Eftir síðasta efnahagshrun náði hagkerfið okkar undraverðum bata með örum vexti ferðaþjónustu, sem hefði verið ómögulegur án þess að fjöldi útlendinga kæmi til landsins til að leysa láglaunastörfin sem fylgja ferðaþjónustu, fyrir takörkuð laun.
Ný skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar ferðaþjónustunnar hefur staðfest það sem fjallað hefur verið ítrekað um í Stundinni, að brotið sé skipulega á réttindum þessa fólks sem rétti við íslenska hagkerfið með eigin handafli, og að það sé gert í skjóli eftirlitsleysis yfirvalda.
Sögur af landi
Innflytjendur voru 19 prósent allra starfandi á vinnumarkaði í fyrra, hækkun úr 9% árið 2010. Sjö af hverjum tíu þeirra störfuðu í hótel- eða veitingageiranum. Annar hver starfsmaður á hótelum og gistiheimilum var innflytjandi 2017.
Þetta fólk, sem hefur lagt á sig vinnu sem Íslendingar forðuðust, og rifið upp hagkerfið, á sumt hvert hörmulega reynslu, vegna aðstæðna sem við sameiginlega bjóðum upp á.
Stundin byrjaði að fjalla um réttindabrot á erlendu starfsfólki í ferðaþjónustu af alvöru í mars 2017 í forsíðugrein.
Kona frá Tékklandi kom til Íslands árið 2015, eftir að hafa fengið boð um vinnu með 250 þúsund krónur í laun á mánuði við vinnu á hóteli. Hún hefur sagt frá því að eigandinn hafi krafist þess við komuna að hún svæfi í sama rúmi og hann. „Ég þurfti að ýta honum af mér og segja honum ítrekað að ég myndi ekki sofa hjá honum,“ sagði hún síðar í viðtali við Stundina. Eftir tæpa tvo mánuði á Íslandi fékk hún sitt eigið herbergi á gistiheimili í eigu sama manns. Leigan var dregin af laununum. Síðar átti eigandinn eftir að halda eftir 2,3 milljónum króna af launum til hennar, en hún vann á endanum dómsmál gegn honum.
Tvær konur frá Póllandi fóru að vinna á gistiheimili á Selfossi. Þær áttu að fá borgaðar 154 þúsund krónur á mánuði fyrir tólf tíma vinnudaga, sex daga vikunnar. Þær voru farnar að læsa að sér herbergisdyrunum og stilla stól undir hurðarhúninn af ótta við eigandann. Starfsmaður stéttarfélagsins, sem tók á móti þeim, var orðinn vanur því að sjá ungar stúlkur brotna niður fyrir framan hann, erlenda starfsmenn í ferðaþjónustu.
Í nýrri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðbúnað erlends starfsfólks, sem loks var gefin út í byrjun júlí, eftir að ferðaþjónustan lagðist nánast af, eru sagðar fleiri sögur.
Par bjó á gistiheimili og þurfti að vera til taks allan sólarhringinn að þjónusta gesti. Þau fengu aldrei frídag, en eftir fjögurra mánaða samfellda vinnu skruppu þau frá í nokkra daga og það var dregið af kaupinu þeirra.
Eigendur reyndu að fela slóð samskipta með því að forðast tölvupóst og nota frekar samfélagsmiðla.
„Hún er ekki að fá vikulegan frídag. Hún er bara látin vinna sjö daga vikunnar, alltaf. Hún var að biðja um sumarfrí, þá fékk hún það ekki.“
Ein kona var síðan rekin af veitingastað á Suðurlandi. Hún missti heimilið sitt um leið, því hún var í húsnæði á vegum vinnuveitanda. Hún stóð grátandi hjá stéttarfélagi klukkan fjögur á föstudegi. Að lokum fékk hún inni hjá Stígamótum.
Nýja heimilið
Rúmenskur maður sem leigði herbergi í Vesturbæ Reykjavíkur kvartaði undan því við eiganda hússins að lagnir hefðu farið í sundur og neitaði að borga leiguna.
