Namibíski lögmaðurinn, Marén de Klerk, segir að gerð hafi verið tilraun til að ræna honum og jafnvel ráða hann af dögum eða valda honum skaða eftir að hann flúði Namibíu í kjölfarið á því að Samherjamálið kom upp þar í landi í nóvember 2019. De Klerk segist í yfirlýsingu sem hann sendi namibískum yfirvöldum í apríl síðastliðinn hafa unnið fyrir tvo af sakborningunum í málinu, þá James Hatuikulipi og Sacky Shangala, við að millifæra peninga í félaganetinu sem þeir settu upp til að taka við og miðla greiðslum, frá meðal annars Samherja.
Lögmaðurinn sagði að James og Sacky hefðu sagt við hann að þeir ynnu að undirlagi forseta Namibíu, Hage Geingob. De Klerk heldur því fram að fjármunirnir hafi að hluta til runnið til Swapo-flokksins, ráðandi valdaflokks í landinu sem alltaf hefur fengið meirihluta í kosningum í landinu.
Í yfirlýsingunni segir de Klerk að vegna vitnisburðar síns í málinu þá óttist hann um líf sitt: „Þegar ég lá á sjúkrahúsi í Suður-Afríku þann 14. febrúar 2020 var gerð tilraun til að ræna mér eða, eftir atvikum, að ráða mig af dögum eða valda mér skaða. […] Ég óttast um velferð mína og eiginkonu minnar,“ segir hann í yfirlýsingu sinni.
Ásökun de Klerks virðist beinast að namibískum aðilum sem telja vitnisburð hans í málinu geta skaðað valdamikla aðila í landinu.
Málið stækkar og ný nöfn koma fram
De Klerk er því að segja að þar sem hann búi yfir upplýsingum sem sýni aðkomu háttsettasta ráðamanns Namibíu, forsetans Hage Geingob, að málinu þá séu líkur á því að líf hans geti verið í hættu. Í upphaflegum umfjöllunum Kveiks, Stundarinnar og Al-Jazeera um málið í nóvember 2019, á grundvelli gagna frá Wikileaks, var ekki fjallað um þessa meintu aðkomu Geingob að málinu. Enda kemur nafn Geingobs ekki fram í þeim gögnum sem undirbyggðu málið þó svo sakborningarnir í málinu sem unnu með Samherja komi úr Swapo-flokknum. Þá bendir ekkert til beinna samskipta Samherja og Geingobs en fyrir liggur að Samherji átti í beinum samskiptum ítrekað við sjávarútvegsráðherra landsins, Bernhard Esau.
Þá nefnir de Klerk einnig namibíska kaupsýslumanninn Adrian Jacobus Louw til sögunnar og segir hann í yfirlýsingunni að hann hafi unnið fyrir hann sem lögmaður frá árinu 2014. Louw hafi, með sams konar hætti og Samherji gerði, komið á samstarfsverkefni í sjávarútvegi í Namibíu með aðstoð Sacky Shangala og James Hatuikalipi árið 2016. Komið var á samstarfi á milli ríkisfyrirtækisins Fiscor, þar sem James var stjórnarformaður og sem Samherji fékk einnig kvóta frá, og fyrirtækis sem síðar fékk nafnið Seaflower. Tilgangurinn með þessu samstarfsverkefni var að koma kvóta til kaupsýslumannsins Louw sem hann hefði annars ekki komist yfir.
Orðrétt segir de Klerk um þetta: „Fyrir mér var það ljóst að væntingar Louw voru þær að hann fengi slíka sérmeðferð að honum yrði tryggðir fiskveiðikvótar án þess þó að hann þyrfti að keppa við aðra um þá. Shangala og sjávarútvegsráðherrann áttu að tryggja það í krafti opinberra embætta sinna að hann fengi fiskveiðikvóta sem hann hefði annars ekki komist yfir.“
Fyrir þjónustu sína átti de Klerk að fá greiðslur sem líktust „símanúmerum“ eins og það er orðað í yfirlýsingu hans. „Ég var bergnuminn af því hvernig þetta tækifæri gæti breytt lífi mínu til hins betra, sérstaklega þar sem tekjumöguleikar mínir höfðu dregist saman sökum þess að ég var ekki tengdur Swapo-flokknum, auk þess sem það var gott að stunda viðskipti með manni eins og Louw.“
Samherjasagan endurtekur sig
Í yfirlýsingunni teiknar de Klerk því upp atburðarás sem er svipuð því sem Jóhannes Stefánsson, uppljóstrari í Samherjamálinu í Namibíu, hefur teiknað upp hvað varðar íslensku útgerðina. Tilgangurinn var meðal annars að fjármagna Swapo-flokkinn.
Namibíski athafnamaðurinn Louw er í hlutverki Samherja í þessari sögu, James og Sacky gegna svipuðum hlutverkum og í sögunni af Samherja, de Klerk verður á endanum eins konar uppljóstrari með sams konar hætti og Jóhannes eftir að hafa tekið virkan þátt í fléttunum og fyrirtækin sem eru notuð eru að hluta til þau sömu og nefnd hafa verið í rannsókn Samherjamálsins. Meðal annars nefnir de Klerk félögin Otuafika Logistics og JTH Trading sem félög sem hann greiddi peninga til en þau tóku einnig við peningum í fléttunum í þeim anga málsins sem snertir Samherja.
Um aðkomu Hage Geingob að málinu segir de Klerk meðal annars: „Shangala sagði mér að „stjórinn“ hefði skipað Hatuikulipi sem efnahagsráðgjafa sinn til að teikna upp kerfi til að taka við þessum fjárframlögum.“
„Ég fullyrði að það séu prima facie sönnunargögn sem sem sýni það að namibískir embættismenn muni gera allt sem þeir geta til að þagga niður í mér.
Peningar til að halda völdum
Myndin sem de Klerk dregur upp er því af að Swapo-flokkurinn hafi, meðal annars með aðstoð Sacky og James en á endanum fyrir til stuðlan Hage Geingob forseta, veitt fyrirtækjum eins og Seaflower og Samherja aðgang að fiskveiðiauðlindum landsins gegn því að fyrirtækin greiddu þeim peninga leynilega og að þessir peningar hafi svo verið notaðir til aðstoða Swapo-flokkinn við að halda völdum í landinu.
Ef þetta er rétt nær spillingin í málinu upp til æðsta pólitíska valdhafa Namibíu og skýrir það hræðslu de Klerk við snúa aftur til Namibíu. Þess vegna vill hann halda sig í Suður-Afríku líkt og hann ræðir á síðustu blaðsíðu yfirlýsingar sinnar: „Ég fullyrði að það séu prima facie sönnunargögn sem sem sýni það að namibískir embættismenn muni gera allt sem þeir geta til að þagga niður í mér. Ég lifi nú þegar við afskipti, hótanir og áreiti frá þeim. Ég óttast um líf mitt, eiginkonu og barna. Þess vegna tilgreini ég ekki dvalarstað minn,“ skrifar de Klerk og undirstrikar að hann muni ekki yfirgefa Suður-Afríku vegna þessa.
Athugasemdir