Þrotabú bakarískeðjunnar Jóa Fel hefur sent fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins kröfur um greiðslur á meintum skuldum þeirra við félagið. Kona sem hætti störfum hjá Jóa Fel fyrir fimm árum síðan fékk ábyrgðarpóst klukkan átta í gærkvöldi þar sem þess var krafist að hún framvísaði kvittunum um að hún hefði sannanlega greitt rúmlega 20 þúsund króna skuld sem fundist hefði í bókhaldi fyrirtækisins. Að öðrum kosti yrði gefinn út reikningur á hennar nafn.
Engin bakgrunnsgögn eða sundurliðun fylgir með kröfubréfi þessu, sem sent er út af fyrirtækinu Landslögum fyrir hönd Gríms Sigurðssonar skiptastjóra þrotabúsins. Því er ómögulegt að segja með hvaða hætti á að hafa stofnast til meintrar skuldar. Samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda er almennur fyrningarfrestur fjögur ár.
Hætti störfum fyrir fimm árum
Konan hætti störfum fyrir fimm árum síðan hjá bakarískeðjunni Jóa Fel. Hún segir í samtali við Stundina að hún viti um nokkurn fjölda annarra fyrrverandi starfsmanna sem fengið hafi viðlíka bréf send heim til sín. Þannig hafi vinkona hennar, sem hafi einnig hætt störfum hjá Jóa Fel fyrir fimm árum síðan, fengið kröfubréf um að hún skuldi þrotabúinu 162 þúsund krónur. Fleiri hafi jafnframt greint henni frá því að hafa fengið samskonar bréf, upp á umtalsverðar upphæðir. Í að minnsta kosti einu tilfelli var skuldin sögð nema yfir 260 þúsund krónum.
Konan sem um ræðir segist ekki hafa gera sér neina grein fyrir því hvað í ósköpunum það gæti verið sem verið sé að rukka hana fyrir. Hún segir að á þeim tíma sem hún starfaði hjá fyrirtækinu hafi endurtekið komið upp vandræði vegna bókhalds þess, laun hafi ítrekað verið vitlaust greidd til að mynda. Bakarískeðjan fór í þrot sökum þess að ekki höfðu verið greidd iðgjöld af launum starfsfólks þó þau hafi verið dregin af launum þess.
Hefur aldrei fengið tilkynningar um að hún skuldi félaginu
Eini möguleikinn á því að stofnast hefði getað til skuldar konunnar við fyrirtækið segir hún vera þá að starfsfólki hafi verið heimilt að skrifa á sig vörur, en það hefði hins vegar verið dregið af launum þeirra mánaðarlega. Þegar konan hætti störfum fyrir fimm árum taldi hún ljóst að gengið hefði verið frá öllum slíkum skuldum.
Konan segist ekkert kannast við að skulda félaginu, hún hafi aldrei fengið tilkynningar eða kröfur þess efnis að hún skuldi félaginu og enginn grundvöllur sé fyrir kröfunni á hendur henni, enda fylgi henni engar upplýsingar um hvað á bak við hana standi, með hvaða hætti hefði átt að stofnast til skuldarinnar og fyrir hvað. Hún telur erindið því út í bláinn.
Bakarískeðja Jóa Fel var tekin til gjaldþrotaskipta 23. september síðastliðinn að kröfu Lífeyrissjóðs verslunarmanna vegna ógreiddra iðgjalda félagsmanna lífeyrissjóðsins.
Athugasemdir