Lausum störfum hefur fækkað á árinu á sama tíma og fjöldi mannaðra starfa hefur hrunið vegna Covid-faraldursins. Þetta kemur fram í starfaskráningu Hagstofu Íslands.
Laus störf á íslenskum vinnumarkaði voru um 2.600 á öðrum ársfjórðungi 2020 og hafði þeim fækkað um 300 frá fyrsta fjórðungi. Lausum störfum sem hlutfall af öllum störfum hefur farið fækkandi frá lokum síðasta árs og er hlutfallið nú 1,3 prósent. Ef miðað er við sama tíma í fyrra má sjá að nú voru 3.600 færri laus störf en á öðrum ársfjórðungi 2019.
Hvað varðar heildarfjölda starfa má sjá á tölfræðinni að á öðrum ársfjórðungi 2020 voru 27.200 færri störf mönnuð en á sama ársfjórðungi í fyrra. Fjöldi starfa hefur aldrei verið lægri í starfaskráningu Hagstofunnar sem hófst í ársbyrjun 2019. „Má hér líklega kenna áhrifa kórónaveirunnar (Covid-19) á íslenskan vinnumarkað,“ segir í frétt Hagstofunnar um málið.
Athugasemdir