Eigendur Morgunblaðsins, sem að stærstum hluta eru aðilar í sjávarútvegi, lögðu útgáfufélagi þess Árvakri til 300 milljónir króna í nýtt hlutafé árið 2019. Tap af rekstrinum nam 209 milljónum króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi Þórsmerkur, sem er móðurfélag Árvakurs. Árvakur gefur út Morgunblaðið, rekur Mbl.is og útvarpsstöðvarnar K100 og Retró 89,5. Tap á rekstri Árvakurs undanfarin tvö ár nemur 623 milljónum króna og hafa eigendur þurft að leggja rekstrinum til hálfan milljarð króna á því tímabili.
Stærstu eigendur Morgunblaðsins eru Íslenskar sjávarafurðir með 19,45 prósenta hlut, Hlynur A ehf., félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur útgerðarkonu með 18,49 prósenta hlut, Legalis, félag lögmannsins Sigurbjörns Magnússonar með 13,9 prósenta hlut og Ramses II, félag Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, með 13,41 prósenta hlut. Þá eiga Ísfélag Vestmannaeyja, Lýsi hf. og fleiri aðilar einnig hlut.
Til að fjármagna taprekstur Morgunblaðsins þurftu þessir aðilar að leggja móðurfélaginu Þórsmörk til 275 milljónir króna í nýtt hlutafé í fyrra. Frá því að hópurinn tók við rekstrinum árið 2009 og réð Davíð Oddsson, þá fráfarandi seðlabankastjóra, sem ritstjóra hafa eigendur lagt alls 1,9 milljarða til rekstursins.
Fjallað er sérstaklega um óvenjulegar aðstæður vegna Covid-19 faraldursins í ársreikningi Þórsmerkur. „Það er mat stjórnenda félagsins að ekki sé vafi um rekstrarhæfi þess vegna þessa,“ segir í ársreikningnum.
Athugasemdir