Þegar mótmæli hófust vegna kerfisbundins kynþáttahaturs undir yfirskriftinni Black Lives Matter brugðust sumir við með því að árétta að öll líf skipti máli, ekki bara svört. Það er formlega rétt, en að sama skapi án samhengis og til þess fallið að afbaka mótmæli réttindasinna gegn róttæku ranglæti.
Sams konar viðbragð hefur tekið sig upp á Íslandi eftir að öfgasinnar á bandi Bandaríkjaforseta yfirbuguðu lögreglu þinghússins í Washington, sumir vel búnir vopnum og með útbúnað til valdbeitingar, ofbeldis og innbrota, í þeim tilgangi að stöðva staðfestingu forsetakosninga og finna þingmennina sem vildu staðfesta þær og láta varaforsetann þola afleiðingar af því að grípa ekki völdin fyrir þá. „Hang Mike Pence,“ kyrjaði innrásarhópurinn.
Endursögn Búsáhaldabyltingarinnar
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi - Þorlákshöfn og nágrenni - sem hefur eflaust metnað til stærri embætta miðað við áherslumálin, sendi grein á Vísi í gær með fyrirsögninni "Réttlætir árásir öfga vinstrimanna á þinghús á Íslandi en fordæmir árásir öfga hægrimanna á þinghús í Washington". Grein hans virkar sem liður í markaðssetningu á honum hjá tilteknum markhópum. Fleiri hafa fært fram sjónarmið um samsemd Búsáhaldabyltingarinnar og innrásarinnar í Þinghúsið í Washington, en þar sem hann hefur tranað sér fram sem forsprakki þessara sjónarmiða er einfaldast að horfa til hans.
Þess utan er það sem hann er að selja ekki eins saklaust og afmarkaður metnaður eins manns.
Efnisleg niðurstaða greinar Elliða er að öll þinghús skipti máli. Það hafi verið innrás í þinghúsið í Washington, og það hafi verið innrás í þinghúsið á Íslandi, en hræsnisfullt fólk (vinstri menn) leggi það ekki að jöfnu.
Nokkur nauðsynleg atriði samhengis sýna fljótt fram á að bæjarstjórinn í Ölfusi farinn suður á bóginn í málflutningi sínum og fjarlægist grundvallarsamkomulag lýðræðisins.
10 atriði sem sýna ósambærileika
1. Búsáhaldamótmælin voru ástunduð í því nafni að virkja lýðræðið en ekki stöðva framgang þess.
2. Mótmælendur voru almennir og óflokkspólitískir, en ekki sérstakir stuðningsmenn eins flokks eða stjórnmálamanns.
3. Mótmælin komu í kjölfar þess að yfirvöld og helstu forkólfar viðskiptalífsins lugu að almenningi leynt og ljóst.
4. Fjöldi fólks var að tapa eigum sínum, meðal annars með sjálfvirkri eignaupptöku verðtryggingarinnar og annarri beinni eða óbeinni gengistryggingu lánveitenda.
5. Þótt það hafi ekki allt verið þegar þekkt, voru lykilleikendur í stjórnmálum, embættiskerfinu og bankakerfinu að bjarga eigin skinni með aðgengi að innherjaupplýsingum, á meðan almenningur var blekktur um stöðuna.
6. Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi þingkona Vinstri grænna, er ekki sambærileg við Donald Trump og það að hún hafi hugsanlega veifað mótmælendum úr glugga Alþingis á einhverjum mótmælanna, er ekki í líkingu við langvarandi, stöðugar ásakanir eins valdamesta manns heims um kosningasvik og áeggjan hans um aðgerðir gegn vondum þingmönnum, "óvinum fólksins" og fleirum.
7. Mótmælendur voru að reyna að komast inn á þingpalla, svæði sem er opið almenningi, en ekki inn í þingsal til að yfirbuga þingmennina.
8. Mótmælendurnir höfðu ekki lýst vilja til að lífláta stjórnmálamennina inni í byggingunni og voru ekki með búnað til að handsama þá.
9. Fimm létu lífið í innrásinni í Þinghúsið í Washington, einum atburði sem tók nokkrar klukkustundir. Búsáhaldamótmælin stóðu yfir í rúma þrjá mánuði, frá 18. október til 31. janúar 2009, þar til viðskipta- og bankamálaráðherra hafði loks sagt af sér, og ólíkt flestum sambærilegum mótmælaöldum erlendis lést sem betur fer enginn og ofbeldisfullu athæfi var jafnan mætt af öðrum mótmælendum til varnar lögreglu.
