Covid-19 getur gert lungu þeirra sjúklinga sem deyja nær óþekkjanleg. Vísindamenn í Bretlandi segja óvíst hvort þeir sem hafa smitast nú þegar geti smitast aftur þegar seinni bylgja veirunnar ríður yfir.
Nær átta milljón manns hafa greinst með veiruna á heimsvísu og yfir 435 þúsund látist. Í The Guardian í gær er fjallað um áhyggjur vísindamanna af þeim langtíma vandamálum sem fylgt geta veikindunum. Mauro Giacca, prófessor við King's College í London, kynnti rannsóknir fyrir efri deild breska þingsins sem sýna þann lungnaskaða sem þeir sjúklingar á Ítalíu sem létust eftir 30 til 40 daga á gjörgæslu þurftu að þola.
„Það sem við sjáum í lungum fólks sem þjáðist af sjúkdómnum í meira en mánuð áður en þau létust er eitthvað allt annað en venjuleg lungnabólga, inflúensa eða Sars veiran,“ sagði hann. „Við sjáum meiriháttar blóðtappa. Arkitektúr lungnanna brotnar algjörlega niður. Í ákveðinni birtu getur þú ekki greint að þetta hafi verið lunga.“
Giacca sagði veiruna enn að finna í lungum þeirra sem látnir eru. „Ég er sannfærður um að þetta útskýri óvenjuleg einkenni Covid-19,“ sagði hann. „Þetta er ekki sjúkdómur sem er orsakaður af veiru sem drepur frumur, sem hefur mikla þýðingu varðandi meðferð.“
Vísindamenn ræddu einnig möguleikann á ónæmi gegn veirunni, nú þegar nær hálft ár er liðið frá því að hún kom fyrst fram í Evrópu. John Bell, prófessor við Oxford háskóla, sagði að slíkt mundi koma í ljós þegar seinni bylgja smita ríður yfir Bretland, sem hann telur mjög líklegt.
„Þar sem samkomubanni hefur að miklu leyti verið aflétt er allt farið á fullt aftur og við sjáum enn töluvert af smitum í samfélaginu,“ sagði hann. „Ég yrði mjög hissa ef við sleppum við aðra bylgju. Ég held að stóra spurningin sé hvort við munum hafa sjá reglulega toppa og síðan seinni bylgju eða bara seinni bylgju.“
Slík bylgja mundi gefa heilbrigðisyfirvöldum í Bretlandi tækifæri til að gera próf á þeim 100 þúsund starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum sem smitast hafa af veirunni og gætu því haft mótefni. Það mun auka skilninginn á ónæmi þegar í ljós kemur hvort þeir smitast aftur, en það verður erfitt að komast að því án seinni bylgju, að sögn Bell.
Athugasemdir