Það var fyrir rétt tæpu ári að ég hitti fyrir fagfólk í veröld lagnamála Íslands. Ég og fjölskylda mín þurftum að leita ráða vegna ónýtra lagna fyrir utan húsið okkar. „Það væri auðvitað langeinfaldast að rífa silfurreyninn fyrst og laga lagnir svo.“ Þetta var besta mögulega ráðið fyrir bestu mögulegu útkomuna á besta mögulega tímanum.
Þetta hljómaði svo einfalt, svo sneddí, svo svakalega góð ráðlegging að ég fraus í augnablik. Auðvitað rífur maður trén upp með rótum, leggur nýjar lagnir, et voila! En upplýsingarnar sem fagfólkið hafði ekki voru langtímahagsmunir fjölskyldu minnar, verðmæti trjánna í sögulegu og tilfinningalegu samhengi og vilji okkar.
Allt í einu fór gamalkunnugt óöryggi að gera vart við sig í heilanum mínum. Er ég að fórna langtímahagsmunum fjölskyldu minnar með því að halda svona fast í trén? Venjumst við því ekki á endanum að lifa svona, þótt við séum ekki lengur í skjóli í trjákrónuhíðinu okkar? Og ef þetta lagna-prótókól er best unnið með því að rífa trén upp með rótum, er það mitt hlutverk að mótmæla því? Óöryggið flakkaði svo úr heilanum og út fyrir líkamann minn, „lít ég ekki bara út fyrir að vera svona stereótýpa, hippamamma með kakóslettur frá Guatemala í hárinu, kyrjandi möntrur á sanskrít með geggjað vesen út af þessum helvítis trjám?“ Það reyndist vera rétt. Ég og trén urðum eitt vesen. Sem betur fer. (Skiptum samt út „kakóslettum“ fyrir heiðarlegt kaffi og „möntrusöng“ fyrir athyglisbrestshugsanalúppur mínar – svona til að halda í grjótharðan og heiðarlegan raunveruleikann).
Miðtaugakerfið mitt var nefnilega beintengt rótarkerfi trjánna sem höfðu ekkert unnið sér til sakar – heldur veitt öllum húseigendum skjól í rúmlega 70 ár, þremur fjölskyldum alls, og mér leið eins það væri verið að rífa öryggið frá húsinu sem mig hafði dreymt um að búa í frá 10 ára aldri. Það sem hljómaði eins og einföld langtímalausn var fyrir mér eitthvað sem ég myndi aldrei venjast eða jafna mig á. Trén höfðu veitt svo mikið skjól að þau höfðu meira að segja gætt að því að eiga engan beinan þátt í ástandi frárennslis- og lagnamála í forgarði hússins. Fullkomni silfurreynirinn minn.
Mitt eina svar í heiðarlegu kaffivímunni minni var því: „Viljið þið í alvörunni rífa ein fallegustu tré Reykjavíkurborgar svo það sé ódýrara fyrir okkur fjölskylduna að kúka?“ á sama tíma og ég þurrkaði ímynduðu kakóslettuna af hökunni minni. „Ég skal grafa jarðveginn upp með skeið ef ég þarf, þið hjálpið mér að finna út úr rest svo ég geti haldið trjánum,“ tilkynnti ég þeim. Á endanum slapp ég reyndar við gröftinn með skeiðinni og fagfólkið í lagnamálum hjálpaði mér að bjarga trjánum. Það er hægt að gera svo margt með því að tala saman og setja okkur í spor annarra.
Í maíbyrjun hljóp ég kokhraust út á atvinnumarkaðinn eftir þriggja ára óumbeðið hlé. Ég hafði nefnilega verið í endurhæfingu eftir krabbameinsmeðferð, og nú var loksins kominn tími til að njóta þeirra félagslegu og veraldlegu gæða sem atvinnumarkaðurinn færir manneskju. Það var að sjálfsögðu óskhyggja og svona barnsleg trú að ég kæmist út á atvinnumarkaðinn. Í maí hljóp enginn út á atvinnumarkaðinn eins og í dömubindaauglýsingu. Það hafa hins vegar margir fallið í stjórnlaust atvinnuleysishyldýpið.
Við erum að sjálfsögðu öll sammála um það að vegna gríðarlegrar aukningar atvinnulausra væri rétt að hækka atvinnuleysisbætur. Þannig spornum við gegn því að fjölskyldur búi við fátækt, svelti, bugun og andlegt þrot ásamt verulegri skerðingu á lífsgæðum. Er það ekki? Hækkun atvinnuleysisbóta skilar sér svo lóðbeint aftur í ríkissjóð í gegnum skatta og aukin efnahagsumsvif. Auðvitað. Þetta er svo beisik. Er það ekki?