10. Það mikilvægasta: Mótmælendur í Búsáhaldabyltingunni voru ekki að þvinga fram valdasamþjöppun, heldur voru þetta valdalausir einstaklingar án flokksbanda að beita sínum takmörkuðu meðölum vopnlausir til að hafa áhrif á stjórnmálamenn sem kröfðust þess að fá vinnufrið þegar pólitískur, efnahagslegur, siðferðislegur og samfélagslegur forsendu- og trúnaðarbrestur var fyrir áframhaldandi störfum þeirra í umboði almennings, að minnsta kosti að mati flestra: 26% studdu ríkisstjórn Geirs Haarde í lok janúar 2009, sem 83% höfðu stutt einu og hálfu ári fyrr.
Tilraun til að ómerkja kosningar
Elliði bæjarstjóri er einmitt liðsmaður í flokki Geirs, þeim flokki sem hefur setið við völd meira en 80% lýðveldistímans. Í grein sinni fjallar hann um Katrínu Oddsdóttur, sem er formaður Stjórnarskrárfélgasins. Hvað sem hverjum finnst um 12 ára gamla ræðu hennar eða skoðanir hennar á stjórnarskrá, er hún baráttukona fyrir því að niðurstöðum lýðræðislegra, beinna kosninga verði fylgt, kosninga sem flokksmenn Elliða hafa staðið gegn því að virða. Í grein sinni reynir Elliði að grafa undan trúverðugleika baráttunar með því að segja að kosningar hefðu verið ógiltar, en sneiðir hjá því að það voru kosningar til stjórnlagaþings sem Hæstiréttur dæmdi formlega ógildar vegna uppsetningar á kjörstöðum, en enginn hefur ógilt kosningarnar 2012 þar sem almenningur samþykkti að leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, nema stjórnmálamenn eins og samflokksmenn Elliða.
Whataboutismi
Það er þekkt viðbragð til að draga úr gagnrýninni umræðu með því að benda á eitthvað annað verra, oft kallað whataboutismi. En þetta er meira en að benda á eitthvað annað, þetta er að snúa út úr því sem rætt er um. Auðvitað skipta öll líf máli. Efni mótmælanna var ekki að svört líf ættu að skipta meira máli en hvít, heldur að þau ættu að skipta máli yfirhöfuð, vegna þess að þau eru meðhöndluð sem minna virði. It's OK to be white, er annað. Límmiðum með þessu slagorði hefur til dæmis verið dreift í Reykjavík. En enginn sagði að það væri ekki í lagi að vera hvítur, það þarf bara að vera einstaklingum skaðlaust að vera af öðrum hörundslit.
Og enginn sagði nokkurn tímann að það væri í lagi að vopnaðir öfgamenn reyndu að yfirtaka Alþingi Íslendinga til þess að tryggja áframhaldandi völd forsætisráðherra sem hefði tapað í kosningum, en rakalaust logið því að hann hefði unnið og reynt markvisst að fá embættismenn sem kjörna fulltrúa til að breyta niðurstöðunni og espa upp múg stuðningsmanna til þess að „berjast“ við „vonda fólkið“, „berjast eins og andskotinn“ til að „stöðva stuldinn“.
Við gerum ekki lítið úr því að hópur mótmælenda getur valdið ótta og tjóni. Þingvörður meiddist á öxl við ruðning svokölluðu níumenninganna sem ruddust inn til að komast á áhorfendapallana. Allir bera ábyrgð á sínu athæfi, en það er ekki sambærilegt þegar valdhafar eða valdalausir einstaklingar beita sér.
Atburðir síðustu mánaða í Bandaríkjunum hafa sýnt að lýðræðið hangir á gildismati einstaklinga í lykilstöðum á lykilaugnablikum. Þegar einn brestur eykst kraftur valdasamþjöppunar eins og þyngdarafl. Lýðræðið snýst um að hindra valdasamþjöppun, ekki að stöðva valdeflingu einstaklinga sem valdhafar brjóta gegn. Tilfelli Trumps hefur kennt okkur að viðhorf stjórnmálamanna til lýðræðis er mikilvægara en nokkuð annað sem þeir sýna á sér. Útúrsnúningur Elliða og félaga á lífsspursmálum lýðræðisins er hvorki boðlegur í Þorlákshöfn og nágrenni né öðrum vestrænum lýðræðissamfélögum.
Athugasemdir