Hversu líklegt er að Donald John Trump Bandaríkjaforseti haldi völdum eftir forsetakosningarnar 4. nóvember? Allar skoðanakannanir gefa til kynna að Joe Biden hafi trygga forystu í hugum kjósenda í heild, en kjördæmakerfið (kjörmannakerfið öllu heldur) þar vestra veldur því að Trump á (aftur!) raunhæfa möguleika á að ná kjöri.
Hér má lesa útskýringu á því af Vísindavefnum.
Lítum fyrst á hvernig niðurstaðan varð fyrir fjórum árum:

Trump fékk 304 kjörmenn í þeim ríkjum sem hér eru bleiklituð, Hillary Clinton fékk 227 í þeim bláu.
En staðan núna, hvurnig er hún?
Í fjórum ríkjum af hverjum fimm hefur annar hvor frambjóðenda svo örugga forystu að úrslitin eru að heita má ráðin fyrirfram þar. Þar á meðal í tveimur af fjórum fjölmennustu ríkjunum sem hafa flesta kjörmenn, það eru Kalifornía og New York.
Á þessum ágæta vef hér, 270towin.com, má leika sér að ýmsum möguleikum.
Prófið það endilega.
Þar eru ríkin 50 flokkuð eftir því hversu líklegt sé að Trump eða Biden vinni.
Svona lítur spáin út eftir nýjustu skoðanakönnunum:

Blá eru þau ríki sem spáin ætlar Biden að vinna, hin rauðu „á“ Trump. Þeim mun dekkri litur, þeim mun líklegra að viðkomandi frambjóðandi vinni.
Spáin virðist gefa til kynna að Biden eigi sigurinn vísan, en þá ber að hafa í huga að spáin er nú nánast eins og hún var á þessum tíma fyrir fjórum árum, en þá vann Trump óvæntan sigur í þremur ríkjum sem allir höfðu spáð að myndu falla í skaut Hillary Clinton.
Það eru ríki sem teljast öll þrjú vera í „ryðbeltinu“ í Bandaríkunum – Wisconsin, Michigan og Pennsylvania. Skammstafað á kortinu WI, MI og PA.
(„Ryðbeltið“ er hugtak notað um nokkur ríki í norðausturhluta Bandaríkjanna, þar sem þungaiðnaður var hvað mestur. Hann á nú undir högg að sækja og margar verksmiðjur og vélar að verða ryði að bráð.)
Nú er því aftur spáð að frambjóðandi Demókrata vinni þessi þrjú fyrrnefndu ríki og um þau mun baráttan standa síðustu tvær vikur kosningabaráttunnar.
Og nokkur önnur þar sem litlu munar, og svo fimm ríki þar sem enginn treystir sér til að segja til um hver vinnur: Ohio, Iowa, Florida, Suður-Karólína og Georgía.
Þessi fimm óvissuríki eru brún á kortinu hér að ofan.
Eins og sjá má á kortinu telur vefsíðan 270towin.com líklegt að Biden muni tryggja sér þá 270 kjörmenn sem þarf til að vinna.
En verður sú raunin?
Samkvæmt þessari frétt USA Today er staðan í ríkjunum þar sem frekar litlu munar (innan við 10 prósent) þessi:
Minnesota (MN):
Biden 7,8 prósent í plús. Staðan lítið breyst að undanförnu.
Wisconsin (WI):
Biden 6,7 prósent í plús. Það breytist varla úr þessu.
Michigan (MI):
Biden 7,5 prósent í plús. Þarna hefur staðan lítið breyst lengi.
Iowa (IA):
Óvissuríki.
Biden 0,2 prósent í plús. Þarna getur bókstaflega allt gerst, enda segja aðrar nýjar kannanir að Trump sé enn með yfirhöndina, 1,2 prósent. Sigur Trumps virðist einhvern veginn líklegri en hitt.
Nebraska (NE):
Trump 6,4 prósent í plús. Vegna þess að Nebraska veitir sigurvegaranum ekki alla kjörmennina 5 gæti Biden fengið 1 kjörmann hér. Á sama hátt gæti Trump fengið 1 kjörmann í Maine (ME), þótt Biden hafi örugga forystu í ríkinu í heild.
Missouri (MO):
Trump 6,1 prósent í plús. Í sumar virtist allt stefna í harða keppni í ríkinu en Repúblikanar virðist nú öruggir um sigur.
Ohio (OH):
Óvissuríki.
Trump 0,3 prósent í plús. Staðan hefur lítið breyst en Trump líklega sótt svolítið á. Staðan í Ohio er athyglisverð fyrir þá sök að frá og með 1964 hefur sigurvegarinn í forsetakosningunum alltaf unnið Ohio.
Pennsylvania (PA):
Biden 5,5 prósent í plús en Trump virðist hafa sótt verulega á hér síðustu vikur. Óvíst hvort endaspretturinn haldi áfram, og hvort hann dugi. Þetta er eiginlega mikilvægasta ríkið af þeim öllum þetta árin, sjá hér að neðan.
Norður-Karólína (NC):
Óvissuríki.
Biden 2,9 prósent í plús. Fylgi hans jókst töluvert í byrjun október; spurning hvort það minnki aftur.
Suður-Karólína (SC):
Trump 7,5 prósent í plús. Það hefur ekki og mun ekki breytast.
Georgia (GA):
Óvissuríki.
Biden 1,7 prósent í plús og hefur unnið ögn á síðustu viku.
Florida (FL):
Óvissuríki.
Biden 2,7 prósent í plús en Trump virðist hafa sótt töluvert í sig veðrið allra síðustu daga.
Nevada (NV):
Biden 6,2 prósent í plús. Það hefur ekki breyst í háa herrans tíð.
Arizona (AZ):
Biden 2,8 prósent í plús og hefur lítið breyst um skeið.
Texas (TX):
Það er votur draumur Demókrata að vinna Texas en þar hafa þeir ekki sigrað í 44 ár. Meira að segja Suðurríkjapiltinum Bill Clinton mistókst að vinna Texas þótt litlu munaði 1992. Trump vann Hillary Clinton með 9 prósenta mun í Texas fyrir fjórum árum. Nú telja sumir að styttist í að lýðfræðilegar breytingar í Texas séu að færa ríkið nær Demókrataflokknum og bjartsýnir kosningaspekúlantar Demókrata gera sér jafnvel vonir um sigur að þessu sinni. Trump hefur enn yfirhöndina í skoðanakönnunum en munurinn er ekki nema 2,9 prósent. Það telst við skekkjumörk. Sennilega er sá munur þó óyfirstíganlegur fyrir Biden.
Kansas (KS), Montana (MT) og Alaska (AK):
Einnig munar innan við 10 prósentum í þessum þremur ríkjum: 8 prósentum í Kansas, 8,1 prósenti í Montana og 4,8 prósentum í Alaska, í öllum tilfellum Trump í vil. Í ríkjunum þremur er fylgi Repúblikana afar traust, líka í Alaska þótt munurinn sé ekki mjög mikill.
Hvað þarf Biden?
Gerum nú ráð fyrir að Biden vinni þau ríki sem segja má að séu talin örugg, sem og tvö af „ryðbeltisríkjunum“, Wisconsin og Michigan. Ef ennfremur er gert ráð fyrir að þeir Biden og Trump fái hvor sinn kjörmanninn í Maine og Nebraska, þá dugar þessi „sviðsmynd“ til þess að ef Biden vinnur Arizona líka, þá er hann kominn með þá 270 kjörmenn sem þarf til að vinna.
Hann þarf sem sé ekki Pennsylvaníu og getur leyft sér – formlega séð – að tapa öllum óvissuríkjunum fimm. Það virðist ekki sennilegt, en þá er rétt að hafa í huga að Hillary Clinton tapaði þeim öllum 2016, auk ríkjanna í „ryðbeltinu“ sem hún „átti“ að vinna.
Þá lítur kortið svona út:

