„Ísland vill sýna gott fordæmi“. „Með metnaðarfyllri markmið en ESB í loftslagsmálum“. Þetta eru dæmi um fyrirsagnir sem slegið var upp í fjölmiðlum á föstudag þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti að Ísland myndi taka þátt í alþjóðlegri viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030.
Raunin er sú að við erum eftirbátur hinna Norðurlandanna í loftslagsmálum og höfum enga innistæðu fyrir rembingi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sýndi gott fordæmi fyrr á árinu með því að stefna að 50-55% samdrætti gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og Danmörk sýndi enn betra fordæmi með því að lögfesta markmið um 70% samdrátt á sama tímabili. Ríkisstjórn Íslands hefur hins vegar verið á eftir kúrfunni og ekki treyst sér til að stíga stór skref í loftslagsmálum nema það reynist óhjákvæmilegt til að halda haus á alþjóðavettvangi.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá 2017 voru gefin fyrirheit um 40% samdrátt í losun fyrir 2030. Það kom því á óvart þegar ríkisstjórnin gerði það að einu af sínum fyrstu verkum að draga verulega úr grænni skattheimtu miðað við það sem gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi fyrri ríkisstjórnar. Fyrsta aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, kynnt vorið 2018, var gagnrýnd fyrir að vera hvorki magnbundin né tímasett og með óljós og illmælanleg stefnumið og sáust þar fá merki um að stefnt væri að 40% samdrætti gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Tveimur árum eftir myndun ríkisstjórnarinnar, þann 29. október 2019, samdi svo Ísland við Evrópusambandið um að ná fram 29% samdrætti í losun fyrir 2030. Seinni aðgerðaáætlunin, sem var kynnt í vor, gerir ráð fyrir 35% samdrætti en allt eru þetta miklu metnaðarminni markmið en hin Norðurlöndin og Evrópusambandið styðjast við.
Metnaðarleysið kristallast líka í því þegar forsætisráðherra hreykir sér af því trekk í trekk að engin ríkisstjórn á Íslandi hafi gert meira og veitt jafn miklu fé til loftslagsmála og sú sem nú situr. Þó það nú væri! Sömu lýsingu má auðvitað heimfæra á flestar ríkisstjórnir Vesturlanda sem hafa einfaldlega skuldbundið sig að þjóðarétti til að taka stærri og stærri skref til að sporna gegn loftslagsvánni. Líklega væri það einsdæmi í Vestur-Evrópu ef ríkisstjórn Íslands gerði minna í loftslagsmálum en fyrri stjórnir, og ekki er úr háum söðli að detta eftir aðgerðaleysi undanfarinna áratuga. Þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar stjórnarliða um „græna byltingu” er framlag ríkisins til loftslagsmála samkvæmt fjárlögum 2021 skammarlega lágt: langt innan við 1 prósent af vergri landsframleiðslu (VLF) og eykst um 0,05 prósent af VLF milli ára.
Til að undirstrika sýndarmennskuna enn frekar hefur nú stjórnarmeirihlutinn, um svipað leyti og uppfærð loftslagsmarkmið eru kynnt, lagt til að bílaleigufyrirtæki fái meðal annars allt að 400 þúsund króna afslátt af vörugjaldi við kaup á bensínbílum árið 2021. Til að fá niðurgreiðsluna þurfa bílaleigur ekki að gera annað en að halda hlutfalli bensínbíla af heildarinnkaupum sínum á ökutækjum undir 85 prósentum – og á þeim forsendum er aðgerðin stimpluð græn og vistvæn, liður í að hraða orkuskiptum! Loftslagsmálin eru of mikilvægur málaflokkur til að slá honum upp í svoleiðis grín, er það ekki? Bílaleigubílar eru um 7,3% af bílaflota Íslands en valda 10,6% af losun vegna samgangna á landsvísu. Þeim peningum sem fara í að niðurgreiða kaup á bensínbílum væri miklu betur varið í kraftmikla uppbyggingu rafhleðsluinnviða á Keflavíkurflugvelli og víðar samhliða markvissum aðgerðum til að ýta undir vistvæna ferðaþjónustu. Nú þegar það er framleiðsluslaki í hagkerfinu og lánakjör ríkisins hagstæð ætti jafnframt hið opinbera að stíga inn og fjárfesta af stórauknum krafti í uppbyggingu almenningssamgangna og innviðaframkvæmdum sem eru í senn mannaflafrekar og skila miklum loftslagsávinningi.
Með gnótt endurnýjanlegra orkugjafa ættum við Íslendingar að geta skarað fram úr í loftslagsmálum, en í staðinn höfum við vanrækt alþjóðlegar skuldbindingar og skilið eftir okkur neysludrifið kolefnisspor sem er með því stærsta í heiminum miðað við höfðatölu. Nú þarf að skipta um kúrs, hugsa stórt og láta verkin tala. Minna hringl og dinglumdangl takk. Setjum heldur skýr og metnaðarfull markmið og fylgjum þeim eftir með fullfjármögnuðum aðgerðum. Þannig getum við raunverulega sýnt gott fordæmi næstu árin og tekið þátt í alþjóðlegri viðleitni til að bjarga heiminum.
Höfundur er fyrrverandi blaðamaður á Stundinni, MSc. í evrópskri stjórnmálahagfræði og sagnfræði og hefur undanfarna mánuði starfað við ráðgjöf fyrir þingflokk Samfylkingarinnar.
Athugasemdir