Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna gæti orðið bið fram á föstudag þar til þorri atkvæða í forsetakosningum næturinnar verða talin. Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, þarf að hljóta sigur í nokkrum þeirra til að sigra Donald Trump forseta. Kosningaþátttaka hefur ekki verið hærri í heila öld.
Samkvæmt umfjöllun The New York Times verður ekki skorið úr um sigurvegara í ríkjunum Pennsylvania og Michigan fyrr en í vikulok. Í Arizona, Georgia og Wisconsin eru úrslit að líkindum væntanleg í dag. Mjótt er því á mununum og óvíst hvor frambjóðendanna vinnur þar til atkvæði úr póstkosningu hafa borist.
Nú þegar hafa allar helstu fréttastofur tilkynnt að Trump hafi sigrað í Flórída og Ohio og þar með hlotið 47 svokallaða kjörmenn. Alls þarf frambjóðandi að hljóta 270 kjörmenn til þess að vinna, en fjöldi þeirra er mismunandi eftir ríkjum. Fréttastofur vestanhafs segja Biden nú hafa fengið 223 kjörmenn, en Trump 212.
Forsetinn heldur því hins vegar fram að hann hafi mikið forskot og að Demókratar séu að reyna að stela kosningunum. „Við munum ekki leyfa þeim að gera það,“ segir hann í færslu á Twitter, sem stjórnendur samfélagsmiðilsins hafa merkt sem misvísandi.
Biden segist hins vegar sannfærður um sigur. „Það er ekki mitt hlutverk eða Donald Trump að lýsa yfir sigurvegara þessara kosninga,“ skrifaði hann á Twitter í nótt. „Það er hlutverk kjósendanna.“
Athugasemdir