Stærsti eigandi íslenska laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, norska laxeldisfyrirtækið Salmar, setur stóraukinn kraft og fjármuni í þróun á aflandseldi á eldislaxi í Noregi samtímis sem fyrirtækið fagnar jákvæðum tíðindum frá Skipulagsstofnun á Íslandi um að fá að framleiða 10 þúsund í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Salmar AS fyrir fjórða ársfjórðung árið 2020 og fréttatilkynningum frá félaginu í gær. Salmar á rúmlega 54 prósenta hlut í Arnarlaxi, sem gengur undir nafninu Icelandic Salmon á ensku.
Aflandseldi á laxi gengur út á að flytja kvíarnar sem laxinn er alinn í burt úr fjörðum og frá ströndum landa og út á rúmsjó þar sem hafdýpi er meira og sjávarstraumar eru sterkari. Tilgangurinn er meðal annars að koma á laggirnar umhverfisvænna laxeldi í sjó og skapa meiri sátt um greinina.
„Fókus Salmar á úthafsfiskeldi markaði upphafið á nýjum tímum í sjávarútvegi.“
Þróar umhverfisvæna aðferð með hægri en fjárfestir í sjókvíaeldi með vinstri
Þetta þýðir í reynd að Salmar gengst við því að vera með annarri hendi að þróa umhverfisvænni lausn í laxeldi en sjókvíaeldi við strendur landa samtímis og það heldur áfram að nota þessa minni umhverfisvænu framleiðsluaðferð, meðal annars á Íslandi, þrátt fyrir umhverfisáhrif hennar. Yfirskrift og fyrsta setningin í fréttatilkynningu Salmar AS um árshlutauppgjör sitt staðfestir þetta. „Á 30 ára afmæli sínu eykur Salmar kraft sinn í þróun á aflandseldi á fiski. Með þessu vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum við að leysa þær mikilvægu umhverfislegu og staðbundnu áskoranir sem eldisiðnaðurinn stendur frammi fyrir.“
Enn fremur segir forstjóri og helsti hluthafi Salmar AS, Gustav Witzøe, í fréttatilkynningunni um uppgjörið: „Fókus Salmar á úthafsfiskeldi markaði upphafið á nýjum tímum í sjávarútvegi. Aflandsfiskeldi opnar fyrir margs konar nýja möguleika á sjálfbærri framleiðslu á matvælum og aðstoðar við að tryggja fæðuframboð í heiminum til lengri tíma litið,“ er haft eftir Witzøe í tilkynningunni.
Skipulagsstofnun með jákvæð viðbrögð
Í árshlutauppgjöri fyrirtækisins kemur svo fram að Salmar hyggist framleiða 14 þúsund tonn af eldislaxi í sjókvíum við Ísland árið 2021. Þetta er sú framleiðsluaðferð á eldislaxi sem forsvarsmenn Salmar átta sig á að er minna umhverfisvæn en aflandseldið sem þeir eru svo stoltir af að hafa byrjað með í greininni. Enn fremur segir í árshlutauppgjörinu um atburði eftir lok reikningsskiladag að Arnarlax hafi fengið jákvæð viðbrögð frá Skipulagsstofnun um 10 þúsund tonna framleiðslu í Ísafjarðardjúpinu en mikill styr hefur staðið um sjókvíaeldi í Djúpinu síðastliðin ár.
„Í febrúar 2021 fékk Icelandic Salmon jákvæð viðbrögð frá Skipulagsstofnun um ný framleiðsluleyfi í Ísafjarðardjúpi, samtals fyrir 10 þúsund tonnum. Í kjölfarið á niðurstöðu Skipulagsstofnunaar mun umsókn Arnarlax verða send til MAST og Umhverfisstofnunar til frekara mats og skrefa í átt að hinum nýju leyfum,“ segir í árshlutauppgjörinu.
Í skýrslu Skipulagsstofnunar um eldishugmyndir Arnarlax segir meðal annars: „Skipulagsstofnun telur að helstu neikvæðu áhrif eldisins felist í auknum áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar, mögulegum áhrifum á villta laxfiska vegna aukins álags laxalúsar og mögulegum áhrifum á villta laxfiskstofna vegna erfðablöndunar.“
En Skipulagsstofnun telur samt að áhrif eldisins á villta laxastofna verði óveruleg: „Með vísan í áhættumat erfðablöndunar telur Skipulagsstofnun því að áhrif eldis Arnarlax á frjóum laxi á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg,“ segir í niðurstöðunni um eldishugmyndirnar. Skipulagsstofnun leggst því ekki gegn sjókvíaeldinu, meðal annars á þessum forsendum.
Talar fyrir 500 þúsund tonna laxeldi
Eins og Stundin hefur fjallað um, og þrátt fyrir að eigandi Arnarlax telji sjókvíaeldi við strendur landa ekki vera framtíðina, þá hefur Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax, stigið fram í kjölfar COVID-19 faraldursins og talað um fyrir því að margfalda sjókvíaeldi á Íslandi.
Í grein í Morgunblaðinu í mars í fyrra sagði Kjartan að Ísland geti framleitt allt að 500 þúsund tonn af eldislaxi. Þetta er nærri 19-földun á framleiðslu á eldislaxi miðað við hveru mikil framleiðslan var 2019, 27 þúsund tonn, og er langtum meira en þau 140 þúsund tonn sem Hafrannsóknastofnun hefur mælt með að sé raunhæf framleiðsla hér á landi miðað við burðarþol þeirra fjarða sem stofnunin hefur kannað.
Í greininni sagði Kjartan: „Með 500.000 tonna ársframleiðslu á laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar [Noregs og Færeyja].“
„Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi.“
Til þess að þetta megi verða þurfa stjórnmálamenn og stjórnvöld hins vegar að ganga í takt með laxeldisfyrirtækjunum eins og Kjartan sagði í niðurlagi sínu í greininni: „Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi. Skýr stefna og markmiðasetning yfirvalda er nauðsynleg til að byggja ofan á þekkingu okkar og reynslu í sölu og framleiðslu sjávarafurða og tryggja þannig stöðu okkar sem leiðandi sjávarútvegsþjóð í heiminum til framtíðar.“
Eigandi Arnarlax, Salmar, telur hins vegar ekki, ólíkt Kjartani, að framtíð fiskeldis liggi í „bláum ökrum“ í fjörðum landa heldur langt í burtu frá þeim, úti á rúmsjó, þar sem umhverfisáhrifin eru minni.
Athugasemdir