Einn af sakborningunum í Samherjamálinu í Nambíu, Sacky Shangala, sem situr í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa þegið mútur frá Samherja hefur sent 31 blaðsíðu langan texta til Swapo-flokksins þar sem hann veitir flokknum ráðleggingar, meðal annars um stefnumörkun við nýtingu á fiskveiðiauðlindum landsins.
Shangala er meðlimur í Swapo-flokknum sem hefur fengið meirihluta í öllum þingkosningum í landinu frá því að landið fékk sjálfstæði fyrir 30 árum. Segja má að skilin á milli Swapo-flokksins og ríkisvaldsins geti verið nokkuð óljós af þessum ástæðum þar sem Swapo situr alltaf einn á valdastóli í landinu.
Flokkurinn tapaði miklu fylgi í þingkosningum í kjölfar þess að Samherjamálið kom upp í nóvember árið 2019 í umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.
Texti Shangala, sem er fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, er settur upp eins og fræðileg ritgerð og ber yfirskriftina „A Modern Economic, Social and Political Program - Namibian Socialism.“ Réttarhöldin yfir Shangala, sem meðal annars verður ákærður fyrir mútuþægni, meinsæri og peningaþvætti, og öðrum sakborningum í Samherjamálinu munu hefjast í Namibíu í apríl. Shangala, sem er lögfræðimenntaður, er með langa reynslu af opinberum störfum í Namibíu þrát fyrir að vera einungis 44 ára gamall.
Hann var aðal hugmyndafræðingurinn í svokölluðum Namgomar-snúningi með Samherja sem snérist um að misnota milliríkjasamning við Angóla til að útvega útgerðinni kvóta. Endanlega var samið um greiðslur frá Samherja til Shangala og viðskiptafélaga hans vegna þessara viðskipta í höfuðstöðvum Samherja í Katrínartúni í ágúst árið 2014.
Sósíalismi vs. blandað hagkerfi
Eitt af því sem Shangala segir í skrifum sínum er að opinber skilgreining á Swapo-flokknum sem sósíalistaflokki gangi gegn því sem fram kemur fram í stjórnarskrá Namibíu, að í landinu sé ríkjandi blandað hagkerfi. Shangala telur að Swapo-flokkurinn sé í reynd ekki sósíalistaflokkur þó hann hafi verið það einu sinni, að pólitísk stefnumörkun flokksins í orði þurfi að ríma við það hvað hann er í reynd. „Nú um stundir er ekki til neitt Swapo-skjal þar sem fram kemur skilgreining á því hvað felst í sósíalisma með namibískum sérkennum og enn síður er til einhver skilgreining á því í hverju þessi sósíalismi birtist og hvernig hann virkar í reynd,“ segir Shangala meðal annars í skrifum sínum.
Samkvæmt Shangala þarf Swapo-flokkurinn því annað hvort að breyta stefnuskrá sinni, sem er frá árinu 1991 þegar Namibía fékk sjálfstæði frá Suður-Afríku, eða að breyta þarf stjórnarskránni þannig að hún rími við stefnuskrá Swapo-flokksins.
„Mér finnst út í hött af honum að tjá sig um framtíð Swapo-flokksins þegar hann sjálfur er ein af ástæðunum fyrir þeim vandræðum sem flokkurinn á í núna,“
Álitsgjafi: Fráleitt að ráðin komi frá Sacky
Þessi texti Shangala hefur vakið hörð viðbrögð hjá mörgum stjórnmálaskýrendum og álitsgjöfum í Namibíu og hefur meðal annars verið bent á hversu kaldhæðnislegt það sé að Shangala sé að veita Swapo-flokknum ráðleggingar þegar hann er sjálfur ein af helstu ástæðunum fyrir því af hverju Swapo-flokkurinn og stjórnkerfið í Namibíu eiga í tilvistarkreppu um þessar mundir. Samherjamálið er stærsta spillingarmál sem komið hefur upp í sögu landsins.
Graham Hopwood, stjórnandi stofnunar í Namibíu sem heitir Public Policy Research (IPPR), sem fjalllar um stjórnmál og stjórnsýslu, segir meðal annars í viðtali við namibíska blaðið The Namibian að þessi viðleitni Shangala sé fráleit. „Það er fáránlegt af honum að reyna að greina ástandið. Ég vil ekki fara í smáatriðum ofan í einstaka staðhæfingar hans vegna þess að mér finnst út í hött af honum að tjá sig um framtíð Swapo-flokksins þegar hann sjálfur er ein af ástæðunum fyrir þeim vandræðum sem flokkurinn á í núna,“ segir Hopwood.
Þessari gagnrýni á skrif og umvandandi Sacky komu fram í forsíðufrétt The Namibian á miðvikudaginn.
Ekki ríkt af auðlindum
Annað sem Shangala talar í skrifum sínum er að öfugt við það sem oft er sagt um Namibíu þá sé landið í reynd ekki ríkt af nátturuauðlindum, meðal annars fiski og öðrum sjávardýrum. „Þegar kemur að veiðum á sjávardýrum og fiskveiðum þá eru einungis sex fisktegundir sem hafa verið kvótasettar: lýsingur, steinahumar, rauðkrabbi, skötuselur, hestamakríll og selir … […] Þrátt fyrir 2000 km strandlengju sem nýtur Benguela-straumsins þá eru eru fiskveiðiauðlindir Namibíu takmarkaðar,“ segir Shangala í texta sínum og bendir á að fyrir vikið eigi Namibía erfitt með að koma sér upp gjaldeyrissvaraforða vegna of lítils útflutnings.
Shangala segir að tölur um útflutning Namibíu tali sínu máli og ríkið sé ekki auðugt af náttúruauðlindum, öfugt við til dæmis Mósambík þar sem mikið er um jarðgas. „Eins og umræðan hér að ofan sýnir þarf Namibía að endurskoða þá hugmynd að landið sé ríkt af náttúruauðlindum þar sem tölurnar segja aðra sögu.“
Eitt af vandamálunum við þessi orð Shangala, segir áðurnefndur Graham Hopwood, er að hann er sjálfur ásakaður um og ákærður fyrir mútuþægni í tengslum við fiskveiðiauðlindir Namibíu. Sú staðreynd að fiskveiðiauðlindir Namibíu eru ekki nægilega tekjuskapandi fyrir landið er því meðal annars Sacky sjálfum að kenna þar sem peningarnir sem Samherji greiddi fyrir aðgang að hestmakrílskvótanum í Namibíu runnu að stóru leyti í vasa Shangala og viðskiptafélaga hans í Swapo-flokknum en ekki til ríkisins.
Athugasemdir