Það er ekki ásættanlegt svar að ekki hafi tekist að verja viðkvæmasta hópinn á Íslandi fyrir COVID-19 vegna manneklu, eins og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, gaf til kynna.
Það er ekki heldur svar að veiran sé svo lúmsk.
Markmiðið
„Okkur ber að vernda þá sem geta farið illa út úr þessari sýkingu og þess vegna erum við að grípa til þessara róttæku aðgerða,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í byrjun mars, fyrir átta og hálfum mánuði.
Þegar COVID-faraldurinn hófst varð strax fyrsta markmiðið að vernda elsta og viðkvæmasta hópinn, enda dánartíðni nánast eingöngu bundin við þann hóp. Annað markmiðið var síðan að fresta veikindunum, að fletja kúrfuna, svo að heilbrigðiskerfið myndi ráða við alvarleg veikindi sem hrjá lítinn hluta þeirra sem smitast. „Mikilvægt er að forða því að margir veikist á stuttum tíma sem án efa myndi valda álagi á heilbrigðiskerfið sem það réði ekki við eins og dæmi erlendis frá sýna. Þess í stað er með aðgerðum reynt að tefja útbreiðslu þannig að veikindin verði yfir lengri tíma, þetta hefur verið kallað „að fletja kúrfuna“. Þá má vona að tíminn vinni með okkur í því að hægt verði að þróa meðferð við COVID-19“, sagði í tilkynningu frá landlækni 1. apríl.
Í kjölfarið fór að bera á samtengdu þriðja markmiði í samfélagsumræðunni, að ná veirunni alveg niður og jafnvel útrýma henni, hugsanlega til að búa til fyrirmyndarsamfélag á tímum COVID-19, stundum í þeirri klofnu útleggingu að einangra landið til að geta opnað það ferðamönnum eða jafnvel hálaunuðum sérfræðingum til búsetu.
Tvær nálganir
Tvær nálganir að þessum markmiðum, frá sjónarhóli ríkisreksturs, eru að takmarka starfsemi og minnka þannig hagvöxt, og líklega auka útgjöld til að vega upp á móti minni umsvifum.
Hin leiðin er hins vegar að nota tímann til að styrkja getu heilbrigðiskerfisins til að mæta alvarlegum veikindum. Hún kallar líka á útgjöld, en felur ekki í sér tekjumissi í sjálfri sér.
Niðurstaðan varð hins vegar að eitt stærsta hópsmit landsins varð á Landakoti, öldrunarlækningadeild Landspítalans, þar sem viðkvæmasti hópur landsins er samankominn. Hátt í tvö hundruð smit hafa hlotist af hópsmitinu og mikill meirihluti þeirra sem hafa látist í seinni bylgju faraldursins dóu vegna þess að þau voru, sér til heilsubótar, á Landakoti eða öðrum stofnunum, sem smit hafa borist í þaðan.
Ástæðan fyrir því að markmiðið náðist ekki
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, svaraði því í lok október, þegar farið var af stað í rannsókn, að ástæðan fyrir hópsmitinu á Landakoti hefði í grunninn verið þríþætt.
Í fyrsta lagi að veiran sé bráðsmitandi.
Í öðru lagi að húsnæðið á Landakoti er óhentugt, fólk búi margt saman, starfsmannaaðstaðan þröng og skortur á loftræstingu. Á sama tíma og almenn sóttvarnatilmæli snúa að því að forðast margmenni og tryggja góða loftræstingu, vorum við með viðkvæmasta hópinn í nákvæmlega þeim aðstæðum.
Í þriðja lagi, sagði Páll, að það hefðu ekki verið mistök að sleppa því að hólfaskipta spítalanum, eins og við gerum við skóla, veitingastaði og verslanir, en á sama tíma sagði hann: „Þetta var ekki gert af því að mönnunin leyfði ekki hópaskiptingu.“
Hvernig það gat gerst, að við settum viðkvæmasta hópinn okkar meðvitað í aðstæður sem býður upp á ofurdreifingu kórónaveirunnar, og fluttum svo fólk þaðan yfir á aðrar viðkvæmar stofnanir, er stærsta samfélagslega spurning ársins.
Erum við almannavarnirnar?
Íslendingar hafa að mörgu leyti farið hófsamari leið í viðbrögðum við faraldrinum en önnur lönd, þar sem komið hefur verið á útgöngubanni og skólum og jafnvel leikskólum lokað. Nálgunin hefur verið að virkja sem mest samtakamátt almennings, frekar en að beita formlegu valdi að ofan. Þetta má kalla íslensku leiðina. Um leið þýðir þetta að gagnrýni á aðgerðir hefur verið illa séð af mörgum, vegna þess að hún geti veikt samtakamáttinn.
Nálgunin hefur síðan hliðrast til, mörgum skólum lokað, íþróttir barna bannaðar og svo framvegis. Við höfum fórnað þessu til að vernda líf fólks eins og þeirra sem sækja lækningu á Landakot.
Þótt skólum, einkareknum veitingastöðum og verslunum hafi verið gert að hólfaskipta starfsemi sinni, gátu yfirvöld hins vegar ekki hólfaskipt Landakotsspítala sem varúðarráðstöfun. Þannig að þegar smit barst þangað inn, eins og augljóslega var hætta á, fór hún eins og eldur í sinu um allt Landakot meðal starfsmanna og sjúklinga, og dreifðist þaðan áfram á aðrar stofnanir, meðal annars á Sólvelli á Eyrarbakka, þar sem einn heimilismaður lést í gær. Þessu hafa fylgt á annan tug andláta hjá viðkvæmasta hópnum. Við erum öll almannavarnir, en við gátum ekkert gert í þessu.
Vandamálið er að þótt við tökum að okkur hlutverk almannavarna með persónulegum smitvörnum, þá erum við ekki með þær valdheimildir almannavarna sem þarf til að framfylgja höfuðmarkmiðinu. Ábyrgðinni þarf að fylgja vald til þess að framfylgja henni.
Mikilvægasta hlutverk stjórnvalda hverju sinni er að verja líf borgaranna. Almannavarnir eru í kjarna þess hlutverks. Við erum ekki þessar almannavarnir, þótt við getum áorkað mörgu með óformlegum félagslegum aðferðum.
Það var því á ábyrgð yfirvalda, en ekki einstakra borgara eða starfsmanna í heilbrigðiskerfinu, að framfylgja höfuðmarkmiðinu, sem var að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins fyrir COVID-19.
Á neyðartímum, þegar öll þjóðin er látin undirgangast strangar takmarkanir á lífi sínu, feður mega ekki vera viðstaddir fæðingu barna sinna, börn mega ekki stunda íþróttir og hagkerfið fer á hliðina er ekki tækt að vísa til þess að það sé ekki hægt að fá fólk í vinnu við að hólfaskipta öldurnarlækningadeild Landspítalans. Hvernig ætti atvinnuleysiskreppa að geta verið rétti tímapunkturinn fyrir mannaflsskort í neyðarástandi?
Ákvarðanir
Margir hafa kvartað undan gagnrýnum spurningum um viðbrögð við hópsmitinu á Landakoti vegna þess að þær séu ígildi þess að leita að sökudólgum. Þau vísa jafnvel til þess að starfsfólk heilbrigðiskerfisins sé að gera sitt besta og að vinna þrekvirki á hverjum degi, og að ekki ætti að gera þetta fólk að sökudólgum.
Þetta er án vafa rétt, en ekki vegna þess að enginn beri ábyrgð í heimsfaraldri, eða þá allir. Það er til dæmis ekki hægt að setja ábyrgðina á einstaka starfsmenn spítalanna. Ástæðan er sú að ábyrgðinni verður að fylgja vald til framfylgdar, og svo viðeigandi umbun.
Starfsfólk á öldunarlækningadeild er margt hvert láglaunafólk sem hvorki hefur tök á að tryggja með óyggjandi hætti að smit berist ekki inn á stofnunina né geta þau tryggt nægilegan viðbúnað til að hólfaskipta spítalanum.
Við erum öll almannavarnir, en það afléttir ekki ábyrgð stjórnvalda þar sem áhrifavaldi okkar sleppir.
Spurningin
Þegar við rekjum okkur eftir orsökinni verður spurningin því þessi: Hvers vegna varð mannekla til þess að við gátum ekki framfylgt höfuðmarkmiði okkar?
Ólíkt mörgum þjóðum getum við ekki sagt að svarið sé fátækt. Við erum þess utan að leggja 50 milljarða króna í að greiða fólki atvinnuleysisbætur og fyrirtækjum styrki vegna áhrifanna af viðbrögðum okkar sem ætlað er að framfylgja höfuðmarkmiðinu.
