein fegursta borg Evrópu. Hann dró að sér stúdenta víðs vegar að, meðal annars frá meginlandi Evrópu og Rússlandi. Við köllum hann nú hagfræðing þar eð höfuðrit hans, Auðlegð þjóðanna (1776), lagði grunninn að hagfræði sem sjálfstæðri fræðigrein, fyrsta hagfræðiritið.
Hagkvæmni og réttlæti
Auðlegð þjóðanna er snilldarverk. Þar er auk margs annars lagður grunnurinn að hugmyndinni um frjáls viðskipti sem aflvaka efnahagslífsins og mikilvæga undirstöðu góðra lífskjara. Adam Smith útskýrði hvernig og hvers vegna frívæðing viðskipta innan lands og milli landa eykur almannahag með því að færa út landamæri, það er stækka markaðinn eins og sagt er, og veita fólki þannig færi á meiri og betri varningi og þjónustu við lægra verði til hagsbóta fyrir bæði kaupendur og seljendur. Þessi einfalda og lífseiga hugmynd er lykillinn að efnahagslegri velgengni Bandaríkjanna og Evrópusambandsins og nú einnig að nokkru leyti Kína: galdurinn er fríverzlun á stórum heimamarkaði og helzt einnig blómleg viðskipti við önnur lönd. Þetta er jafnframt lykillinn að hagræðinu sem fámennar þjóðir sjá sér yfirleitt í aðild að efnahags- og viðskiptabandalögum eins og Evrópusambandinu. Adam Smith lagði grunninn sem eftirkomendur hans byggðu síðan á og bættu við.
Adam Smith kom víða við í bók sinni og lét sér þar fátt óviðkomandi. Þótt hagkvæmni væri hans aðaláhugamál var honum einnig umhugað um réttlæti sem hann fjallar um ekki sjaldnar en hundrað sinnum í bók sinni. Hagfræði var að þessu skapi víðfeðm fyrstu hundrað árin en síðan tóku sjónarhorn hagfræðinga að þrengjast. Upphaflegt heiti greinarinnar var stjórnmálahagfræði (e. political economy). Það vék smám saman fyrir afmarkaðra heiti, hagfræði (e. economics).
Orðið hagfræði kom fyrst fyrir á íslenzku prenti um 1860 þar sem sagt var um Jón Sigurðsson forseta að hann hefði „lagt sig eftir hagfræði í Höfn“. Því hef ég kallað Jón forseta fyrsta hagfræðing Íslands þótt hann lyki ekki háskólaprófi í þeirri grein eða öðrum. Jón stóð á öxlum Adams Smith og eftirkomenda hans þegar honum tókst að sannfæra Íslendinga um kosti aukins viðskiptafrelsis og hrinda síðustu leifum dönsku einokunarverzlunarinnar af höndum sér eftir þjóðfundinn 1851. Jón sagði: „Atvinnuvegir landsins dafna svo bezt að verzlanin sé sem frjálsust.“ Hann sló enga varnagla, ekki frekar en Adam Smith.
Það hefðu þeir þó báðir mátt gera svo sem ég mun lýsa undir lok þessa máls.
Tveir meginstraumar
En fyrst þetta. Hagfræði greindist síðar í tvo meginstrauma, rekstrarhagfræði sem fjallar um rekstur heimila og fyrirtækja og viðskipti þeirra á markaði og þjóðhagfræði sem fjallar um gerð og gangverk þjóðarbúskaparins í heild og heimsbúskaparins að auki. Ensku heitin eru microeconomics (micro eins og í microscope, smásjá) og macroeconomics (macro eins og í macroscope, fjarsjá, sjónauki eða stjörnukíkir). Þessi rótföstu heiti eru runnin frá Ragnari Frisch (1895–1973), Norðmanni sem fyrstur allra hagfræðinga var sæmdur Nóbelsverðlaunum við annan mann 1969.
Víkur nú sögunni að upphafsmanni rekstrarhagfræðinnar sem sjálfstæðs bálks innan hagfræðinnar. Alfred Marshall var prófessor í Cambridge og kennari Johns Maynard Keynes sem kalla má með líku lagi föður þjóðhagfræðinnar. Marshall birti höfuðrit sitt, Frumreglur hagfræðinnar, 1890 þar sem hann lagði grunninn að rekstrarhagfræði sem sjálfstæðri fræðigrein. Grunnurinn stendur enn. Nema nú var stemningin orðin önnur. Marshall nefndi réttlæti aðeins tvisvar í bók sinni. Rekstrarhagfræði hans átti að heita ónæm fyrir réttlætissjónarmiðum líkt og sjálfsagt þótti að eðlisfræði og líffræði hefðu lítið sem ekkert um réttlæti að segja. Réttlætissjónarmið þóttu nú eiga heima hjá heimspekingum, siðfræðingum og guðfræðingum. Þetta var lengi framan af 20. öldinni ríkjandi skoðun meðal hagfræðinga.
