Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur beðið Ólaf Helga Kjartansson um að láta af störfum, en hann hefur ekki orðið við því.
Ólafur Helgi á langa og umdeilda sögu að baki sér, en hann hefur verið viðriðinn fjölda hneykslismála í gegnum árin. Í samantekt DV frá árinu 2014 er saga hans rakin vegna óánægju með skipun hans í embætti lögreglustjóra af hálfu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi ráðherra. Frá árinu 2002 hafði Ólafur starfað sem sýslumaður og lögreglustjóri á Selfossi, en fyrir það gegndi hann stöðu sýslumanns og bæjarfógeta á Ísafirði.
Illdeilur hafi ríkt meðal æðstu embættismanna lögreglunnar á Suðurnesjum samkvæmt frétt Vísis, þar sem fylkingar hafi myndast með og á móti Ólafi Helga. Fjórir af sjö yfirmönnum eru þá sagðir vinna gegn honum með beinum hætti. Ólafur Helgi hefur lengi verið umdeildur, en ítrekaðar athugasemdir hafa verið lagðar fram um framferði hans í hinum ýmsu málum í gegnum árin.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir það augljóst að dómsmálaráðherra eigi að hafa umboð til þess að leysa frá störfum óhæfa embættismenn sem starfa innan lögreglunnar. Hann segir stöðu lögreglunnar á Suðurnesjum vera með öllu óboðlega.
Fréttir RÚV herma að deilur innan skrifstofunnar hafi verið undirliggjandi. Upp úr sauð þegar lögreglustjóri prentaði út klúran texta úr sameiginlegum prentara lögreglustöðvar. Ekki er vitað nákvæmlega hvers eðlis hann var. Í frétt RÚV kemur fram að prentarinn hafi orðið uppiskroppa með pappír og því hafi aðeins hluti skjalsins prentast út í fyrri atrennu, en restin skilað sér þegar annar starfsmaður fyllti á prentarann.
Taldi rétt staðið að verki í þvagleggsmálinu
Árið 2007 varði Ólafur aðgerðir lögreglumanna í hinu alræmda þvagleggsmáli á Selfossi. Kona hafði verið stöðvuð við akstur og neitaði að veita sýni, en lögreglumennirnir girtu niður um hana með valdi og héldu henni nauðugri á meðan þeir þvinguðu þvaglegg í hana. Taktlaus ummæli Ólafs til varnar lögreglunni vöktu athygli í kjölfarið.
„Ég kannast ekki við að það að nokkur karlmannanna hafi talið að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða“
Konan kærði lögregluna til ríkissaksóknara í kjölfarið fyrir kynferðisofbeldi og voru henni dæmdar bætur. „Það hefur margoft gerst hjá okkur að settur hafi verið upp þvagleggur hjá karlmönnum. Ég minnist þess hins vegar ekki að áður hafi þurft að setja upp þvaglegg hjá kvenmanni. Ég kannast ekki við að það að nokkur karlmannanna hafi talið að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða,“ sagði Ólafur um málið.
Taldi barnaníðing ekki ógna almannahagsmunum
Þá var Ólafur Helgi sakaður um að hafa valdið fjölskyldu vanlíðan eftir slys. Í opnu bréfi Helgu Jónsdóttur, lögfræðings, sem birt var í Fréttablaðinu árið 2008 lýsir hún furðu sinni á því að maður hennar hefði í óþökk hennar verið ákærður fyrir bílslys sem olli aðeins þeim tveimur skaða. Hún segist hafa gert allt sem í hennar valdi stóð til þess að fá sýslumann, Ólaf Helga, til þess að verða af kærunni en hafi það fallið í grýttan jarðveg. Álagið sem málaferlin ollu fjölskyldunni og henni sjálfri var að mati læknis til þess fallið að aftra bata hennar. Maðurinn var látinn greiða sekt og dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Harkaleg framganga í garð skuldara
Árið 2009 í embætti sýslumanns á Selfossi boðaði Ólafur Helgi handtöku 370 einstaklinga í Árnessýslu þar sem þeir höfðu ekki skilað sér til fjárnáms í kjölfar efnahagshrunsins. Vöktu harkalegar aðgerðir hans athygli, en þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, tók fyrir hendurnar á honum og sagði þær ekki vera í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnar.
Stefna Ólafs Helga í garð skuldara hélt áfram, en árið 2011 lét hann framkvæma nauðungarsölu án lagaheimildar. Tveir aðilar sem áttu hús til helmings í Þorlákshöfn áttu í hlut, en hafði annar þeirra leitað til umboðsmanns skuldara. Íbúðalánasjóður og Byko höfðu sóst eftir nauðungarsölu en dregið hana til baka eftir samskipti við umboðsmann skuldara. Ólafur Helgi fór engu að síður fram á nauðgunarsölu, en hún var dæmd ólögleg og í kjölfarið var sýslumanni gert að greiða eigendum hússins 200.000 krónur í málskostnað.
„Hélt sýslumaður áfram löglausum gerningi og þóttist framkvæma uppboð án þess að nokkuð heyrðist til þeirra verka“
Árið 2013 var hann gagnrýndur á ný fyrir nauðungaruppboð á Selfossi. Ólafur varð uppvís af því að lofa gerðarþola frest á uppboði til níu um kvöldið og voru fyrirheit hans fest á myndbönd sem birt voru á netinu. Hann skipti síðan um skoðun og þvertók fyrir að hafa nokkurn tíma sagt að uppboði yrði frestað. Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður og bóksali, var viðstaddur en hann lýsti aðstæðum: „Hélt sýslumaður áfram löglausum gerningi og þóttist framkvæma uppboð án þess að nokkuð heyrðist til þeirra verka og fékk svo viðstadda lögmenn og fulltrúa banka til að undirrita hina ímynduðu uppboðsgerð sína sem svo sannarlega fór ekki fram í heyranda hljóði.“ Framferði Ólafs í máli Sverris Sverrisonar vakti jafnframt athygli um svipað leyti, en hann sagði sýslumann hafa neitað að bóka athugasemdir sínar við nauðungarsölu og meinað vitnum að vera viðstödd.
Athugasemdir