Og ef þetta gerist er eins gott fyrir Biden að hann vinni mann í Nebraska, því ef það gerist ekki, þá er staðan í kjörmannasamkundunni jöfn, 269-269.
Hvað gerist þá?
Jú, fulltrúadeildin kýs forsetann.
Er þá ekki allt í lagi fyrir Biden?
Demókratar hafa jú traustan meirihluta í fulltrúadeildinni og munu vafalítið hafa áfram.
Nei, reyndar er það alls ekki í lagi fyrir Biden.
Hinar forneskjulegu reglur kveða nefnilega á um að ríkin kjósa sem heild. Og þó yfirburðir Demókrata séu miklir í flestum fjölmennustu ríkjunum, þá munu þingmenn Repúblikana vera í meirihluta í fleiri ríkjum, líklega 26 gegn 24.
Trump verður þá fyrir valinu.
En til þess að þetta komi einu sinni til mála, þá verður Trump sem sé að vinna Pennsylvaníu.
Líklega mun forsetinn halda meira og minna til í ríkinu næstu tvær vikurnar.
En Demókratar munu að sama skapi leggja alla áherslu á að vinna ríkið. Ef þeir gera það, þá gætu þeir meira að segja leyft sér að tapa Arizona og unnið samt 279-259.

Hvað þarf Trump?
Eina leið Trumps til að vinna (án hlutdeildar fulltrúadeildarinnar) er svo að vinna bæði Pennsylvaníu og Arizona (og öll óvissuríkin).

Nema náttúrlega ef hann endurtekur annan hvorn eða báða af hinum óvæntu sigrum sínum í Wisconsin og Michigan. Þá verður sigur hans mun auðveldari. En það getur ekki talist líklegt.
Í bili er líklegra en hitt að Biden vinni bæði Pennsylvaníu og Arizona og þá verður sigur hans þokkalega öruggur, þó hann fái kannski engan mann í Nebraska:

Draumur Demókrata
Æðsti draumur Demókrata (fyrir utan drauminn um Texas, sem þeir gera sér grein fyrir að er varla raunhæfur) er hins vegar að vinna þar að auki Ohio, Florida og helst bæði Norður-Karólínu og Georgíu.
Þá lítur kortið svona út:

Þetta gæti gerst. En það er best að tala varlega.
Trump átti jú aldrei að geta unnið 2016.
Allt ber að sama brunni: Biden hlýtur að vera nánast öruggur um sigur.
Það er bara þetta „nánast“ sem mun valda áhyggjum næstu tvær vikur!
Athugasemdir