Þrautin frá í gær er hér, ef þið eigið hana eftir!
***
Fyrri aukaspurning.
Myndin hér að ofan sýnir málverk eftir þýska impressjónistann Max Liebermann (1847-1935). Hvað heitir karlmaðurinn sem á málverkinu sést?
***
Aðalspurningar:
1. Hver er oftast sagður hafa verið fyrsti lögsögumaður íslenska þjóðveldisins, þótt hann hafi raunar ekki þulið lögin á sjálfum Þingvöllum?
2. Nýlega var tilkynnt – fáeinum til mikillar sorgar – að frumsýningu á nýrri James Bond-mynd yrði frestað fram í apríl á næsta ári vegna kórónuveirufaraldursins. Þá verða sex ár frá sýningu síðustu Bond-myndar. Hvað hét Bond-myndin sem frumsýnd var 2015?
3. Snemma á 20. öld deildu tveir Bandaríkjamenn hart um það hvor þeirra hefði unnið tiltekið afrek, fyrstur manna. Þeir hétu Frederick Cook og Robert Peary. Hvaða afrek deildu þeir um?
4. Hinn svokallaði „ameríski fótbolti“ mun vera vinsælasta íþróttin í Bandaríkjunum. Hver leikur tekur 60 mínútur en sífellt er verið að stoppa hann til að stilla upp á ný og skera úr um vafaatriði. Hversu lengi er boltinn í leik að meðaltali í leikjum á hæsta kalíberi? Hér má muna 4 mínútum til eða frá.
5. Í bókinni Harry Potter og eldbikarinn eftir J.K.Rowling stendur hinn ungi Potter frammi fyrir þeirri þraut að komast framhjá einum ógurlegasta dreka sem til er í töfraveröldinni. Honum tekst það en við hvaða Evrópuland er drekinn hræðilegi kenndur?
6. Hver er háskólamenntun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra?
7. Hvað heitir höfuðborgin í Luxemburg?
8. Hver skrifaði skáldsöguna Svínshöfuð?
9. Frá hvaða landi er fótboltamaðurinn Sadio Mané?
10. Í námunda við hvaða þéttbýlisstað á Íslandi er fjallið Þorbjörn?
***
Síðari aukaspurning:
Hvað heitir sú íslenska jurt sem ber þau blóm, er sjást hér að neðan?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Úlfljótur.
2. Spectre.
3. Þeir deildu um hvor hefði stýrt fyrsta leiðangrinum á norðurpólinn.
4. 11 mínútur, svo rétt telst vera allt frá 7 mínútum til 15.
5. Ungverjalandi.
6. Hún er menntuð í almennum málvísindum og íslensku. „Íslenska“ dugar alveg sem rétt svar. Svandís var í mörg ár viðriðin kennslu í táknmálsfræðum og -túlkun en hefur, eftir því sem best verður lesið af síðunni alþingi.is, ekki sérstaka háskólamenntun á því sviði. Þar eð hún var kennslustjóri í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands í nokkur ár úrskurða ég þó að „táknmálsfræði“ teljist líka rétt.
7. Luxemburg.
8. Bergþóra Snæbjörnsdóttir.
9. Senegal.
10. Grindavík.
***
Svar við fyrri aukaspurningu:
Hann heitir Samson. Myndin lýsir Biblíusögunni um heljarmennið Samson sem játaði á viðkvæmri stundu fyrir hasarkvendinu Delælu að leyndarmálið um ótrúlegan styrk hans lægi í hárinu. Hún var á snærum óvina hans Filistea og lét klippa af honum hárið þegar hann var sofnaður.
Svar við seinni aukaspurningu:
Blágresi.
***
Athugasemdir