Einungis verður heimilt að selja flugelda dagana 30. og 31. desember og 6. janúar, samkvæmt drögum að reglugerð um skotelda sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda.
Þá verður einungis heimilt að nota stærri flugelda frá klukkan 16 á gamlársdag til klukkan 2 eftir miðnætti á nýju ári, svo aftur frá 16 til 22 á nýársdag og 16 til 22 á þrettándanum, 6. janúar. Heimilt er að nota flugelda í 1. flokki, það er þá sem lítil hætta og hljóðmengun stafar af, allt árið.
Þrátt fyrir þetta hafa sveitarfélög heimild til að heimila sölu flugelda einn dag til viðbótar á tímabilinu 2. til 5. janúar eða í vikunni eftir þrettándann í sérstökum tilvikum, og að fenginni rökstuddri tillögu þar um, með heimild lögreglustjóra.
Markmið reglugerðarinnar er að draga úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæða vegna mengunar af völdum flugelda. Starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra skilaði tillögum sínum í janúar, en megin niðurstaða hans var að nauðsynlegt sé að takmarka sem mest þá mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá einstaklingum. Einnig þurfi að hafa hugfast óæskileg áhrif skotelda um áramót á atferli og líðan margra dýra. Jafnframt benti starfshópurinn á að huga þyrfti að loftmengun hér á landi í víðu samhengi og að draga þyrfti úr allri mengun þar sem það er mögulegt, til bættra lífsgæða fyrir allan almenning.
Athugasemdir