Hæstiréttur dæmdi í dag Þórhall Guðmundsson, einnig þekktan sem Þórhallur miðill, í 18 mánaða fangelsi fyrir nauðgun. Hann þarf einnig að greiða þolanda 1,2 milljónir króna í miskabætur.
Þórhalli var gefið að sök að hafa fróað manni án hans samþykkis á heimili sínu í september 2010. Lá maðurinn á nuddbekk og var í heilunarmeðferð hjá Þórhalli. Hann var sakfelldur í héraðsdómi fyrir verknaðinn, en áfrýjaði dómnum til Landsréttar þar sem hann var óraskaður. Hæstiréttur hreyfir ekki við lengd fangelsisvistarinnar en hækkar miskabæturnar úr 800 þúsund krónum í 1,2 milljónir.
Fellst Hæstiréttur jafnframt á að Þórhallur hafi beitt ólögmætri nauðung og misnotað það traust sem brotaþoli bar til hans sem heilara. Brotaþoli var tvítugur þegar brotið átti sér stað og lagði fram kæru árið 2016, sex árum eftir atburðinn. „Þegar ákæra í málinu var gefin út voru tæp átta ár liðin frá broti,“ segir í dómnum. „Með hliðsjón af því og þrátt fyrir alvarleika brots ákærða þykir ekki næg ástæða til að hagga við refsingu hans.“
Athugasemdir