Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Covid-19 faraldurinn heggur í viðbragðsstyrk slökkviliðs

Dæmi um að að­eins tveir slökkvi­liðs­menn hafi þurft að manna slökkvi­bíla vegna ann­rík­is við sjúkra­flutn­inga af völd­um kór­ónu­veirunn­ar. Full­mönn­uð áhöfn tel­ur fimm slökkvi­liðs­menn. Jón Við­ar Matth­ías­son slökkvi­liðs­stjóri seg­ir ástand­ið ekki æski­legt.

Covid-19 faraldurinn heggur í viðbragðsstyrk slökkviliðs
Dregur úr viðbragsstyrk Annríki við sjúkraflutninga vegna kórónuveirufaraldursins veldur því að mönnun hjá slökkviliðinu hefur orðið þynnri en æskilegt er, segir Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri. Mynd: Pressphotos

Mikið annríki hefur verið hjá Slökkviliði höfuðborgasvæðisins síðustu vikur, eftir að seinni bylgja Covid-19 faraldursins blossaði upp að nýju. Skapast það vegna álags sem fylgir flutningum á Covid-19 sjúklingum sem sjúkraflutningamenn Slökkviliðsins sinna. Svo mikið hefur álagið verið að oftar en ekki hefur ekki verið hægt að fullmanna vaktir slökkviliðsbíla. Hefur það gengið svo langt að ekki hafa verið nema tveir menn tiltækir á hvern slökkvibíl á einstökum stöðvum en full áhöfn telur fimm manns. Slökkviliðisstjóri segir að með þessu sé gengið á viðbragðsstyrk slökkviliðsins en ekki sé hægt að fullyrða að hættuástand hafi skapast vegna þessa.

Slökkviliðið, sem sinnir einnig sjúkraflutningum, hefur sinnt flutningum á fólki sem grunur leikur á að sé smitað af Covid-19 kórónaveirunni, eða er vitað að sé smitað, milli sjúkrastofnana, heimila þeirra, farsóttaheimilisins við Rauðarárstíg og víðar. Það hefur að stórum hluta verið gert með bílum sem voru leigðir, sendibílum með farþegasætum, allt upp í sex bíla þegar verið hefur mest. Í þeim er verið að flytja það sem kallaðir eru flytjandi sjúklingar. Hefur þessi háttur verið tekinn upp til að ógna ekki öryggi annarra með því að teppa sjúkrabíla við slíka flutninga, enda tekur talsverðan tima að þrífa og sótthreinsa bílana eftir hvern flutning.

„Við erum þá ekki föst með sjúkrabíl í löngum og ítarlegum þrifum sem hefði þurft að nota til að bregðast við ef upp koma bráðaveikindi annars staðar í borginni, til að mynda. Við erum líka að horfa á öryggi okkar starfsmanna með því að það er hólfað alveg á milli bílstjóra og farþegarýmis,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.

Kalla út aukamannskap eftir því sem hægt er

Jón Viðar segir að verkefnum slökkviliðsins sé alltaf forgangsraðað, slíkt sé venjubundið og verkferlar til staðar í þeim efnum. Bæði eigi það við um sjúkrflutninga og slökkvistörf. „Það kemur hins vegar fyrir að við erum að fá of mikið af forgangsverkefnum á sjúkrabílana og þá höfum við þurft að grípa til þess að flytja starfsmenn sem ættu að ganga slökkviliðsvaktir og lána yfir. Hið sama getur gerst í hina áttina ef við fáum stórt brunaútkall sem er mannkrefjandi. Verkefnin við sjúkraflutningana eru hins vegar auðvitað margfalt fleiri. Það hafa komið ansi þungir dagar hjá okkur við sjúkraflutninga sem hafa gert það að verkum að við höfum þurft að taka menn yfir af slökkviliðshliðinni í meira mæli en æskilegt er.“

„Við höfum þurft að taka menn yfir af slökkviliðshliðinni í meira mæli en æskilegt er“

Spurður hvort þessi staða hafi skapað hættuástand segir Jón Viðar að ekki sé hægt að svara því fortakslaust. „Það er erfitt að fullyrða um það, en alltaf þegar farið er að ganga á viðbragsstyrk slökkviliðsins, nú eða sjúkraflutninganna, þá verða menn að vera á tánum og verða þá að horfa á svæðið sem heild. Við erum með fjórar stöðvar og undir slíkum kringumstæðum er horft til allra stöðvanna í viðbragði í staðinn fyrir að oftast er bara verið að horfa á hverja stöð fyrir sig.“

Reynt hefur verið að kalla út aukamannskap ef sinna þarf mörgum flutningum sjúklinga sem ýmist eru smitaðir, eða grunur leikur á um að séu smitaðir, af Covid-19 kórónaveirunni. Í sumum tilvikum er vitað með fyrirvara að fara þurfi í slíka flutninga fólks í töluverðu mæli en alls ekki alltaf.

