Þrautin frá nýliðnum degi, hér geturðu nálgast hana.
***
Fyrri aukaspurning:
Hvað heitir maðurinn í jakkafötunum, sem þarna má sjá standa uppi á skriðdreka og flytja ávarp?
***
1. Í hvaða landi er höfuðborgin Islamabad?
2. Igor Sikorsky hét Rússi einn, fæddur 1889 en flutti til Bandaríkjanna þrítugur. Hann fann upp, þróaði og smíðaði margvíslegar vélar af tiltekinni gerð, en nafn hans mun þó verða sérstaklega tengt alveg ákveðinni sort af vélum. Hvers konar vélar eru það?
3. Rússland er augljóslega lang víðáttumesta ríkið í Evrópu. En hvaða ríki er í öðru sæti?
4. Og á sama hátt: Hvað er þriðja víðáttumesta ríki Evrópu?
5. Réttur nokkur er eins konar kássa, oftast með kjöthakki, og ýmist eggplöntum eða kartöflum. Ásamt ýmiss konar kryddi og grænmeti er kássan sett í skál og bökuð með miklum osti eða stundum hveitiblandaðri mjólkursósu. Kássan er upprunnin á Balkanskaga og/eða í Miðausturlöndum, en við hér á Vesturlöndum þekkjum hana best í grískri útgáfu. Hvað heitir þessi kássa?
6. „Ástarstjörnu / yfir Hraundranga / skýla næturský; / hló hún á himni, / hryggur þráir / sveinn í djúpum dali.“ Hver orti?
7. Hver skrifaði barnabækurnar Sitji Guðs englar, Saman í hring og Sænginni yfir minni?
8. Brenda Blethyn heitir virt leikkona sem sló í gegn í kvikmyndinni Secrets & Lies eftir Mike Lee árið 1996. Síðustu árin er hún þekktust fyrir að leika tiltekna persónu í langri og vinsælli sjónvarpsmyndaröð. Hvað heitir sú persóna?
9. Við hvaða fjörð stendur bærinn Höfn?
10. Hvaða ár kom síðasta útgáfan af símaskránni á Íslandi?
***
Seinni aukaspurning:
Hér að neðan má sjá söngkonuna Patti Smith flytja lagið A Hard Rain's A-Gonna Fall eftir Bob Dylan við frekar óvenjulegar aðstæður árið 2016, enda er Smith vönust því að koma ein fram með gítar eða með rokkhljómsveit. Þannig þekkjum við Íslendingar hana en hún hefur nokkrum sinnum troðið upp hér á landi. En við hvaða aðstæður flutti hún þetta lag Dylans í þetta sinn?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Pakistan.
2. Þyrlur.
3. Úkraína.
4. Frakkland.
5. Mússaka.
6. Jónas Hallgrímsson.
7. Guðrún Helgadóttir.
8. Vera Stanhope. Fornafnið dugar reyndar alveg.
9. Hornafjörð.
10. Árið 2016.
***
Svör við aukaspurningum:
Sú fyrri:
Þetta er Borís Jeltsín.
Sú seinni:
Patti Smith söng lagið við athöfn þegar Dylan vini hennar voru veitt Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Hann gat sjálfur ekki verið viðstaddur.
Áhorfendurnir voru ekki alveg venjulegir fyrir Patti Smith eins og hér má sjá:

***
Athugasemdir