Í ágúst 2013 bað Mikael Torfason ritstjóri Fréttablaðsins mig að skrifa vikulega pistla í blaðið um söguleg efni. Þarna varð til greinaflokkurinn Flækjusögur, sem ég hef haft mikla ánægju af að halda úti og vona að lesendur hafi einnig gaman af.
Í nóvember 2015 fluttu Flækjusögurnar heimili sitt og varnarþing yfir á Stundina, sem hefur hýst þær síðan, og á þessum hlekk hér má finna þær allar.
Í byrjun árs 2020 fékk ég þá hugdettu að skrifa nokkrar Flækjusögur um atburði réttri öld áður. Skoða sem sé hvað hafi verið á seyði árið 1920. Svo fór að ég hélt þessu áfram allt árið sem nú er í þann veginn að líða, og ætla hér að gefa svolítið yfirlit yfir þessar greinar – og þá um leið hvað var á seyði fyrir 100 árum.

Fyrsta greinin fjallaði um borgarastríðið í Rússlandi, en þar hafði verið allt í hers höndum síðan keisarastjórn Romanov-ættarinnar var steypt í byrjun árs 1917. Kommúnistar tóku völdin í landinu síðla þess sama árs en stjórn þeirra átti lengi við mjög ramman reip að draga, svo henni var lengi vel vart hugað líf. En í ársbyrjun 1920 var lukkan að snúast hinum Rauða her kommúnista í vil og þessi fyrsta grein í Flækjusöguflokknum „Fyrir 100 árum“ fjallar um sigur kommúnista á einum hættulegasta andstæðingi sínum, herforingjanum Koltsjak austur í Síberíu.
Í næstu grein vék sögu til Bandaríkjanna, þar sem lög gegn sölu á áfengi voru að taka gildi. Óhætt er að segja að sú tilraun til að bæta samfélagið hafi ekki náð árangri, því bannlögin urðu til þess að glæpamenn á borð við Al Capone tóku að vaða uppi.
Þriðja greinin fjallaði eins og sú fyrsta um uppgjörið í Rússlandi. Svo einkennilega brá við að þótt Rauði herinn væri víðast að ná frumkvæðinu í stríði sínu við fjölmarga andstæðinga vítt og breitt um hið mikla landflæmi Rússlands, þá fór hann halloka í Eistlandi og raunar í hinum litlu Eystrasaltsríkjunum líka. Hér segir frá því hvernig Eistland náði sjálfstæði undan risaveldinu.
Í fjórðu greininni er komið fram í febrúar-lok 1920 og hér segir frá frægum fundi sem haldinn var í bjórstofu einni í München, þar sem ungur maður las upp nýja stefnuskrá í öfgaflokki til hægri, sem stofnaður hafði verið í umrótinu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Maðurinn var Adolf Hitler sem síðan notaði árið 1920 til að treysta sífellt völd sín yfir flokki þýskra nasista.
Fimmta greinin víkur svo inn á svið listarinnar, en þar var líka mikið umrót á árinu. Greinin fjallar um hina sögulegu kvikmynd Skáp dr. Caligaris, þar sem farnar voru nýjar leiðir í leikmynd og framsetningu efnis. Leiðir sem urðu þó ekki ofan á í kvikmyndum, er fram liðu stundir.

