Ríkisstjórn Íslands hefur ekki rætt um einn mannskæðasta bruna síðustu áratuga á þeim tveimur ríkisstjórnarfundum sem haldnir hafa verið síðan.
Þrír létust og tveir til viðbótar voru fluttir á gjörgæsludeild þegar eldur kom upp í þriggja hæða húsi við Bræðraborgarstíg á fimmtudag í síðustu viku. Talið er að um íkveikju hafi verið að ræða, en 73 eru skráðir til heimilis í húsinu og líkur eru á því að þar sé um erlent verkafólk að ræða og að atvinnurekendur þeirra hafi útvegað þar húsnæði. Húsið er í eigu félagsins HD verk ehf.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, hefur sagt brunann einn þann mannskæðasta sem hefur átt sér stað á Íslandi síðust þrjátíu til fjörutíu ár. Sagði hann málið eitt erfiðasta verkefni sem hann hafi upplifað á ferli sínum og fékk starfsfólk sem tók þátt í aðstoð á vettvangi félagsstuðning vegna áfallsins.
Tveir ríkisstjórnarfundir hafa verið haldnir eftir að eldsvoðinn átti sér stað, föstudaginn 26. júní og í dag 3. júlí. Bruninn eða mál tengd honum hafa ekki verið á dagskrá. Engin frétt hefur birst um málið á vef stjórnarráðsins.
Til samanburðar var á fundi ríkisstjórnar í dag til umræðu fjárþörf vegna snjóflóða sem féllu á Flateyri í janúar. Eftir snjóflóðin flugu þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, til Flateyrar og kynntu sér aðstæður. Ríkisstjórnin ræddi málið á fyrsta fundi sínum eftir atvikið, tveimur dögum eftir að snjóflóðin féllu. Var þá stofnaður starfshópur til að fara yfir ofanflóðavarnir, verkefnisstjórn í kjölfarið til að fylgja tillögum hans eftir og úthlutaði ríkisstjórnin fjármunum til þessa. Mikið eignatjón varð í snjóflóðunum, en enginn lét lífið.
Bruninn hefur vakið óhug og skapað umræðu um aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi og brunavarnir í ósamþykktum gististöðum og atvinnuhúsnæði. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur kallað eftir því að ítarleg rannsókn fari fram á aðdraganda og orsökum brunans. Þá voru tvö þeirra sem létust félagsmenn í Eflingu og hefur félagið sett brunann í samhengi við aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi. „Efling krefst þess að félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin efni tafarlaust loforð um hertar aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, þar með talið loforð um sektarheimildir vegna kjarasamningsbrota og önnur viðurlög,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.
Athugasemdir