Verslun með raf- og heimilistæki hefur aukist um meira en helming frá því í fyrra. Þrátt fyrir þriðju bylgju COVID-19 faraldursins jókst verslun um 26,3 prósent milli ára í septembermánuði.
Þetta eru niðurstöður Rannsóknarseturs verslunarinnar. „Líkt og í fyrstu bylgju farsóttarinnar jókst innlend verslun töluvert þegar veiran lét á sér kræla á ný. Á sama tíma og verslun eykst minnkar bæði neysla á þjónustu og neysla erlendis,“ segir í tilkynningu frá setrinu.
Velta í verslun septembermánaðar nam 39,2 milljörðum króna, en heildarkortavelta var 68,5 milljarðar í mánuðinum og jókst um 9 prósent á milli ára. Kaup á eldsneyti drógust saman um 9 prósent og kaup á veitingum um 1 prósent, en að öðru leyti jókst verslun umtalsvert á milli ára.
Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum jókst um 21 prósent á milli ára. „Aukin heimavinna auk sóttkvíar á vafalaust þátt í aukningu dagvöruverslunar með greiðslukortum,“ segir í tilkynningunni. „Á móti má ætla að umsvif mötuneyta vinnustaða sem dæmi hafi dregist saman.“
Fataverslun jókst um 36 prósent á milli ára, en í fyrstu bylgju faraldursins í vor mátti sjá töluverðan samdrátt í fataverslun, ólíkt því sem var í síðasta mánuði. Veruleg veltuaukning var í verslunum með byggingavörur og verslunum með raf- og heimilistæki. Í fyrrnefnda flokknum jókst veltan um 45 prósent milli ára og nam 3,3 milljörðum kr. Í þeim síðarnefnda nam veltan alls 2,6 milljörðum og jókst um tæp 54 prósent milli ára. Þá jókst verslun með áfengi um 45,8 prósent.
Athugasemdir