Árið 2003 var gerð tilraun á hettuöpum (e. Capuchin monkeys). Niðurstaða tilraunarinnar var sú að þeir höfnuðu ójöfnuði launa, að fá ekki sama kaup og apinn í næsta búri. Mjög afdráttarlaust. Tilraunin fór þannig fram að hettuaparnir fengu verðlaun fyrir hvern stein sem þeir réttu manneskju sem stóð fyrir utan búrið. Verðlaunin voru annars vegar agúrka, sem má best lýsa sem lágmarkslaunum fyrir apa, og hins vegar vínber, sem eru hærri launaflokkur, enda safarík og sæt. Agúrka er svona, segjum, 90% bragðlaust vatn. Í stuttu máli: Þegar gúrkulaunaði apinn áttaði sig á óréttlætinu – að hann fengi agúrku fyrir sama starf og apinn sem fékk vínber – þá stóð ekki á viðbrögðum hans. Hann kastaði gúrkubitunum aftur í manneskjuna. Ítrekað. Hettuapinn tók einfaldlega ekki við þessum lúsarlaunum. Ég ætla ekki að gerast svo djörf að leggja dýrum orð í munn, en ef þetta væri manneskja, þá myndi ég telja að hún þekkti hvers hún er virði og væri með sterka sjálfsmynd og sjálfsvirðingu.
Ríkisstjórnin er í ákveðinni og mjög svo einbeittri andstöðu gegn því að hugsa um velferð okkar. Hækkun atvinnuleysisbóta er velferðarmál. Ef kæmi til hækkunar er eina ástæðan sem er mér fullkomlega augljós sú að við færum auðvitað beint í þann fasa að njóta atvinnuleysisins. Lifa lífsins lystisemdum, étandi vínber allan sólarhringinn. Marinerað okkur svo upp úr höfuðsynd letinnar, sem MÁ BARA ALLS EKKI GERAST OG ENGINN getur stoppað það. Nema lávarðar ríkiskassans. Og þar liggur beinast við að stjórna pöpulnum með því fjárhagslega ofbeldi sem fæst aðeins og eingöngu með því að vera treyst fyrir ríkiskassanum. Ofbeldi sem felst í því að neita okkur um þá virðingu okkar að hanga tæknilega séð rétt fyrir ofan fátæktarmörk. Og við eigum alltaf að segja snjallt og skýrt: TAKK FYRIR MIG!
Þessi skortur lyklahandhafans á að setja sig í spor annarra er ekkert annað en glæpsamlegur. Stundum þarf bara fagaðila sem getur kennt lávörðum ríkiskassans hvað manneskjur eru, hvað manneskjum gengur til, hvernig manneskjur þrífast betur í samfélagi þar sem jöfnuður ríkir, hvernig hugmyndin um að ef manneskjur fá atvinnuleysisbætur sem eru ekki manneskjunni niðurlægjandi … er ekki letjandi. Að manneskjur eru tré, sem má ekki rífa upp með rótum svo ríkiskassinn geti kúkað ódýrt.
Manneskjur vilja vinna. Við erum félagsdýr. Við viljum leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Við viljum líka stundum liggja í leti, á kvöldin, eftir góðan vinnudag. Sá sem segir að það sé „mjög varasamt að fara að hreyfa mikið við atvinnuleysisbótunum þannig að þú sért á endanum jafn settur, og mögulega ef menn ganga of langt, betur settur heldur en þeir sem eru að mæta til vinnu og skila öllu sínu,“ beitir atvinnulausa fjárhagslegu ofbeldi. Og lýsir annarlegum hvötum og rætnum hugsunarhætti í garð samborgara sinna.
Ofbeldið lætur fiðrildaáhrif þess að lifa á glæpsamlega lágum atvinnuleysisbótum festast í rótarskoti samfélagsins. Og á hverjum degi þyngist róðurinn hjá fjölskyldum, fjölskyldum sem eru með skuldbindingar sem voru gerðar áður en þau féllu í agúrkuflokkinn. Langtímaáhrifin birtast svo í langvarandi streitu og kvíða, og munu hafa áhrif kynslóðir fram í tímann. Við sem viljum bara vinna á daginn og borða vínber á kvöldin, við berum ábyrgð á framtíðinni.
Við ættum öll að kasta agúrkunum og krefjast þess að fá vínberin okkar. Vínberin eru áunnin checckréttindi launafólks á Íslandi. Greiðsla tryggingagjalds af launatekjum er skylda.
Það þarf ekki að slíta okkur sem erum atvinnulaus upp með rótum, svo það sé ódýrara fyrir ríkiskassann að kúka á okkur. Við erum trén í garðinum sem veitum hvert öðru skjól.
Athugasemdir