Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur að bæjarfélagið hafi verið „illa í stakk búið“ til þess að ráða við uppbyggingu kísilvers United Silicon í Helguvík. Mikilvægt sé að draga lærdóm af þeim hrakförum.
Þetta er niðurstaða meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Í skýrslu umhverfis- og auðlindaráðherra frá 2018 kom fram að undirbúningur gangsetningar kísilverksmiðjunnar hafi verið ónógur af hálfu rekstraraðila og stjórnun mengunarvarna og búnaði ábótavant. Ríkisendurskoðun skilaði einnig skýrslu sama ár þar sem fjölmargar athugasemdir voru gerðar við aðkomu og eftirlit stjórnvalda í tengslum við útgáfu leyfa og eftirlit með rekstrinum.
Reykjanesbær lét í framhaldinu gera stjórnsýsluúttekt um aðkomu sveitarfélagsins sem skilað var í byrjun mánaðar. „Megin niðurstaða skýrslunnar er að annmarkar hafi verið á útgáfu byggingarleyfa og byggingar því ekki í samræmi við deiliskipulag og umhverfismat,“ segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar. „Svo virðist sem mikil pressa hafi verið sett á embættismenn um að afgreiða erindi framkvæmdaaðila með hraði sem hafi leitt til verulegra mistaka.“
Meirihlutinn tekur sérstaklega fram að ekkert bendi til þess að annarleg sjónarmið hafi ráðið ferð í samskiptum stjórnenda Reykjanesbæjar við fyrirtækið. „Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telur að bæjarfélagið hafi verið illa í stakk búið til þess að ráða við svo viðamikið verkefni. Mikilvægt er að lærdómur sé dreginn af þeim hrakförum sem áttu sér stað við uppbyggingu kísilvers United Silicon í Helguvík.“
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins, sagðist ósammála því að sveitarfélagið hafi ekki verið í stakk búið til að takast á við verkefnið. „Ólöglegar pólitískar ákvarðanir þáverandi meirihluta eru meginástæða þess hvernig fór“, lét hún bóka á fundinum.
Benti hún á að Reykjanesbær hafi skuldbundið sig með sérstökum samningi við United Silicon að afgreiða umsóknir um byggingarleyfi innan 6 virkra daga. Slíkur samningur sé ekki í samræmi við lög eða vandaða stjórnsýsluhætti að mati skýrsluhöfundar. „Niðurstaða skýrslunnar er sláandi og áfellisdómur yfir stjórnsýslu bæjarins“, bætti Margrét við. „Afleiðingarnar voru afdrifaríkar og öllum bæjarbúum kunnar. Ábyrgðin er fyrst og fremst pólitísk, það má glöggt sjá í áðurnefndum ólögmætum 6 daga samningi.“
Athugasemdir