Nokkur hundruð manns komu saman á Austurvelli í dag til að mótmæla þeirri ákvörðun stjórnvalda að vísa úr landi sex manna fjölskyldu frá Egyptalandi. Um er að ræða hjón með fjögur börn sem hafa búið hér á landi í rúmlega tvö ár. Fóru mótmælin friðsamlega fram.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, var staddur á mótmælunum og segir í samtali við Stundina að brottvísun barnanna sé mögulega stjórnarskráarbrot. Hefur Jón Þór hefur hafið athugun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á réttarvernd barna á flótta. „Eins og staðan er í dag er verið að vísa börnum úr landi þrátt fyrir að við vitum að það sé út í óvissu og mögulega hættu,“ segir Jón Þór. „Stjórnvöld vita ekki einu sinni hvað verður um þessi börn.“
„Stjórnvöld vita ekki einu sinni hvað verður um þessi börn“
Fyrr í dag afhenti Sema Erla Serdar, formaður Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólki, þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar undirskriftalista. Yfir tólf þúsund manns skrifuðu undir þar sem þess var krafist að ákvörðunin um að vísa fjölskyldunni úr landi verði dregin til baka.
Standi ákvörðun stjórnvalda, verður Kehdr-fjölskyldunni vísað úr landi á morgun. Lokaáfangastaður þeirra er Egyptaland. Í samtali við Vísi segir Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður félags múslima á Íslandi, að verði fjölskyldan send aftur til Egyptalands megi fjölskyldufaðirinn, Ibrahim Kehdr, búast við því að lenda í fangelsi þar sem hann yrði jafnvel pyntaður.
Athugasemdir