Páfinn stígur fram
Sumir litu málið þó öðrum augum, bæði hagfræðingar og aðrir, þar á meðal Leó XIII sem var páfi í Róm 1878–1903 og lét þar ýmislegt gott af sér leiða. Þekktastur er hann kannski um okkar daga fyrir páfabréf sitt, Um nýja hluti (lt. Rerum novarum 1891), þar sem hann fjallar um réttindi og skyldur fjármagns og vinnandi fólks. Hann lýsir þar andúð á þeirri skoðun hagfræðinga að vinnuafl sé eins og hvert annað hráefni til framleiðslunnar þannig að eðlilegt megi teljast að vinnuveitendur leitist við að greiða vinnandi fólki sem lægst laun. Vinnulaun verkafólks eru lág, sagði páfinn, vegna þess að vinnuveitandinn getur beitt verkafólkið valdi með því að neita því um vinnu við sómasamlegum launum. Verkafólkið þarf vinnu til að hafa í sig og á og skortir því vald og þrótt til að standa gegn kröfum vinnuveitandans. Verkafólkið er í veikri samningsstöðu vegna þess að það getur ekki án vinnu verið nema skamma hríð. Vinnuveitandinn með allt sitt fjármagn hefur meiri tíma: hann getur ólíkt verkafólkinu beðið lengi unz hann fær vilja sínum framgengt.
Páfinn lýsti eftir réttlátum launum og jafnari skiptingu auðs og tekna. Réttlæti, sagði páfinn, á heima í húsi hagfræðinnar. Og hvað eru réttlát laun? Réttlát, sagði páfinn, eru laun sem gera launþeganum kleift að lifa sómasamlegu lífi og safna nægum eignum til að geta mætt óvæntum þrengingum vegna atvinnumissis, heilsubrests, elli og fleira. Áherzla páfa á eignamyndun almennings var þó eins og hann lýsti sjálfur ekki í samræmi við boðskap sósíalista sem voru þá teknir að ryðja sér til rúms einkum í Evrópu.
Margir hagfræðingar tóku boðskap páfa óstinnt upp. Hvað er páfinn að vilja upp á dekk? spurðu sumir með þjósti.
Auði fylgir vald
En hvert sótti páfinn rök sín? Til Adams Smith! – sem hélt því fram að kjarasamningar endurspegli valdahlutföll á vinnumarkaði frekar en afköst. Forstjórinn þiggur eða tekur sér 365-föld laun verkakonunnar ekki vegna þess að hann skilar 365-földum afköstum hennar heldur af því að hann er 365 sinnum voldugri en hún. Verkafólk ber lítið úr býtum vegna þess að það situr valdalaust við samningaborðið. Samningar um kaup og kjör geta ekki talizt frjálsir, sagði Leó páfi, nema báðir aðilar sitji við sama borð og hvorugur geti beitt hinn valdi. Frjálsir samningar útheimta réttláta valddreifingu. Páfinn gerði þessi sjónarmið Adams Smith að sínum, sjónarmið sem eftirkomendur Smiths í hópi hagfræðinga, þar á meðal Marshall, höfðu margir misst sjónar á en samt ekki allir. Þessi sjónarmið vógust á fyrir og eftir aldamótin 1900.
Fjármagn og vinnuafl eru systur og ekki endilega keppinautar en reyndin hefur orðið önnur undangengna áratugi. Kaupmáttur meðallauna bandarísks verkafólks hefur staðið í stað í bráðum 50 ár þótt afköst vinnuaflsins hafi aukizt til muna með betri menntun og tækjakosti. Kaupmáttur meðaltekna bandarískra heimila hefur staðið í stað mun skemur, eða rösk 20 ár, þar eð flest heimili hafa nú fleiri fyrirvinnur nú en áður. Fjármagnið hefur haft vinnuaflið undir.
