Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýnir plastpokabann sem tók gildi nú um áramótin. Samkvæmt tölum Sameinuðu Þjóðanna eru um 1.000 milljarðar plastpoka framleiddir árlega í heiminum og endar hluti þeirra í höfum heimsins og valda mengun og skaða á dýralífi. Í færslu á Facebook rekur Sigmundur Davíð plastpokabannið til hins „nýja frjálslyndis“.
„Nýja „frjálslyndið“ heldur áfram. Nú er búið að banna plastpoka og fyrirtæki sem áttu birgðir af því sem fyrir áramót þótti sjálfsagður hlutur þurfa nú að farga pokunum eða láta þá hverfa með einhverjum hætti. Þetta mun gert til að draga úr plastmengun í hafi.“
Um er að ræða Evróputilskipun, en markmið hennar er að minnka notkun á einnota plasti. Um helmingur af öllu plasti sem framleitt er í heiminum árlega er notað í einnota plast, eins og til dæmis plastpoka. Stór hluti plastsins sem endar í höfum heimsins eru einnota umbúðir, en talið er að allt að 8 milljónir tonna af plasti endi þar árlega. Árið 2019 voru sett lög á Alþingi þess efnis að bannað var að afhenda viðskiptavinum verslana innkaupapoka úr plasti gjaldfrjálst og giltu lögin einnig um litlu pokana sem notaðir voru undir ávexti og grænmeti. Í dag er verslunum óheimilt að bjóða upp á plastpoka til viðskiptavina. Fólk getur samt áfram verslað plastpoka í rúllum.
Notaði plastpoka sem skólatösku
Sigmundur Davíð segist sjálfur hafa notað plastpoka sem skólatösku á þeim árum sem hann stundaði nám við háskóla og hafi verið hafður að háði vegna þess.
„Ég notaði jafnan plastpoka sem skólatösku á háskólaárunum og var stundum hafður að háði og spotti fyrir vikið. Það var vegna þess að pokarnir þóttu hallærislegir, ekki vegna þess að ég væri grunaður um að ætla að henda þeim í sjóinn. En þeir voru praktískir.“
Samkvæmt rannsókn Bresku umhverfisstofnunar er meðal endingartími plastpoka um 15 mínútur, svo notkun Sigmundar Davíðs á plastpokanum sínum er mun betri en meðal endingartími þeirra. Sigmundur Davíð segir hins vegar ekkert um endingartímann á öllum hinum plastpokunum sem hann hefur notað yfir ævina. Samkvæmt Umhverfisstofnun notar hver Íslendingur að meðaltali um 100 til 200 plastpoka árlega.
Fer frjálslega með staðreyndir um plastpoka
Umhverfisstofnanir víða um heim beina þeim tilmælum til fólks að notast við fjölnota poka, meðal annars úr bómull. Í færslu sinni segir Sigmundur Davíð að framleiðsla á bómullarpoka losi hátt í 200 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum en plastpoki.
„Venjulegur plastpoki úr verslun vegur um 5,5 grömm en getur hæglega borið meira en 10 kíló. Framleiðsla bómullarpoka losar hátt í 200 sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum og þá er gert ráð fyrir að plastpokinn sé bara notaður einu sinni. Ég átti Hagkaupspoka sem nýttist mér í rúmlega ár. Er mikið um að Íslendingar hendi plastpokum í sjóinn? Varla. Auk þess halda pokarnir utan um sorp og koma í veg fyrir að það fjúki í sjóinn. Má ekki fara að líta á heildarmyndina í umhverfismálum?“
Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Bresku umhverfisstofnunar eru tölur Sigmundar Davíðs ekki alveg réttar. Í rannsókninni kemur fram að eingöngu sé litið til gróðurhúsaáhrifa, það er að segja hversu mikill koltvísýringur er losaður við framleiðslu og flutningi. Samkvæmt rannsókninni losar framleiðsla á 131 plastpokum jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og framleiðsla á einum bómullarpoka. Ekki er tekið tillit til hversu mikil áhrif pokarnir hafa eftir að þeir hafa verið notaðir, en þar breytast hlutirnir mikið.
