Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kallar eftir „leiðréttingu“ fyrir ferðaþjónustuna í anda þess þegar verðtryggð fasteignalán almennings voru niðurgreidd með 72 milljarða króna millifærslu úr ríkissjóði. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
„Leiðrétting“ verðtryggðu fasteignalánanna var kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningar 2013, þegar Sigmundur Davíð var formaður flokksins. Hlaut flokkurinn rúm 24 prósent atkvæða og 19 þingmenn, bestu kosningu síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Varð Sigmundur Davíð forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag segir Sigmundur Davíð að aðferðafræði „leiðréttingarinnar“ geti nýst ferðaþjónustunni í dag. „Ég tel að slík leiðrétting gæti vel verið viðeigandi leið og að reynslan af leiðréttingu íbúðalána geti komið að gagni. Það var alltaf lykilatriðið í leiðréttingunni að ekki væri verið að gefa einhverjum eitthvað sem hann ætti ekki tilkall til, heldur aðeins að bæta eins og kostur væri tjónið sem varð af þessum ástæðum.“
Í skýrslu um skiptingu þeirra 72,2 milljarða króna sem fóru í „leiðréttinguna“, sem birt var í upphafi árs 2017, kom fram að 86 prósent upphæðarinnar hafi runnið til þess helmings Íslendinga sem er með hæstu launin. Þá hafi eignamesta tíund Íslendinga fengið tæpa 10 milljarða króna af upphæðinni.
Sigmundur Davíð segir að enduskipuleggja þurfi skuldir ferðaþjónustufyrirtækjanna. Annars geti saga áranna eftir hrun endurtakið sig þegar fyrirtæki voru yfirtekin vegna skuldavanda.
„Ég hef miklar áhyggjur af því, ef fram heldur sem horfir, að þá verði ekki aðeins einhæfara fyrirtækjalandslag heldur samþjöppun þar sem menn nota tækifærið, ef svo má segja, og kaupa fyrirtæki af þeim sem hafa lent í miklum hremmingum, og þá á lágu verði, og njóti svo einir ágóðans þegar hlutirnir lagast,“ segir Sigmundur Davíð. „Að þeir njóti þess að hafa haft tækifæri til að kaupa eignir á brunaútsölu án þess að verða fyrir tjóninu, og að þetta leiði til samþjöppunar, ekki aðeins í þessari grein heldur jafnvel í öðrum greinum líka.“
Styðji greinina vegna skerðingar ferða- og atvinnufrelsis
Telur Sigmundur Davíð að þetta geti leitt til mikilla sárinda til langs tíma og málaferla. „Þess vegna höfum við lagt áherslu á það í okkar tillögum að þetta mætti ekki fara þannig að bankarnir yfirtaki þau fyrirtæki sem ekki geta greitt vegna þessa force majeure-ástands, óvæntra og ófyrirséðra aðstæðna, og selji þau síðan eins og gerðist í allmörgum tilvikum eftir bankahrunið. Að það þurfi jafnvel að tryggja með lögum að ekki sé hægt að hirða öll fyrirtækin eftir að þau lentu í þessu ástandi til þess eins að skipta svo um eigendur í framhaldinu.“
Sigmundur Davíð segir það vera sameiginlega hagsmuni samfélagsins að ferðaþjónustan komist í gegnum tímabundið ástand COVID-19 faraldursins svo atvinnugreinin geti skapað störf og verðmæti að því loknum. „Svo eru sanngirnissjónarmið sem lúta að því að stjórnvöld, ekki aðeins á Íslandi, hafa gert fyrirtækjunum nánast ókleift að starfa og fyrir því eru gild rök. Þetta eru ekki ákvarðanir sem stjórnvöld vilja taka en þó hefur niðurstaða þeirra verið sú, hér og víðar, að til að verja heilsu fólks eigi og þurfi að skerða ferða- og atvinnufrelsi fólks. Og þegar ríkið tekur ákvörðun um slíkt er eðlilegt að þá komi stuðningur á móti.“
Athugasemdir