Slökkviliðið hefur þá einnig fengið hreingerningafyrirtæki til að sinna þrifum og sótthreinsun á bílunum svo slökkviliðsmenn og sjúkraflutningamenn séu ekki tepptir við þrif. Jón Viðar segir að í byrjun fyrri bylgjunnar í vetur hafi farið all nokkur tími í það af hálfu starfsmanna hans, en nú sé það ekki til tafa lengur. Hins vegar taki flutningar af þessu tagi oft nokkuð langan tíma því beðið sé á meðan sjúklingar séu í læknisheimsóknunum, að öllu jöfnu. Það tefji því vitanlega fyrir því að starfsmenn séu tiltækir til annarra starfa. „Þetta er mjög tímakrefjandi en samt eitthvað sem þarf að gera og er eitthvað sem er að skila árangri gagnvart sjúklingum,“ segir Jón Viðar.

Hærri fjárveitingar þarf til

Spurður hvort að farið hafi verið fram á auknar fjárveitingar til að hægt væri að fjölga starfsmönnum slökkviliðsins á hverri vakt fast, en ekki bara að bregðast við í hvert og eitt skipti, segir Jón Viðar að mönnun hafi verið breytt í fyrri bylgju faraldursins. „Við bættum í vaktir og auk þess voru fáir sem sem fóru í orlof á þeim tíma, við vorum því með þéttari mönnun. Við erum svona enn að máta okkur við hvað þarf að gera núna í þessari seinni bylgju, við erum samt líka að reyna að sitja á okkur að vera ekki að breyta fríum hjá starfsfólki. Við lögðum enda mikla áherslu á það þegar við komum inn í sumarið að fólk tæki góð frí og næði hreinlega að hvílast, eftir mikið annríki sem var í fyrri bylgjunni. Það verður líka að segja mínum starfsmönnum til hróss að allir voru mjög fljótir að tileinka sér gamla verklagið að nýju. Því miður eru þetta ekki lengur fordæmalausar aðstæður, svo við höfum ákveðna þekkingu til að byggja á.“

„Þá er ekki heldur hægt að horfa framhjá því að jafn langvarandi ástand og verið hefur í Covid-faraldrinum tekur á og menn verða dálítið þreyttir“

Jón Viðar segir að nú þegar sé sú staða komin upp að hærri fjárveitingar þurfi til slökkviliðsins vegna faraldursins. Þó er staðan sú, er varðar sjúkraflutninga, að slökkviliðið sinnir þeim samkvæmt verktakasamningi við ríkið og í þeim samningum eru ákvæði um að ef farsótt geysi skuli menn setjast niður og endurskoða samningana með tilliti til aukins kostnaðar af þeim ástæðum.

Samkvæmt reglugerð eiga að vera fimm menn í áhöfn hvers slökkvibíls en frávik eru niður í fjóra. Hins vegar hefur mönnun oft orðið þynnri en svo að undanförnu, svo mikið að áhafnir á bílana sem hafa verið tiltækar hafa farið niður í tvo menn. „Það hefur alveg komið fyrir á einstaka stöð. Svo auðvitað geta komið upp mjög krefjandi verkefni, mörg í einu, og þá getur orðið mjög þunnt með mönnun ef fleiri slík verkefni bætast við. Þá er ekki heldur hægt að horfa framhjá því að jafn langvarandi ástand og verið hefur í Covid-faraldrinum tekur á og menn verða dálítið þreyttir. Þá getur verið erfitt að fara í mörg svona verkefni á hverri vakt. Eins, ef þarf að kalla út aukamannskap, þá fær sá mannskapur ekki þá hvíld sem að stefnt er að. Það eru auðvitað fjárveitingar sem stýra rekstri samfélagsins í heild. Ef til væru takmarkalausir peningar vildi ég auðvitað vera betur mannaður, en þetta er hins vegar hið sama og sjálfsagt flestar stofnanir í samfélaginu eru að glíma við, þunn mönnun.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Covid-19

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Grunaði að það ætti að reka hana
1
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Pólverjar æfir vegna ólígarkans okkar
3
FréttirÓlígarkinn okkar

Pól­verj­ar æf­ir vegna ólíg­ark­ans okk­ar

Áhrifa­mikl­ir pólsk­ir stjórn­mála­menn brugð­ust í vik­unni harka­lega við frétt­um af því að ólíg­arki frá Bela­rús, sem ít­rek­að hef­ur ver­ið reynt að beita við­skipta­þving­un­um, vegna tengsla hans við ein­ræð­is­stjórn­ina í Minsk, hefði kom­ið sér fyr­ir í Var­sjá. Um er að ræða ís­lenska kjör­ræð­is­mann­inn í Bela­rús, sem fer allra sinna ferða í skjóli vernd­ar sem sendi­full­trúi Bela­rús. Óá­sætt­an­legt er að hann sé full­trúi Ís­lands, seg­ir sér­fræð­ing­ur.

Mest lesið í mánuðinum

Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
1
AfhjúpunSamherjaskjölin

Lög­regl­an á nýrri slóð: Fundu skila­boð Þor­steins

Tækni­mönn­um á veg­um hér­aðssak­sókn­ara tókst á dög­un­um að end­ur­heimta á ann­að þús­und smá­skila­boð sem fóru á milli Þor­steins Más Bald­vins­son­ar og Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar, á með­an sá síð­ar­nefndi var við störf í Namib­íu. Skila­boð­in draga upp allt aðra mynd en for­stjór­inn og aðr­ir tals­menn fyr­ir­tæk­is­ins hafa reynt að mála síð­ustu fimm ár.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár