Sögulegar umræður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings um ákæru á hendur Donald Trump fyrir alvarlega glæpi og misgjörðir enduðu með því að ákæra var samþykkt rétt í þessu.
Trump er fyrsti Bandaríkjaforsetinn til þess að verða ákærður fyrir þinginu tvisvar.
Nú þegar Af 435 þingmönnum í fulltrúadeildinni samþykktu 232 að ákæra Trump - þar af 10 þingmenn repúblikana. 197 þingmenn repúblikana höfnuðu því að ákæra forsetann.
„Forsetinn verður að verða ákærður og ég trúi því að forsetinn verði dæmdur af öldungadeildinni, með stjórnarskrárbundnu úrræði sem mun tryggja lýðræðinu öruggt skjól frá þessum manni sem er algerlega staðráðinn í að rífa niður það sem okkur er kært og sameinar okkur. Það færir mér enga ánægju að segja þetta. Það brýtur í mér hjartað,“ sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar fyrir hönd demókrata, í umræðunum í kvöld.
Adam Schiff, demókrati frá Kaliforníu sem leiddi fyrra ákæruferlið í fulltrúadeildinni, sem kom til vegna tilrauna Trumps til nota hernaðaraðstoð til Úkraínu sem vogarafl til þess að fá þarlend yfirvöld til að rannsaka Joe Biden og son hans, Hunter, sagði Bandaríkin hafa „gengið í gegnum borgarastríð, heimsstyrjaldir, heimsfaraldra, McCarthyisma, og nú trumpíska uppreisn hvítra þjóðernissinna“. „En samt lifir lýðræðið af. Það lifir vegna þess að við hver vegamót, á öllum lykilstundum, þegar illt ógnar stöðu hins góða, stíga þjóðhollir Bandaríkjamenn fram og segja „nóg komið“. Þetta er eitt af þessum augnablikum.“
Reyndi að framkalla kosningasvik
Í ákærunni segir að Trump hafi egnt múg fólks til uppreisnar gegn Bandaríkjunum. Hann er einnig ákærður fyrir símtal sitt til innanríkisráðherra Georgíuríkis, þar sem hann „misnotaði vald embættis síns með því að hóta kjörnum fulltrúa með óljósum afleiðingum ef hann hlýddi ekki ósönnum ásökunum og reyndi að þvinga kjörinn fulltrúa til að fremja umboðssvik“.
Í stjórnarskrá er kveðið á um að hver sá sem tekið hafi þátt í uppreisn gegn Bandaríkjunum sé útilokaður frá opinberu embætti. „Með framferði sínu sem forseti Bandaríkjanna og í bága við stjórnarskrárbundna skyldu hans til að sinna embætti forseta Bandaríkjanna af heilindum og viðhalda, vernda og verja stjórnarskrá Bandaríkjanna, og í bága við stjórnarskrárbundna skyldu sína að tryggja að lögum sé framfylgt af heilindum, misnotaði Donald John Trump vald sitt sem forseti í því skyni að espa upp ofbeldi og stýra valdaránstilraun gegn landi okkar.“
Trump hafi egnt múg gegn þinginu
Egningu múgsins er lýst með eftirfarandi hætti í ákærunni:
„Hann egndi hóp stuðningsmanna sinna í Washington til þess að ráðast með ofbeldi gegn Þinghúsinu í Washington meðan báðar deildir Bandaríkjaþings héldu þingfund, með orðunum: „Þið munið aldrei taka land okkar aftur með veikleika. Þið verðið að sýna styrk og þið verðið að vera sterk“. Eftir að þessir stuðningsmenn höfðu ruðst inn í Þinghúsið með ofbeldi, sendi hann frá sér aðra yfirlýsingu og endurtók ósannar fullyrðingar um kosningasvik og sagði meðlimum múgsins: „Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök.“
Í ræðu sinni undir yfirskriftinni Save America, fyrir umræður á þinginu 6. janúar, sagði Trump stuðningsmönnum að forsetakosningunum væri stolið af sér og þeim. Hann hafi unnið kosningarnar „með yfirburðum“. Hann sagði að „aðrar reglur“ giltu. Þá sagði hann: „Ef Mike Pence [varaforseti] gerir hið rétta, vinnum við kosningarnar.“ Hann hvatti hópinn til að berjast. „Ef þið berjist ekki af fullu afli [e. like hell], munið þið ekki lengur eiga land.“
Á einum tímapunkti sagðist hann í ræðu sinni búast við að hópurinn myndi marsera að Þinghúsinu og láta í sér heyra „friðsamlega“ og „af föðurlandsást“.
„Hann sagði hópnum nákvæmlega að mótmæla friðsamlega og af föðurlandsást. Og mikill meirihluti þeirra gerði það. En í öllum hreyfingum er geðbilaður jaðar,“ sagði repúblikaninn Tom McClintock frá Kaliforníu.
Bæði sonur hans, Donald Trump jr, og lögfræðingur, Rudy Giuliani, viðhöfðu það orðfæri að þyrfti að berjast. Þannig sagði Giuliani að „bardaga“ þyrfti til að skera úr um málið.
Segja ákæruna draga úr samstöðu
Margir þingmanna repúblikana hafa sagt að tilraunin til að ákæra Donald Trump komi í veg fyrir einingu og samstöðu á viðkvæmum tímum. Þá segja þeir ákæruna gagnslausa, enda sé aðeins rúm vika í að Trump láti af embætti. Loks vara þeir við því að ákæra án rannsóknar skapi hættulegt fordæmi. Jafnframt hafa repúblikanar gagnrýnt að tjáningarfrelsið sé í hættu vegna ákvarðana samfélagsmiðla um að loka á Trump á grundvelli þess að hann hvetji til ofbeldis.
„Ég er ekki hræddur um að missa starfið, en ég er hræddur um að landið mitt muni brotna,“ sagði Jamie Herrera Beutler úr Washingtonríki, sem var einn tíu repúblikana til að samþykkja ákæruna.
Til þess að Trump verði fjarlægður úr embætti þarf öldungadeild Bandaríkjaþings, sem telur 100 þingmenn auk oddaatkvæðis varaforseta Bandaríkjanna, að staðfesta ákæruna með auknum meirihluta tveimur þriðju þingmanna. Samkvæmt fréttum í helstu fjölmiðlum í Bandríkjunum hefur Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana og þar með meirihlutans í öldungadeildinni fram að valdaskiptunum eftir rúma viku, hvatt til ákæru gegn Trump á bakvið tjöldin.
Athugasemdir