Valdmörk og mótvægi
Hvað hefði þurft til að girða fyrir þessa þróun? Ríkisvaldið hefði getað stillt sér upp við hlið launþega til að vernda þá fyrir ágengni vinnuveitenda, en það gerðist ekki nema að litlu leyti, hvorki vestan hafs né austan. Verkafólk hefði getað snúið bökum saman í sterkum verkalýðsfélögum og gerði það í Evrópu en ekki í Bandaríkjunum nema þá helzt í bílaborginni Detroit og síðan dró verulega úr mætti verkalýðsfélaga eftir 1980. Báðum þessum leiðum fylgja hættur sem Leó páfi varaði við í bréfi sínu líkt og margir aðrir gerðu síðar. Of sterkt ríkisvald og of sterk verkalýðsfélög geta vaxið almenningi yfir höfuð ekki síður en of sterkar auðklíkur.
Listin er að finna færa leið til að tryggja valdmörk og mótvægi milli ólíkra hagsmuna svo að engum sé fært drottnunarvald yfir öðrum. Það er hugsunin á bak við þriðja ráðið gegn aukinni misskiptingu og það er endurdreifing eigna eftir þeirri skoðun sem bandaríski hæstaréttardómarinn Louis Brandeis (1856–1941) lýsti öðrum betur: „Við getum búið við lýðræði í þessu landi eða við samþjöppun mikils auðs á fárra hendur, en við getum ekki búið við hvort tveggja í senn.“ Of miklar eignir á fárra höndum opna auðmönnum aðgang að eignum almennings í krafti auðvalds eins og dæmin sanna og þeim er iðulega hlíft við afleiðingum gerða sinna með því leyfa þeim að hirða gróða handa sjálfum sér og varpa tapi yfir á aðra. Þetta er aðalsmerki pilsfaldakapítalismans sem einnig ber sæmdarheitið sósíalismi andskotans. Slíkri endurdreifingu er hægt að koma fram með þeim tækjum sem ríkisvaldið ræður yfir við setningu fjárlaga. Verkið er þegar hafið á vegum nýrrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum.
Misskipting hefur afleiðingar
Villan sem Adam Smith og Jón forseti gerðu líkt og margir aðrir var að þeir gerðu enga fyrirvara við stuðning sinn við fríverzlun. Villa þeirra var að vísu skiljanleg þar eð vitneskjan sem til þurfti kom ekki fram fyrr en eftir daga beggja.
Villan er þessi: ótvíræður hagur almennings af frjálsum viðskiptum útheimtir að þeim sem verða undir í frjálsari viðskiptum sé bættur skaðinn að einhverju leyti. Þeim sem missa vinnuna þarf til dæmis að hjálpa til að koma undir sig fótunum á nýjum vettvangi. Það er ekki nóg að segja að þeir sem hagnast á fríverzlun hagnist meira en sem nemur tapi hinna. Það er ávísun á ósætti. Skipting hagsins af frjálsari viðskiptum skiptir máli. Margt bendir til að Bretar hafi gengið úr ESB með tilstyrk þeirra sem töldu sig tapa á aukinni fríverzlun. Líku máli gegnir að einhverju marki um stuðning bandarískra kjósenda við Trump fv. forseta. Afleiðingarnar eru áþreifanlegar.
Hliðstætt dæmi blasir við hér heima. Það er ekki nóg að halda því fram að kvótakerfið í sjávarútvegi efli hagkvæmni í sjávarútvegi með því að beina aflaheimildum til stórra og hagkvæmra útgerða. Einnig þarf að sjá til þess að þeim sem verða undir í kapphlaupinu um kvótann sé að einhverju marki bættur skaðinn. Og það þarf að stemma stigu fyrir auðsöfnun og valdi þeirra sem ríkið hefur hlaðið aflaheimildum á. Íslenzkir kvótaþegar sem nota auð sinn og vald til að auka ójöfnuð þar sem sízt skyldi, í Namibíu, stríða hvað sem lögunum líður gegn réttlætiskennd í hverju kristnu hjarta.
Allir þurfa að fá að sitja við sama borð eins og auðlindaákvæðið í nýju stjórnarskránni kveður á um. Til hvers? Til að halda friðinn og fullnægja réttlæti. Þetta er kjarninn í bindandi tilmælum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenzka ríkisins 2007 um að sjómönnunum tveim sem unnu mál sitt gegn ríkinu sé bættur skaðinn. Ríkið hunzaði tilmælin. Nýja stjórnarskráin vísar veginn að lausn vandans.
Athugasemdir