Íslendingur sem hafði leigt herbergi í húsinu sagði frá því í samtali við Stundina í desember 2015 að þetta væri „óhæfur mannabústaður“. Blaðamaður Stundarinnar fór þá á vettvang og skrifaði eftirfarandi lýsingu: „Ef kviknaði í stigaganginum yrði fólk að steypa sér gegnum gluggana af 2–3 hæð eða verða eldsmatur.“ En þegar maðurinn krafðist þess við eigandann að gert yrði við lagnir, áður en leigan yrði borguð, mætti hann á staðinn með „kraftakarli“ og öskraði á hann.
Par frá Póllandi kom til landsins síðasta haust. Þau ákváðu að reyna að safna fyrir brúðkaupi sínu með því að vinna á veitingastöðum og leigja herbergi í húsi í Vesturbæ Reykjavíkur, á sama stað. Þau brunnu þar inni í síðasta mánuði.
Þjóðararðurinn
Til að gæta fullrar sanngirni var líklega þrennt annað en erlent starfsfólk sem stóð undir upprisu Íslands eftir síðasta hrun.
Í fyrsta lagi, eins og sjá mátti í nýlegu myndbandi Knattspyrnusambands Íslands, eru hér mögnuð náttúruöfl. Eldgosið í Eyjafjallajökli markaðssetti Ísland og náttúru landsins um allan heim.
Svo er það mannauður Íslendinga.
Við getum talað þar um fjárfestana og snjallt athafnafólk. En við tölum bara svo oft um þetta fólk. Í hvert skipti sem rætt er um launahækkanir láglaunafólks, er talað um hagsmuni fjárfestanna. Fá þeir nægan arð af fjárfestingum sínum ef launin hækka?
Svo er það íslenska krónan, sem lækkar þegar eitthvað bjátar á, sem um leið veldur raunlækkun á launum. Eftir að laun tóku að hækka á Íslandi þótti mikilvægt að halda niðri launum í veitinga- og hótelgeiranum. Síðustu árin hefur það helst verið þetta fólk sem vinnur á strípuðum taxtalaunum. Árið 2019 fór hagsældin að seytla niður til starfsmannanna á gólfinu, með kjarasamningum. Við vitum ekki hvernig launaþróun í ferðaþjónustu var áður, því ekki var sérstaklega haldið utan um hana. Launahækkun um 17.000 krónur leiddi til þess að laun í ferðaþjónustu hækkuðu um 6 prósent fyrri hluta ársins í fyrra.
Menn vöruðu harðlega við launahækkunum þeirra lægst launuðu og töluðu um „sturlun“, því það þarf að verja stöðugleikann.
Landvættir Íslands
Þegar erlent láglaunafólk kemur til Íslands, til að halda uppi grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, mæta því ógnir.
Við getum talað um risana á markaði sem borga lágmarkslaun, sama hvernig fólk stendur sig. Gammana sem nærast á neyð annarra. Dreka sem skilja eftir sig sviðna slóð og fljúga yfir á næsta stað. Og nautþrjóska, freka athafnamenn sem valta yfir fólk, hóta því brottrekstri þegar það biður um laun eða lágmarksaðbúnað í leiguhúsnæði.
Í lífi fólksins sem kemur hingað eru þetta óvættir, sem standa saman og verja vígið, varna þeim uppgöngu, brjóta þau á bak aftur.
Ímynd útlendinga
Í mesta góðærinu vegna ferðaþjónustunnar var einna háværust umræðan um að útlendingarnir, sem hingað kæmu, væru að gera þarfir sínar úti við. Ástæðan var fyrst og fremst skortur á salernisaðstöðu og að grunnþarfir fólks hverfa ekki þrátt fyrir skort á aðstöðu. Í umræðunni var dregin upp mynd af erlendum ferðamönnum sem einhvers konar skepnum. Ef þeir gerðu ekki þarfir sínar úti, var kvartað undan kostnaði við að þeir færu á salernið á sölustöðum við ferðamannastaði, vegna þess að þeir keyptu ekki alltaf eitthvað.
Auðvitað var minna talað um erlenda starfsfólkið, nema hvað að kvartað var undan skorti á íslenskukunnáttu þjónustufólks.
