Árið 2020 byrjaði rólega en víða var mikill snjór og oft vond veður. Snjóskaðar urðu og ófærð tafði samgöngur.
Þegar leið á janúar fóru að koma fréttir af einhverjum óhugnanlegum veikindum í Wuhan í Kína. En áður hafa komið upp veirur í Kína sem hafa svo lognast út af. Slíka sögu sagði Vera Illugadóttir hlustendum frá í söguhorninu hennar einn föstudagmorgun. Hún rakti sögu Sars-veiru árið 2003 og hvernig hún dó út. Þetta varð til þess að maður trúði að þetta yrði nú ekki svo slæmt. Svo langt í burtu en fréttirnar versnuðu og versnuðu og svo kom skellurinn.
Skíðasvæði í Austurríki, Ishgl, varð okkur og Dönum að falli við að koma veirunni milli landa. Við tók óhugnanlegur tími og umræður um yfirfull sjúkrahús, leðurblökuát og skuggalega matarmarkaði í Kína. Skilaboðin voru skýr. Þangað fer maður ekki í svona villimannlega matarmenningu.
Á þessum tíma fór allt að riðlast. Fundir færðir og öll plön fóru á flakk. Hvað varð um aðalfundinn okkar? Hann endaði 30. júní þegar fjöldatakmörkin voru 200 manns. Aðstaða til stórra funda sem gæti haft rúmt á fólki var til staðar. Allir lögðu sig fram. Á þessum tíma var veiran í fullu fjöri í Bandaríkjunum og fólk aftur og aftur orðlaust yfir kjánagangi Trumps og fullyrðingar hans í allar áttir og fólk rekið til hægri og vinstri.
Á Íslandi fóru Íslendingar að ferðast um landið sitt og kom þá vel í ljós hvernig ofurtúrismi hafði hrakið landann til hliðar. Heilu árgangarnir þekktu ekki landið sitt og spurðu og spurðu í netheimum, hvar er þetta og hvar er hitt? Bráðskemmtilegt en líka sorglegt því stjórnvöld vilja ólm fá jafn mikið af túristum aftur þó ekki sé neitt vit í því. Peningar í stað kyrrðar og notalegheita í íslenskri náttúru, sett á það verðmiði og Íslendingar flýja aftur inn til sín eða til að afgreiða alla túristana ... dollarar í augunum.
Dásamlegt sumar leið og svo komst veiran aftur á kreik. Bylgja tvö og síðar bylgja þrjú. Teymið okkar reyndi að hemja mannskapinn en gekk svona og svona. Elsta fólkið fékk nafnið viðkvæmir hópar. En elsta fólkið stóð sig mjög vel og sýndi sinn innri mann yfirvegað og tók öllu vel. Þetta ár verður lengi í minnum haft vegna faraldursins og svo kosningunum í Bandaríkjunum.
Margir munu líka muna eftir Boris Johnson sem hefur ekki farið í klippingu hjá mömmu sinni. En herra Trump, sem er með gel og hárlakk, nær samt ekki árangri? Ekki auðvelt að vera í þeirra sporum. Nú sér fyrir endann á veiruskömminni og ef tekst að jarða Covid-19 þá mun landið og löndin rísa á ný. Þau þurfa þá öll að gæta að því að jörðin þarf að fá frið og mikla lagfæringu á gildunum sem verndar hana.
Er það ekki einn af þeim lærdómum sem við höfum tekið með af árinu 2020? Læknum jörðina fyrir börnin okkar. Hættum að skemma og eyða dýrastofnum. Hlustum á sérfræðingana, ræktum landið okkar, plöntum trjám, önnumst þá sem minna mega sín. Kenna börnum að skrifa afa og ömmu eða hringja í þau. Verum þakklát og jákvæð.
Fólk hefur haft næði til að hugsa inn á við og sá miki fjársjóður sem býr í hverju mannsbarni varð skýrari. Samkennd jókst. Velvilji óx.
Mín tilfinning er að auðvelt sé að sá góðum fræjum í þann jarðveg sem hefur skapast. Margt ungt fólk vill breyta, endurnýta, hugsa áður en hent er og líka að gera hlutina vel og sjálf að bjarga sér. Við eigum land til að geta verið sjálfbær, er það ekki ótrúlega spennandi? Unga fólkið vill sjá nýja tíma, t.d. í að eiga tíma með fjölskyldu og börnunum. Nú þarf að halda í þessa bylgju og finna henni farveg, auka við hana. Notum líka menntunarbylgjuna vel. Eflum nýbúana. Listamenn eru um allt að laða fram dásamleg listaverk í tónum og handverki. Ég er bjartsýn á 2021 og nýja tíma.
Athugasemdir