Bakarísrekstur Jóhannesar Felixssonar, Jóa Fel, er kominn í þrot. Gjaldþrotabeiðni Lífeyrissjóðs verslunarmanna var samþykkt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Ástæða gjaldþrotabeiðninnar var að ekki höfðu verið greidd iðgjöld af launum í rúmt ár, þótt félagið hefði dregið þau af launum starfsfólks.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar vinnur Jóhannes nú að því, ásamt öðrum fjárfestum, að setja fram tilboð til kaupa á eignum þrotabúsins, með það í huga að halda áfram bakarísrekstri. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóhannesar, vildi þó ekki staðfesta það í samtali við Stundina. „Það er bara verið að skoða hverning hægt er að vinna mál áfram en það er engin niðurstaða komin.“
Grímur Sigurðsson lögmaður hefur verið skipaður hefur verið skiptastjóri yfir þrotabúið. Hann sagði í samtali við Stundina að hann gæti ekki tjáð sig um hvort fram væru komin tilboð í eignir þrotabúsins, hann væri bara að sinna sínum skyldum sem fælust í því að koma eignum í verð og lýsa eftir kröfum.
Lífeyrissjóður verslunarmanna krafðist gjaldþrotaskipta hjá bakarískeðjunni Jóa Fel vegna vangoldinna iðgjalda til sjóðsins, sem þó hefðu verið innheimt af launum starfsfólks. Ekki hafa verið greidd iðgjöld af launum sumra starfsmanna allt frá því í apríl á síðasta ári.
Í lok ágúst var greint frá því að þrír fyrrverandi starfsmenn Jóa Fel, sem höfðu krafist þess að kjarasamningum yrði framfylgt, hefði verið sagt upp störfum eða þeir hætt vegna þess. Greint var frá því að starfsmanni Jóa Fel var synjað um lán vegna vangreiðslna á lífeyrissjóðsgjöldum. Á sama tíma var hins vegar auglýst eftir nýju starfsfólki í bakarí Jóa Fel.
Athugasemdir