„Hann var ekki deyjandi maður og var bara að bíða eftir hjúkrunarrými,“ segir Gauti Kristmannsson, sonur Kristmanns. „Hann var á þeim tímamótum að hann vissi að hann gæti ekki farið heim aftur eftir þetta. Svo kemur upp þessi sýking og við höfðum samband og fengum að vita að hann hefði farið í próf. Á föstudeginum fáum við þær upplýsingar að hann væri ekki smitaður eftir fyrstu skimun. Þá urðum við vongóð um að það gengi allt vel.“
„Hann var ekki deyjandi maður“
Kristmann hafði verið á Landakoti í meira en mánuð í endurhæfingu þegar hópsmitið kom upp, en fjölskyldan var vongóð um góðan árangur úr henni að sögn Gauta. „Svo er það á mánudegi 26. október að það er haft samband við okkur og það kemur í ljós að hann er smitaður,“ segir hann. „Læknirinn segir að hann sé mjög veikur og hún haldi hreinlega að hann sé deyjandi. Við fengum að fara inn til hans í svona geimfarabúningi. Hann var mjög veikur, rænulaus og andstuttur eins og þessi sjúkdómur fer með fólk. Við höfðum áhyggjur, en bjuggumst ekki við að hann færi strax. Kvöldið eftir fengum við símtal frá Landakoti um að hann væri dáinn.“
Starfsfólkið jafn skelfingu lostið og aðstandendurnir
Gauti segir ljóst að þetta hafi verið sérstaklega smitandi afbrigði. „Ég var búinn að heimsækja hann í margar vikur með grímu og hanska, einn í einu inni í herberginu með tveggja metra fjarlægð. Samt smitast tugir starfsmanna og sjúklinga, nánast allir í húsinu. Það segir manni að þetta er ekki lítið smitandi andskoti. Þeir náttúrlega hólfuðu ekki af deildirnar, en sóttvarnarreglur voru örugglega haldnar.“
Gauti segir fjölskylduna ekki hafa fengið nein tíðindi um einkenni fyrr en á mánudeginum þegar í ljós kom að Kristmann var smitaður. „Reynslan af starfsfólkinu er að það var mjög opið við okkur,“ segir hann. „Ég held að þau hafi verið jafn skelfingu lostin og allir aðrir.“
Stóra spurningin um mannekluna
Gauti segir föður sinn hafa verið góðan mann sem hafi verið vinsæll meðal fólks, bæði nemenda og samstarfsmanna. „Hann var ljúfur maður í umgengni og ekkert að trana sér fram, en samt launfyndinn og mikill íslenskumaður og fagmaður,“ segir hann.
Hann segist ekki áfellast spítalann fyrir hvernig fór, en vill þó svör um atburðarásina og skipulagið. „Það sem maður helst spyr sig er af hverju deildirnar voru ekki lokaðar af hver frá annarri?“ segir Gauti. „Forstjórinn sagði að það hefði verið vegna manneklu. Mér finnst þetta vera stóra spurningin.“
Hann segist þó ekki hafa neinar efasemdir um stjórnendur eða starfsfólk spítalans. „Það getur verið að það hafi verið gerð mistök. Spurningin er hvernig þetta komst inn og hvernig þetta gat dreifst svo víða og hratt.“
Athugasemdir