Bakarískeðjan Bakarameistarinn ehf. hefur keypt hluta af þrotabúi Jóa Fel og stefnt er að því að opna tvö útibú, í Holtagörðum og Spönginni, á næstu dögum. „Sem allra fyrst, vonandi bara í vikunni,“ segir Sigurbjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri Bakarameistarans aðspurð um tímasetningar opnunar.
Bakarísrekstur Jóa Fel var lýstur gjaldþrota 23. september síðastliðinn þegar gjaldþrotabeiðni Lífeyrissjóðs verslunarmanna var samþykkt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ástæða gjaldþrotabeiðnarinnar var að ekki höfðu verið greidd iðgjöld af launum hluta starfsfólks í yfir ár, þó dregið hefði verið af launum þeirra.
Jóhannes Felixsson, Jói Fel, gerði tilraunir til að kaupa sjálfur þrotabú fyrirtækisins, ásamt utanaðkomandi fjárfestum. Hann varð hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir Bakarameistaranum. Gengið var frá kaupunum í gær og er um að ræða rekstur tveggja bakaría sem fyrr segir, í Spöng og Holtagörðum. Nú þegar er hafinn undirbúningur að opnun, meðal annars var verið að setja upp skilti með merki Bakarameistarans í Holtagörðum fyrr í dag.
Athugasemdir