Eftir að upplýsingafundi vegna hópsýkingar á Landakoti var lokið var fjölmiðlum boðið viðtal við þá sem fram á honum komu. Stundin óskaði eftir viðtali við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, en fekk þau svör að forstjórinn gæti ekki svarað spurningum að svo stöddu.
Spítalinn vísaði þess vegna Stundinni á Sigríði Gunnarsdóttur, framkvæmdarstjóra hjúkrunar á Landspítalanum og meðlim í framkvæmdarstjórn spítalans.
Sigríður sat því undir svörum blaðamanns.
Kallað eftir aðstoð
Hefur stjórn spítalans miðlað áhyggjum sínum til heilbrigðisráðherra eða þeirra sem fara með fjárveitingarvald, á því að aðstæður á Landakoti væru lífshættulegar sjúklingum og starfsfólki í þessum faraldri?
„Nú get ég ekki svarað fyrir það hvað hefur farið á milli forstjóra og ráðherra.“
En stjórn spítalans, þú situr í henni?
„Það er enginn stjórn á spítalanum, það er framkvæmdastjórn og ég sit í henni. Forstjóri veitir henni forystu og er í samskiptum við ráðherra. Ég veit að hann hefur haldið ráðherra og ráðuneytinu upplýstum frá upphafi um stöðuna sem væri komin upp. Ég veit ekki hvað hefur farið fram í þeim samtölum.“
Þannig að þú getur ekki gefið upp hvort framkvæmdarstjórnin hafi miðlað áhyggjum til viðeigandi aðila og kallað eftir aðstoð?
„Þetta er svolítið sértæk spurning. Við höfum miðlað upplýsingum um stöðu á húsnæði á spítalanum og það liggur fyrir áður en þetta kemur upp. Það sem gerist í þessari hópsýkingu sem kemur hérna upp er að það eru ákveðnir hlutir sem hægt er að gera í miðri krísu. Það er farið í þær framkvæmdir, það er verið að reyna ná utan um sýkinguna og meðhöndla fólkið sem er veikt og reyna að passa að það smitist ekki fleiri ásamt því að finna út úr því sem gerðist. Þar að auki að reyna tryggja öryggi í húsnæðinu eins og kostur er. Það er ekki hægt að byggja nýtt hús í miðjum heimsfaraldri. Við erum að vinna með það sem við höfum.“
„Það er ekki hægt að byggja nýtt hús í miðjum heimsfaraldri.“
Hópsmitið hefur ekki verið viðvarandi síðan faraldurinn hófst, svo á þessu níu mánaða tímabili, var ekki kallað eftir aðstoð eða miðlað áhyggjum af því að þetta gæti farið svona?
„Það kom fram á fundinum áðan að þótt að aðstæður á Landakoti séu með þeim hætti sem þær eru, þá er ekkert ólíklegt að það eigi við um fleiri heilbrigðisstofnanir á landinu.“
Var miðlað áhyggjum vegna þeirra í upphafi þessa faraldar?
„Það hefur alveg komið fram þær takmarkanir sem eru á húsnæðinu sem við erum í.“
Athugasemdir