Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis er að kanna mál skrifstofustjórans í atvinnuvegaráðuneytinu sem lét seinka birtingu nýrra laga um laxeldi sumarið 2019. Nefndin mun senda spurningar til ráðuneyta og spyrjast fyrir um birtingar á lögum sem viðkomandi ráðherrar og ráðuneyti hafa aðkomu að. Hluti nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var fylgjandi því að láta kanna þetta tiltekna mál sérstaklega og eins að láta kanna birtingar laga almennt. Þetta kemur fram í tölvupóstum frá Andrési Inga Jónssyni, nefndarmanni í nefndinni og þingmanni utan flokka.
Andrés Ingi sendi tölvupóst á formann nefndarinnar, Jón Þór Ólason, á föstudaginn í síðustu viku eftir að Stundin hafði greint frá því að skrifstofustjórinn. Jóhann Guðmundsson, hefði látið fresta birtingu nýrra laga um fiskeldi í júlí í fyrra með vísan til hagsmuna laxeldisfyrirtækja sem höfðu frest hjá Skipulagsstofnun til að skila inn gögnum til stofnunarinnar.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði við Stundina í gær að það væri ekki Alþingis sem stofnunar að svara spurningum um gjörðir framkvæmdavaldsins og að umrædd lagasetning hafi verið í eðlilegum farvegi á þingi. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur hins vegar kannað málið sem ein af nefndum Alþingis.
Óljóst hvað Jóhanni gekk til
Jóhann bað um að nýju lögin yrðu birt eftir að laxeldisfyrirtækin höfðu skilað inn umræddum gögnum til stofnunarinnar. Fyrir vikið giltu gömlu lögin um fiskeldi, ekki hin nýju, um laxeldisáform þessara fyrirtækja í Ísafjarðardjúpi og á Austfjörðum.
Ekki liggur fyrir af hverju Jóhann ákvað að láta seinka lögunum með þessum hætti. Stundin hefur ekki náð tali af honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Atvinnuvegaráðuneytið segir að Jóhann hafi átt frumkvæði að þessu inngripi og að hann hafi verið einn að verki. Ráðuneytið segist hafa sent Jóhann í „ótímabundið leyfi“ frá störfum eftir að ráðuneytið frétti af símtali hans til Stjórnartíðinda í júlí í sumar. Ekki liggur fyrir á hvað forsendum Jóhann var sendur í leyfi.
Hvort einhver aðili, starfsmaður ráðuneytisins eða aðstandandi laxeldisfyrirtækis, hafi beðið Jóhann um að hringja viðkomandi símtal liggur ekki fyrir.
Af hverju birtir framkvæmdavaldið lög en ekki löggjafinn?
Í tölvupósti Andrésar Inga til Jóns Þórs veltir hann því fyrir sér af hverju framkvæmdavaldið, það eru að segja ráðherrar og ráðuneyti þeirra, sjái um birtingu laga en ekki Alþingi sjálft. Áður en lög eru birt er meirihluti Alþingis búinn að sammælast um þau og að þau eigi að taka gildi sem fyrst. Framkvæmdavaldið getur svo tafið fyrir þessari birtingu eins og gerðist í máli Jóhanns Guðmundssonar.
„Ef út í það er farið, hvers vegna er framkvæmdavaldið að birta lög en ekki bara löggjafinn sjálfur?“
Orðrétt segir Andrés Ingi í tölvupósti sínum: „Ég vil biðja um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skoði ferlið í kringum birtingu laga í Stjórnartíðindum. Tilefnið er frétt af því að starfsmaður ANR hafi beðið Stjórnartíðindi um að fresta birtingu laga á síðasta ári (sjá Stundina). Bæði er ástæða til að skoða þetta tiltekna mál, en ekki síður að skoða kerfið almennt. Hvaða aðkomu hefur fagráðuneyti t.d. að birtingunni, þegar Alþingi er búið að samþykkja lögin og forseti staðfesta þau? Ef út í það er farið, hvers vegna er framkvæmdavaldið að birta lög en ekki bara löggjafinn sjálfur?“
Ráðuneytin munu svo svara spurningunum um lagabirtingarnar og afskiptin af þeim. Andrés segir að mögulegt sé að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vinni svo stutta skýrslu um málið sem byggir á svörum ráðuneytanna.
Athugasemdir