Lýsandi fyrir áherslurnar er að á fjárlögum næsta árs, sem kynnt voru í sumar, fá félags-, húsnæðis- og tryggingamál hærri fjárframlög en heilbrigðismál úr ríkissjóði. Ástæðan er að atvinnuleysistryggingar hækka um 23 milljarða á milli ára vegna viðbragða við COVID-19. Framlög til heilbrigðisráðuneytisins hækka um 15,3 milljarða króna á ári, upp í 268,8 milljarða króna, en tæplega sjö milljarðar af því fara í fyrirfram ákveðnar framkvæmdir við nýjan Landspítala, sem telst ekki til neyðarráðstafana.
Orsökina fyrir því að við settum viðkvæmasta hópinn í aðstæður sem bjóða upp á ofurdreifingu COVID-19, er nauðsynlegt að rekja til fulltrúa okkar, stjórnmálamanna, sem taka ákvarðanir um ráðstöfun auðlinda okkar.
Þegar Stundin leitaði svara hjá Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra var svarið hins vegar: „Ráðherra mun ekki tjá sig um þetta mál í fjölmiðlum enda málið ekki á hennar borði.“
Ábyrgð og umbun
Löng hefð er fyrir því að réttlæta há laun fólks með því að það beri svo mikla ábyrgð eða hafi svo mikil áhrif að markaðurinn velji að hækka laun þeirra. Nú þegar mikilvægasta hlutverk samfélagsins, sem hefur áhrif á okkur öll, er að verja viðkvæmasta hópinn, má spyrja sig hvers vegna umbunin fylgir ekki með?
Út frá markaðsvirkni, ef ekki er hægt að fá fólk til að vinna mikilvægasta verkefni samfélagsins, hvers vegna ættu launin ekki að hækka í samræmi við eftirspurn okkar, ábyrgð þeirra og persónulegar afleiðingar af því að framfylgja ábyrgðinni?
Fer ríkissjóður á hliðina ef við borgum starfsfólki Landakots tímabundið mun hærri laun?
Eða má hann bara fara á hliðina vegna afleiðinganna af viðbrögðum okkar við faraldrinum, sem ætlað er að framfylgja sama markmiði?
Að fletja fólkið
Árum saman hefur eitt meginstefið í þjóðfélagsumræðunni snúið að því að ekki séu til peningar til að greiða meira til heilbrigðiskerfisins. Þegar heimsfaraldur kórónaveiru hafði varað í meira en hálft ár virtumst við enn þá vera föst í skorthugsuninni. Það mátti deila um hvort hagstæðara væri að halda launum heilbrigðisstarfsfólks niðri, til þess að lækka skuldir ríkissjóðs, borga fyrir eitthvað annað eða lækka skatta á fólk og fyrirtæki, en nú þegar við erum með hagkerfið í geislameðferð til að drepa veiru sem ógnar helst elsta og viðkvæmasta fólkinu, hefði átt að vera hafið yfir allan skynsamlegan vafa að forgangsatriði væri að styrkja getu öldrunarlækningadeildar til þess að verjast dreifingu smita innanhúss og framfylgja almennum grundvallarráðleggingum sóttvarnayfirvalda um allan heim með því að tryggja loftræstingu, fjarlægð og hólfaskiptingu.
Forstjóri Landspítalans getur haldið áfram að tala um að veiran sé lúmsk og starfsfólk hafi verið of fátt, heilbrigðisráðherra getur haldið áfram að svara ekki spurningum og fjármálaráðherrann talað um 15 til 20 milljarðana sem hann leggur í að „styðja fyrirtæki sem þurfa áfram á stuðningi stjórnvalda að halda“, en það breytir því ekki að síðasta vígið sem mátti falla féll vegna þess að yfirvöld stóðu þarna ekki undir ábyrgð sinni í mikilvægasta verkefni síðustu 12 ára.
Öskur og hlustun
Réttu viðbrögðin við kreppu eru nefnilega ekki endilega þau sömu og við seinustu kreppu. Það var ekki lykilatriði núna að koma á fót öskurherferð til að fá ferðamenn til landsins, af ýmsum ástæðum, enda vill svo óheppilega táknrænt til að öskur eru vís dreifileið kórónaveirunnar.
Rétta leiðin var að hlusta á neyðarköll frá spítalanum, frá fólkinu sem var látið bera ábyrgð án úrræða til framfylgdar.
Í þetta skiptið liggur í augum uppi að það var aukinn stuðningur við heilbrigðiskerfið – ekki bara óformlega frá almennum borgurum í gegnum bakvarðasveitina – sem var augljóst og rétt viðbragð til að ná fram höfuðmarkmiðinu. Og þar er ekki gagnlegt að binda ábyrgðina við örverur og almenna borgara.
Athugasemdir