***
Fyrri aukaspurning:
Maðurinn á myndinni hér að ofan virðist frekar argur í skapi. Hvers vegna er hann það?
***
Aðalspurningar:
1. Hvar fæddist Napóleon Bonaparte?
2. Hvað heitir varaforseti Bandaríkjanna?
3. Svo vildi til að par eitt átti von á barni. Þegar karlinn frétti hjá spámönnum að barnið yrði honum æðra, þá sá hann ekki annað ráð en gleypa barnsmóður sína. Barnið, sem var dóttir, hélt hins vegar áfram að vaxa og dafna í líkama föður síns og á endanum braust stúlkan út úr enni hans, og það meira að segja í fullum herklæðum. Þrátt fyrir þessa óheppilegu byrjun á kynnum þeirra feðgina, þá fór yfirleitt vel á með þeim síðar, og hún steypti honum reyndar ekki af stóli. Hún varð hins vegar kunn fyrir góða dómgreind, stillingu og umfram allt visku. Hvað hét hún?
4. Kona nokkur frá Bandaríkjunum hefur vakið athygli hér á landi fyrir tilraunir sínar til að reisa flugfélag á rústum Wow Air. Hvað heitir hún? Hér dugar eftirnafn.
5. Árið 1955 tóku Bandaríkjamenn í notkun háfleyga njósnaflugvél sem nú, 65 árum seinna, er enn í notkun. Vélin komst rækilega í fréttirnar þegar ein slík var skotin niður yfir Sovétríkjunum árið 1960. Hvað kallast vélin?
6 Hvað heitir nú það ríki sem áður var oft kallað Abyssinía?
7. Í hvaða landi er borgin Turku?
8. Jónas Hallgrímsson fæddist á bænum Hrauni í dal er nefnist ...?
9. Árið 1558 tók drottning ein við völdum á Englandi og sat síðan á valdastóli í rétt tæp 45 ár. Hvað hét hún?
10. Móðir drottningar þessarar hafði verið hálshöggvin þegar stúlkan var aðeins tveggja ára. Hvað hét móðirin?
***
Seinni aukaspurning:
Konan á myndinni hér að neðan hét Anna McNeill Whistler. Hún var lítt framhleypin í lífinu en er þó býsna kunn, því hún varð innblástur að frægu listaverki. Hvers konar listaverki?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Á Korsíku.
2. Mike Pence.
3. Aþena.
4. Ballarin.
5. U-2.
6. Eþíópía.
7. Finnlandi.
8. Öxnadal.
9. Elísabet.
10. Anna Boleyn.
***
Svör við aukaspurningum:
Efri mynd sýnir Móse ofsareiðan Ísraelsmönnum af því þeir höfðu lagt guð á hilluna og í staðinn farið að dansa kringum gullkálfinn. Nauðsynlegt er að nefna gullkálfinn.
Konan á neðri myndinni var innblástur á málverki sem oftast er kallað „Móðir Whistlers“ enda var það málað af syni konunnar, James Whistler.

***
Athugasemdir