Í sjöttu grein segir frá því þegar danski kóngurinn Kristján 10. kom öllu í uppnám í heimalandi sínu, þegar hann virtist ætla að taka sér miklu meiri völd en hann hafði í raun. Sumir töluðu um valdaránstilraun konungs, aðrir um að afskaffa kónginn!
Næst liggur leiðin aftur til Bandaríkjanna, því sjöunda greinin fjallar um upphaf á frægu sakamáli er endaði með því að ítölsku stjórnleysingjarnir Sacco og Vanzetti voru teknir af lífi. En voru þeir morðingjar eða fórnarlömb pólitískra ofsókna og fordóma?
Í áttundu grein er fjallað um nýlendumál og uppgjör vegna hruns Tyrkjaveldis í fyrri heimsstyrjöld. Þar segir frá ráðstefnu sem stórveldin í álfunni héldu á Ítalíu til að skipta með sér Miðausturlöndum – auðvitað án þess að íbúarnir væru spurðir, nema helst Gyðingar sem farnir voru að setjast að í Palestínu.
Í áratug höfðu geisað blóðug bylting og borgarastríð í Mexíkó, en árið 1920 stefndi í að róstum þar lyki, eða öllu heldur að „byltingunni lyki í for og blóði“ eins og það er orðað í níundu Flækjusögu ársins.
Aftur er vikið að þróun í kvikmyndagerð ársins 1920 í tíundu grein, en í þetta sinn fjallað um kvikmyndir í Bandaríkjunum. Hollywood var að taka öll völd í kvikmyndagerð heimsins, og nýtt fyrirtæki sem Charlie Chaplin, Mary Pickford og fleiri stofnuðu var til marks um það.
„Þegar morðinginn er hetja“ heitir ellefta Flækjusögugreinin og fjallar um mál, sem kannski er ekki á allra vitorði en segir þó sína sögu um margnefnd uppgjör við þá „veröld sem var“ fyrir fyrri heimsstyrjöld. Greinin fjallar um pólitískt morð sem framið var í París en snerist um hverjir hefðu völdin í Albaníu, einu þeirra ríkja sem Tyrkir höfðu orðið að sleppa hendi af síðustu árin.
Aftur er svo haldið yfir Atlantshafið í tólftu greininni og sagt frá því þegar svartir menn voru hengdir án dóms laga í borginni Duluth í Minnesota. Um þessa voðaatburði hefur Bob Dylan vísað í einu af sínum frægustu lögum. „Þeir seldu póstkort af hengingunni,“ heitir greinin.
Þrettánda grein er aftur komin á slóðir nýlendustefnu. Hér segir frá því er Bretar gerðu Keníu að krúnunýlendu sinni og reyndu að halda dauðahaldi í nýlenduveldi sitt, þótt öllum mætti vera ljóst að saga yfirráða „the master race“ yfir Afríku yrði fyrr en síðar á fallanda fæti.

Næstu tvær greinar fjalla um eina örlagaríkustu herferð ársins 1920, þegar Rauði herinn í Sovétríkjunum hugðist láta kné fylgja kviði eftir misheppnaða tilraun hins nýja pólska ríkis til að sigra kommúnistastjórnina í Moskvu.
Hershöfðinginn Tukhatévskí og hinn illræmdi Dsersinskí virtust standa með pálmann í höndunum og ef Rauði herinn hefði náð Póllandi, þá er eins víst að hann hefði haldið áfram til Berlínar og hreiðrað um sig í miðri Evrópu. En þá varð „kraftaverkið við Vislu“ og allt breyttist enn.
Í sextándu greininni er enn fjallað um uppgjör borgarastríðsins í Rússlandi og nú er haldið til Mið-Asíu, þar sem emír nokkur í hinni fornu borg Bukhara hélt að hann gæti staðist nútímaherdeildum Rauða hersins snúning.
Þá segir frá því hvernig Spánverjar – með dyggri aðstoð Frakka – bældu niður með miklum hrottaskap tilraun Marokkóbúa til að brjótast undan nýlenduveldi Spánar. Enn í dag reyna Spánverja að þegja þessa ömurlegu sögu í hel.
Átjánda greinin víkur aftur að uppgjöri vegna hruns Tyrkjaveldis. Nú er fjallað um Grikki sem virtust þess albúnir að leggja undir sig stóran hluta Tyrklands og þar á meðal höfuðborgina Konstanínópel. Það hefði breytt öllu valdajafnvægi á svæðinu ef Grikkir hefðu eignast borgina. En hvað kom í veg fyrir það?
Nítjánda greinin fjallar um forsetakosningar í Bandaríkjunum í nóvember 1920 þegar Warren Harding var kosinn í Hvíta húsið. Hann átti eftir að vera talinn einhver versti forseti Bandaríkjanna, þangað til Donald Trump kom til sögunnar, en hvers vegna? Þar komu við sögu bæði pólitísk mál og mjög persónuleg!

Í fyrri grein desember-mánaðar er athyglinni svo beint að nágrönnum okkar Írum, en þeir voru allt árið 1920 að reyna að brjótast undan Bretum og varð sú saga æ blóðugri eftir sem leið á árið. Og hetjur sjálfstæðisbaráttunnar voru af ýmsu tagi, er óhætt að segja.
Tutttugasta og fyrsta og jafnframt síðasta greinin fjallar svo um hroðalegan jarðskjálfta sem varð í Kína í desember 1920 og olli dauða tæplega 300.000 manna. Þar er um leið fjallað um ástand mála í Kína, en þar eins og víðar var flest upp í loft á árinu 1920 og enn meiri blikur á lofti. Hérna birtist þessi grein.
Þannig var nú árið 1920.
Var það kannski ekkert mikið skárra en 2020?
Athugasemdir