Þessi hópur upplifir einangrun, þekkir ekki réttindi sín með sama hætti og aðrir, býr jafnvel í húsnæði vinnuveitanda og er jafnvel háð vinnuveitandanum með rétt sinn til að vera á landinu.
Í skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála er haft eftir starfsmanni stéttarfélags hvers konar vanmat og vanþakklæti er um að ræða þegar kemur að erlendu starfsfólki. „Við föttum ekki stundum, Íslendingar, hvílíka auðlind við erum með í erlendu starfsfólki sem er að vinna hérna. Stór hluti með einhverja háskólamenntun.“
Í skýrslunni er ferðaþjónustuaðilunum skipt í þrennt. Þá sem eru með sitt í lagi, og borga yfirleitt samkvæmt lægsta taxta. Þá eru það þau sem brjóta af sér vegna vanþekkingar, þar sem er, samkvæmt skýrslunni: „Svona gullgrafaraæði í kringum þetta. Þá er bókhald, reglur og lög og laun og kjarasamningar og svona sett meira í þriðja sæti.“
Svo eru það þeir sem brjóta aftur og aftur á starfsfólki og fá bara nýtt fólk þegar hitt gefst upp.
„Mér finnst við yfirleitt vera að fást við sömu aðila sem eru að brjóta á nýju fólki. Það eru sömu vandamálin, nýtt fólk sem brotið er á,“ segir starfsmaður stéttarfélags í skýrslunni.
Þegar starfsmenn búa hjá vinnuveitandanum þora stéttarfélögin oft ekki að gera veður. „Vegna þessa að ef við förum af stað og búum til einhver læti þá er félagsmaðurinn búinn að missa vinnuna og hann er búinn að missa heimilið sitt. Þannig að við erum alltaf pínulítið í þessari klemmu, hvað eigum við að gera, hvað eigum við að ganga hart?“
Þjóðararfurinn
Á Íslandi, eins og víðar um heim, er verið að endurmeta þjóðararf.
Knattspyrnusamband Íslands hefur kynnt nýja ímynd landsliðsins. Ímyndarbreytingin virðist marka dyggðaskipti. Fyrri ímynd byggði á hógværð, dugnaði, virðingu og samvinnu. Eitt af því sem landslið Íslands var þekkt fyrir, var að taka alltaf til í búningsherbergi eftir leiki. Virðingin er andstæðan við rembing.
Nýja ímyndin byggir á einstökum eiginleikum íslensku þjóðarinnar, sem barist hefur við náttúruöflin um aldir, og varist útlendingum. Varist útlendinga. Varnið þeim inngöngu.
En í þjóðarbúi þjóðararfsins liggur margur lærdómur. Við eigum til dæmis Hávamál, sem fjalla um gestrisni, hógværð og hófsemi. Hendi næst er máltækið dramb er falli næst.
Leið okkar til aflausnar liggur í gegnum virðinguna, sem liggur að lágmarki í viðurkenningunni. Þrátt fyrir framlag erlendra starfsmanna hefur ekki verið stofnaður dagur erlends láglaunafólks. Ríkisstjórnin hefur ekki fundað um andlát þriggja erlendra láglaunastarfsmanna. Á Alþingi var hálftíma umræða, þar sem forsetinn kvartaði undan jakkafataleysi þingmanns, þegar hann ofhitnaði við að gluggarnir voru lokaðir, vegna þess að 650 metrum frá logaði eldur á Bræðraborgarstíg 1.
Rannsóknir sýna að þakklæti er ein vísasta leiðin til lífshamingju. Það þarf bara að þakka þeim sem þakka ber, þeim sem bera byrðina, engu síður en þeim sem standa á öxlum þeirra. Það hefur líka gildi fyrir okkur sjálf. Þannig getum við markað okkur dyggðir og gildismat, aukið virði þjóðararfsins.
Nú þegar við sjáum fram á að byrja upp á nýtt ættum að geta fundið betri leiðir til að þakka þeim það sem þau hafa gert fyrir Ísland.
Athugasemdir