Bómullarpokinn endist nokkuð mörg ár og eftir að notkun hans er hætt er auðvelt að senda hann í endurvinnslu til að endurvinna bómullinn. Sé hann urðaður eða endi óvart úti í náttúrunni brotnar hann niður þar sem hann er úr lífrænum efnum. Hinn venjulegi plastpoki er hinsvegar í langflestum tilfellum urðaður og tekur það náttúruna allt að 500 ár að brjóta hann niður. Í fáum tilfellum er hann sendur erlendis í brennslu, til að búa til rafmagn og hita upp vatn. Í enn færri tilfellum endar hann svo í endurvinnslu erlendis og verður að nýju plasti. Vandamálið hins vegar við endurvinnsluna er að gæði plastsins minnkar í hvert skipti sem það er endurunnið og eftir örfá skipti er plastið orðið óhæft til endurvinnslu og þá er það urðað eða brennt til orkuvinnslu. Fari svo að plastpokinn fjúki út í náttúruna skapar hann fjöldann allan af vandamálum fyrir menn og dýr.
Plastpokar kyrkja dýr
Á Vísindavefnum er fjallað um plastflákana fimm, svokallaðar plasteyjur sem fljóta um heimshöfin, á norðan og sunnanverðu Kyrrahafi, norðan og sunnanverðu Atlantshafi og á Indlandshafi. Sá stærsti er á norðanverðu Kyrrahafi, sjöfalt stærri en Ísland, þar sem fundist hafa allt að 200.000 plaststykki á hvern ferkílómetra af sjó. Fyrir utan plastið sem er á floti eða marandi í hálfkafi annars staðar á í höfunum og endar líklega í flákunum að lokum. Samkvæmt rannsóknum má gera ráð fyrir að um 13.000-18.000 plaststykki megi að meðaltali finna í hverjum ferkílómetra af sjó.
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna er áætlað að 80% af plastinu komi frá starfsemi í landi. Sífellt meira finnst af venjulegum neytendavörum á borð við gosflöskur, kveikjara og tannbursta. Áætlað er að allt að 700 dýrategundir hafi orðið fyrir áhrifum af plastrusli í hafinu. Bæði vegna þess að þau geta kafnað við að gleypa plast, fyllt meltingarveginn af plasti og eins vegna þess að plastpokar, net og aðrir hlutir geta kyrkt sjávarspendýr og fugla.
Plastagnir finnast í fiskum, fuglum og drykkjarvatni á Íslandi
Plastagnir finnast í fiskum og fuglum við strendur landsins. Samkvæmt rannsókn Anne de Vries, nema í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, kom í ljós að 20,5% af öllum veiddum þorski á Íslandi innihélt plastagnir og 17,4% af öllum ufsa innihélt plastagnir. Sjónvarpsþátturinn Kveikur á RÚV fjallaði ítarlega um þessa plastmengun í einum af þáttum sínum árið 2019. Þar kom meðal annars fram að samkvæmt rannsókn, sem Aðalsteinn Örn Snæþórsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Norðausturlands, framkvæmdi, reyndist 70% fýla sem hann rannsakaði vera með plast í maganum. Þá hafa rannsóknir á magainnihaldi hvala sem hafa rekið á land sýnt fram á gífurlegt magn af plasti. Rannsóknir á kræklingum við strendur Íslands sýna einnig að meira en helmingur þeirra innihalda plastagnir. Samkvæmt rannsókn Veitna kemur fram að um 0,2 til 0,4 plastagnir finnast í hverjum lítra af vatni sem íbúar höfuðborgarsvæðisins drekka. Kveikur lét einnig greina kranavatn frá nokkrum heimilum í Reykjavík. Kom þar í ljós að um 27 plastagnir var að finna í hverjum lítra af vatni sem er drukkið á þeim heimilum. Það má segja að plast sé að finnast alls staðar á Íslandi, bæði í náttúrunni, lífríkinu, jafnvel inni í okkur sjálfum. Plastpokabann er því ekki eingöngu sett til að reyna minnka losun á gróðurhúsalofttegundum, heldur er einnig markmið bannsins að minnka plasts í umhverfinu.
Athugasemdir