Ungur maður er skotinn í höfuðið með skammbyssu með hljóðdeyfi fyrir framan hús sitt í venjulegu íbúðahverfi í Reykjavík. Í fyrstu fréttum er greint frá því að þetta sé Albani og á samfélagsmiðlum er því slegið upp að albanska mafían sé komin til saklausa Íslands. Við þurfum tafarlaust að láta lögguna hafa fleiri skammbysssur til að verja okkur.
Síðan þykknar plottið.
Vellríkur íslenskur „athafnamaður“ í Garðabæ, sem þykir framúrskarandi í golfi, er handtekinn í sumarbústað á Suðurlandi en þar er hann á flótta undan skuggaverum úr undirheimum Reykjavíkur eftir að lögregluskýrslu um að hann væri helsti uppljóstrari lögreglunnar var lekið á netið.
Sú saga gengur fjöllunum hærra að „athafnamaðurinn“ í Garðabænum hafi haft lögregluskýrsluna undir höndum og henni hafi verið stolið af heimili hans af kunningja hans, sem lét annan íslenskan „athafnamann“, sem er einnig þekkt persóna úr undirheimum borgarinnar, hafa hana. Það hafi leitt af sér atburðarásina sem leiddi til morðsins. Þetta hafi verið hefndarmorð.
Þessir „athafnamenn“ eru báðir þekktir menn fyrir að berast á og þótt almannarómur segi þá vera glæpamenn eru þeir líka umfjöllunarefni fyrir íburðarmikinn lífsstíl og fína vini.
Inn í þetta blandist svo hópar dyravarða af erlendum uppruna sem hafa starfað fyrir mennina, en hinn myrti er sagður vera einn þeirra og einnig sá sem var handtekinn fyrstur í íbúð athafnamannsins í Garðabæ. Hann er sagður hafa tekið að sér að vernda athafnamanninn eftir að lögregluskýrslunni var lekið.
Það virðast vissulega vera margir glæpamenn hér sem annars staðar úr þeim heimshluta þar sem mannslíf eru ódýrari vegna fátæktar og grimmdar, sem er fylgifiskur skipulagðrar glæpastarfsemi. En þeir eru líka oft á vegum íslenskra glæpamanna.
Íslenska mafían
Það hefði frekar mátt láta sér detta í hug að þarna sé vísir að íslenskri mafíu. Valdajafnvægið virðist allavega samkvæmt þessu vera litla saklausa Íslandi í hag. Fulltrúi Albaníu í þessum glæpareyfara liggur sundurskotinn á bílastæðinu fyrir framan heimili sitt og skilur eftir sig föðurlaust barn og annað í móðurkviði.
Það er allavega ekki það fyrsta sem manni dettur í hug, að íslenska lögreglan þurfi fleiri byssur til að verjast albönsku mafíunni.
En það er samt umræðan sem ratar inn á Alþingi og í fyrirsagnir fjölmiðla.
„Hvernig komust þessir menn yfir skýrslur með trúnaðarupplýsingum lögreglu?“
Hvernig komust þessir menn yfir skýrslur með trúnaðarupplýsingum lögreglu? Kallar það ekki á rannsókn innan lögreglunnar, eða rannsókn á lögreglunni? Var sú rannsókn farin af stað þegar morðið var framið?
Nú virðist það vera nokkuð óumdeilt af trúnaðarupplýsingunum að dæma að lögreglan hafi fengið upplýsingar hjá „athafnamanninum“ í Garðabænum. En er það satt að þessi maður hafi náð að verða óheyrilega ríkur á fíkniefnaviðskiptum meðan lögreglan hafi látið það óáreitt í skiptum fyrir upplýsingar um aðra innflytjendur og fíkniefnasala?
Getur verið að það sé rétt að morðið eigi rætur sínar í vinnubrögðum lögreglu?
Hver er réttlætingin fyrir slíku samstarfi lögreglu og glæpamanna? Hvenær hættir þetta að vera samband uppljóstrara og lögreglu og verður spilling? Hvar liggur línan?
Hvað koma byssur þessu við?
Vissulega þarf að ríkja leynd yfir lögreglurannsóknum en um vinnubrögðin þarf að ríkja sátt. Og almenningur þarf að vera upplýstur um hvað lögreglan má og hvað ekki. Mörkin mega ekki vera algerlega fljótandi.
Í lögregluskýrslunni sem var lekið á netið kom líka fram að ungur maður sem var áður í innsta hring athafnamannsins hefði gert lögreglu viðvart um óeðlileg samskipti hans og lögreglufulltrúa við embættið. Lögreglufulltrúanum var sagt frá þessu þótt ungi maðurinn hefði talið ástæðu til að óttast um líf sitt. Skömmu seinna fyrirfór uppljóstrarinn sér. Lögreglan þvoði hins vegar af sér spillingarstimpilinn með innanhússrannsókn sem leiddi ekkert misjafnt í ljós og „athafnamaðurinn“ hélt áfram að athafna sig.
Nú er ekkert hægt að fullyrða um þennan lögreglufulltrúa en þetta vekur spurningar um aðferðafræði lögreglunnar og öryggi almennings sem lætur hana hafa upplýsingar.
Við viljum vissulega að lögreglan hafi það sem þarf til að uppræta glæpi. En það er hæpið að það veiti okkur öryggistilfinningu að láta lögregluna hafa fleiri byssur. Og kemur þessu máli í raun ekkert við.
Það er miklu brýnna að stjórnmálamenn ræði vinnubrögð lögreglu og samstarf hennar við glæpamenn á upplýsandi hátt þegar rykið sest. Við þurfum að geta treyst lögreglunni og til þess þarf að vera sátt um það vald sem hún tekur sér.
Ekki bara hvað hún má eiga margar byssur.
Athugasemdir