Framboð Guðmundar Franklín Jónssonar til forseta kostaði 4,7 milljónir króna. 73 einstaklingar styrktu framboðið um samtals 1,8 milljónir, en sjálfur lagði Guðmundur Franklín til 1,6 milljónir.
Framboð Guðna Th. Jóhannessonar forseta kostaði hins vegar 1,5 milljónir króna. Hagnaður varð af rekstri Félags um framboð Guðna Th. Jóhannessonar um 600 þúsund krónur þegar kosningabaráttan var afstaðin.
Þetta kemur fram í uppgjörum frambjóðendanna sem Ríkisendurskoðun hefur nú birt. Guðni Th. bar sigur úr býtum í kosningunum 27. júní 89,4 prósent greiddra atkvæða gegn 7,6 prósent sem kusu Guðmund Franklín.
Í uppgjöri Guðmundar Franklín kemur fram að lögaðilar hafi styrkt framboðið um 1,2 milljónir. Fjórðungur upphæðarinnar kom frá fyrirtækinu Hólma ehf., sem er í eigu hjónanna Bjarkar Aðalsteinsdóttur og Þorsteins Kristjánssonar á Eskifirði, sem reka sjávarútvegsfyrirtækið Eskju. Tvö önnur félög í sjávarútvegi styrktu framboðið, sem og Góa-Lind sælgætisgerð, Bakarameistarinn og KFC.
Framboð Guðmundar Franklíns kom út á sléttu, en hann lagði sjálfur til 1,6 milljónir króna, auk þess að njóta stuðnings 73 einstaklinga sem alls styrktu um 1,8 milljónir króna. Stærsti kostnaðarliður framboðsins voru auglýsingar og kynningarkostnaður fyrir 3,5 milljónir króna.
Guðni Th. hlaut hins vegar 1,6 milljónir króna í styrki frá 37 einstaklingum. Lögaðilar styrktu hann um rúma hálfa milljón, mest KBK eignir, í eigu Kristjáns Benoni Kristjánssonar, um 200 þúsund krónur. Hlér ehf. í eigu Guðmundar Ásgeirssonar og P 126 ehf. í eigu Einars Sveinssonar, föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, styrktu um 100 þúsund hvort.
Ekki er að sjá á uppgjörinu að Guðni hafi greitt fyrir auglýsingar. Stærstu kostnaðarliðirnir eru aðkeypt þjónusta fyrir 581 þúsund og ferðakostnaður fyrir um 513 þúsund. Félag um framboð Guðna Th. Jóhannessonar á nú 1,5 milljónir króna í eignir og skuldar ekkert.
Athugasemdir