Píratar mælast nú næst stærsti flokkurinn á Alþingi samkvæmt könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með fylgi nær fjórðungs aðspurðra.
Könnunin var framkvæmd 23. til 28. júlí og hefur fylgi flokka breyst lítið frá síðustu könnun. Fylgi Samfylkingarinnar dregst mest saman og hefur flokkurinn tapað rúmum þremur prósentustigum frá síðustu mælingu í júní. Mælist hann sá þriðji stærsti með 13,1 prósenta fylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 24 prósenta fylgi, jafn mikið og í síðustu könnun og nálægt kjörfylgi í kosningum haustið 2017. Píratar mælast með 15,4 prósenta fylgi, rúmlega tveimur prósentum meira en í síðustu könnun og vel yfir fylginu árið 2017 sem var 9,2 prósent.
Framsóknarflokkurinn rís einnig nokkuð í könnuninni. Mælist hann með 8,6 prósent og nartar í hæla Vinstri grænna, sem mælast með 10,8 prósent. Í kosningunum fengu Vinstri græn 16,9 prósent, en Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins og forsætisráðherra, hefur tilkynnt um að næstu kosningar fari fram 25. september 2021.
Miðflokkurinn mælist með 8,4 prósent og Viðreisn sömuleiðis. Sósíalistaflokkurinn hækkar í könnuninni og mælist með 5,1 prósent. Mundi slíkt fylgi tryggja flokknum þingstyrk að loknum kosningum, en flokkurinn hefur ekki boðið áður fram til Alþingis. Flokkur fólksins mælist með 4 prósenta fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 47,7 prósent, aðeins meiri en í síðustu mælingu.
Athugasemdir