Aðfararnótt þriðjudagsins 30. júní 1908 voru flestallir Íslendingar í fasta svefni. Í sveitunum var fólk að hvílast fyrir átökin í heyskapnum þegar morgnaði, í bæjunum við ströndina var ýmsu að sinna en ef marka má blöðin var öll þjóðin þar fyrir utan að hugsa um eitt og sama málið, „hver einasti maður, sem hefir þroska til að hugsa hærra en dýrin,“ eins og blaðið Ísafold orðaði það.
Málið snerist um samband Íslendinga við Dani. Samningur hafði verið gerður þar að lútandi en hann var afar umdeildur og heiftúðugar stóðu um hvort samþykkja skyldi samninginn eða „uppkastið“ eður ei. Ljóst var að fyrirhugaðar alþingiskosningar í september myndu snúast um þetta mál og önnur ekki.
Og þegar morgnaði tóku menn til við frekari umræður um uppkastið að samningnum meðan þeir rifu eitthvað í sig til morgunverðar, fór svo hver til sinna starfa, sveitafólk í heyskapinn, sjómenn að draga línur, húsmæður að matbúa, prestar að gera það sem prestar gera, og svo framvegis.
Og tala áfram um uppkastið.
Nema hvað þessi morgunn var allt öðruvísi en aðrir morgnar. Það má raunar segja að þennan þriðjudag hafi alls ekki morgnað. Sólin náði ekki að gera vart við sig gegnum dimma svarta hulu sem breiddi sig yfir allan himininn og það var hrollkalt og kólnaði æ meira eftir því sem leið á daginn.
Fólk reyndi að láta sem ekkert væri og tala meira um uppkastið en brátt varð ljóst að hér höfðu orðið einhverjar skelfilegar hörmungar. Dagurinn leið án þess að birti, svart ryk féll til jarðar og huldi alla grund, kuldinn smaug æ lengra gegnum merg og bein.
Hvað hafði gerst? Eldgos? Voru Lagagígar aftur farnir að gjósa?
En þótt Lakagígar væru sannarlega ekki farnir að gjósa, né önnur eldfjöll á Íslandi eða annars, þá voru vissulega ný móðuharðindi skollin á. Og þau miklu verri en hin fyrri. Eftir örfáa daga byrjaði búfénaðurinn að deyja enda gróður tekinn að visna undir svörtu eitruðu ryklaginu. Svo fór fólkið að deyja.
Í fyrstu reyndi fólk að hugga sig við, þar sem það paufaðist um í ísköldu myrkrinu, að hjálp hlyti brátt að berast frá útlöndum. En þegar loks bárust fréttir að utan var ljóst að þaðan var enga hjálp að fá. Um allan heim var ástandið eins, nema sums staðar enn verra. Gríðarlegir eldar höfðu víða farið um. Fólk var farið að deyja í þúsunda, nei, í milljónatali.
Það var ekki kosið um uppkastið á Íslandi í september 1908. Hungrið var of aðkallandi. Þegar loks fór að sjá aftur til sólar nokkrum misserum síðar voru þeir fáu sem eftir lifðu löngu búnir að gleyma uppkastinu.
Nú má öllum vera ljóst að þetta gerðist ekki. Sólin reis óhindruð af svörtu skýi þann 30. júní 1908. Enginn dó og það var kosið um uppkastið í september.
En ný rannsókn rússneskra vísindamanna hefur leitt í ljós að kannski munaði ótrúlega mjóu að svona hefði farið.
Þessa aðfararnótt 30. júní 1908 átti sér stað langt austur í Síberíu dularfullur atburður sem lengi hefur vafist fyrir mönnum að skýra. Ógurleg sprenging varð í fimm til tíu kílómetra hæð yfir víðáttumiklu skóglendi og á hringlaga svæði undir spreningunni féll og brann nálega hvert einasta tré.
Enginn gígur af neinu tagi fannst á jörðu niðri og af því mátti draga þá ályktun að sprengingin hefði orðið í allmikilli hæð.
Svæði hinna föllnu trjáa var alls 2.150 ferkílómetrar sem þýðir að þvermál hringsins var rúmir 52,3 kílómetrar.

Ef slík sprenging hefði orðið yfir þéttbýlu svæði eins og til dæmis New York eða London hefðu eflaust margar milljónir látið lífið. Reiknað hefur verið út að kraftur sprengingarinnar hafi verið að minnsta kosti þúsundfaldur sá kraftur sem leystist úr læðingi við kjarnorkusprengjuna sem varpað var á Hirósjíma 1945.
Og miðað við nýjustu rannsóknir kann krafturinn að hafa verið umtalsvert meiri og jafnvel slagað upp í hina ógurlegu Tsar-bombu Sovétríkjanna. (Sjá grein um hana hér.)

En þar sem þetta svæði við Tunguska-fljót í Síberíu var afar strjálbyggt þá dóu víst aðeins þrír. Og reyndar fréttist fátt af þessu fyrr en mörgum árum seinna.
Lengi vel var mjög á huldu hvað þarna hefði gerst og allskonar kenningar spruttu fram. Sá víðkunni rithöfundur Erich von Däniken hélt því til dæmis fram að þarna hlyti geimfar frá öðrum hnetti að hafa brotlent eða sprungið.
Upp á síðkastið hefur sú kenning notið mestra vinælda að þarna hafi brot úr halastjörnu verið á ferðinni, kannski um 65 metrar í þvermál. Halastjörnur eru að mestu úr ís svo það getur talist mjög rökrétt að brot úr einni slíkri hefði brunnið og bráðnað á hraðferð sinni gegnum andrúmsloftið og síðan sprungið án þess að skilja eftir efnisagnir á jörðu niðri.
En ekki hafa allir verið alveg sáttir við þessa kenningu og nú hafa rússneskir vísindamenn sett fram aðra, sem felur í sér að við Jarðarbúar höfum sloppið ansi miklu betur en á horfðist þennan júnídag fyrir 112 árum.
Daniil Khrennikov við Síberíuháskólann fer fyrir rannsókninni og hann bendir í viðtali á vefsíðu Astronomy á að samkvæmt frásögn þeirra (vissulega sárafáu) vitna sem sáu atburðinn, þá hafi aðkomuhlutur utan úr geimnum ferðast að minnsta kosti 700 kílómetra í ljósum logum áður en sjálf sprengingin var. Það er alltof löng leið fyrir íshnullung eins og halastjörnubrot, segja Khrennikov og félagar. Ís hefði aðeins náð um 300 kílómetrum áður en hitinn í andrúmsloftinu hefði eytt honum.
„Við teljum að atburðurinn við Tunguska hafi orðið þegar smástirni úr járni hafi strokist við andrúmsloft Jarðarinnar en síðan [vegna „árekstrarhornsins“] skotist áfram frá Jörðinni og í átt að sólinni,“ segir Khrennikov.

Járnsteinn hefði vissulega þurft að þola ýmislegt hnjask á leið sinni niður á yfirborð Jarðar en stærstur hluti hans hefði þó þolað rússibanareiðina gegnum andrúmsloftið án þess að brenna upp – ef árekstrarhornið hefði verið „rétt“.
Rússarnir gera sér fulla grein fyrir því að þeir hafa ekki sannað kenningu sína enn, en vonast til þess að frekari rannsóknir muni styðja hana. Hér á síðunni Sciencealert er farið nánar yfir kenninguna.
En með útreikningum sínum hafa Rússarnir komist að þeirri niðurstöðu að þessi járnloftsteinn þeirra hafi verið 200 metrar í þvermál og ef hann hefði náð til Jarðar hefði hann skilið eftir gíg allt að þrír kílómetrar í þvermál.
Þetta er ekki mikið miðað við smástirnið sem drap risaeðlurnar fyrir rúmum 66 milljónum ára en það var tugir kílómetra í þvermál og skildi eftir sig gíg sem var 150 kílómetrar í þvermál.
Menn hefðu ekki beint verið í útrýmingarhættu, þótt sólin hefði myrkvast árum saman, kuldinn ríkt og mörg tól siðmenningarinnar orðið gagnslaus.
Samt hefði árekstur járnhnullungs upp á 200 metra valdið ólýsanlegu tjón og miklu mannfalli. Astronomy segir:
„Árekstur af þessu tagi hefði valdið ógnarlegu hörmungum í lífhvolfinu, og kannski bundið endi á nútíma siðmenningu.“
Ekkert af þessu vissu Íslendingar þegar þeir vöknuðu að morgni þessa fyrrnefnda þriðjudags og tóku til við að rífast um uppkastið.

Athugasemdir