Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnaorkuvopnum verður fullgiltur í New York á morgun og verður þar með að alþjóðasáttmála. Ísland er ekki eitt þeirra ríkja sem styður sáttmálann heldur hefur skipað sér á bekk með kjarnorkuveldunum og NATO-þjóðum. Þingkona Vinstri grænna segir Ísland eiga að þora að standa á eigin fótum og fullgilda sáttmálann, sem muni vonandi verða til þess að þessum vítisvopnum verði útrýmt.
Upphaf málsins má rekja til ársins 2016 en á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna það ár og árið eftir var saminn sáttmáli þess efnis að fortakslaust ætti að banna kjarnorkuvopn. Ýmsir samningar voru þegar í gildi í heiminum sem fólu í sér takmarkanir á framleiðslu og meðferð kjarnorkuvopna. Þeirra mikilvægastur er NPT-sáttmálinn frá 1968, sáttmálinn um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna sem gjarnan er vísað til þegar ríki sem ekki eru þegar kjarnorkuveldi reyna að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Í þeim sáttmála eru ákvæði sem setja skyldur á herðar kjarorkuveldanna um að vinna að útrýmingu slíkra vopna en þau ákvæði hafa litla þýðingu haft.
„Við eigum að þora að standa á eigin fótum í þessum málum“
Nokkur fjöldi ríkja ásamt samtökum friðarsinna töldu því að fullreynt væri að þrýsta á um afvopnun með vísan til NTP-sáttmálans og hófu því vinnu við að semja nýjan sáttmála, þann sem verður fullgiltur á morgun. Alþjóðasamtökin ICAN þrýstu hvað mest á um það og hlutu Friðarverðlaun Nóbels árið 2017 fyrir vikið.
Sáttmálinn um bann við kjarnorkuvopnum var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York í júlí 2017 af 122 ríkjum. Ísland var ekki þar á meðal heldur sniðgekk ráðstefnuna þegar að sáttmálinn var saminn. Kjarnorkuveldin og NATÓ-ríkin studdu þá ekki sáttmálann.
Nú hafa 86 ríki samþykkt sáttmálann og 51 ríki fullgilt hann og í ljósi þess að 100 dagar eru liðnir síðan að 50. ríkið fullgilti sáttmálann mun hann öðlast gildi að alþjóðlögum á morgun. Meðal ríkja sem hafa fullgilt samninginn má nefna Austurríki, Írland, Möltu og Nýja-Sjáland.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri-grænna, vakti athygli á málinu í umræðum um störf þingsins í gær. Steinunn Þóra hefur áður lagt fram þingsályktunartillögu um að Ísland undirriti og fullgildi samninginn, síðast í október 2020. „Þetta er sáttmálinn sem mun útrýma kjarnorkuvopnum í veröldinni og hans verður minnst í framtíðinni sem tímamótaviðburðar. [...] Við eigum að þora að standa á eigin fótum í þessum málum.
Athugasemdir