„Þegar maður er kominn í Uppgönguvík, þar sem bátar geta lagst við flotbryggju og maður drepur á bátnum og fer í land og heyrir bara fuglagargið og sér bergið slúta yfir mann, þá gerir það mann lítinn í þessari veröld. Þetta er allt öðruvísi en þegar menn sjá þetta úr bíl frá Vatnsskarðinu og horfa yfir fjörðinn,“ segir Viggó Jónsson, sem er borinn og barnfæddur Skagfirðingur. „Drangey er há og hrikaleg.“
Drangey, sem er á náttúruminjaskrá, er um 1000 metrar á lengd og um 200 metrar á breidd. Hún er hæst um 180 metrar og er með grasi vaxinn koll. Fuglalíf er mikið í eyjunni og telst hún á alþjóðlegan mælikvarða vera mikilvæg sjófuglabyggð. Hún er til dæmis mikilvægur varpstaður langvíu, álku og lunda.
Kerling stendur sunnan við Drangey sem Viggó segir að sé elsta og stærsta kerling í Skagafirði.
Athugasemdir