Omar Jimenez, fréttamaður CNN, var handtekinn nærri vettvangi uppþota í Minnesota í morgun. Var hann í beinni útsendingu þegar fylkislögreglumenn handtóku hann, að því er virðist að tilefnislausu, eins og sést á myndbandi.
Eldar hafa logað í Minneapolis í uppþotum almennra borgara. Í tvíburaborginni, St. Paul, hafa engar tilkynningar um meiðsli borist, en skemmdir hafa verið unnar hjá 170 fyrirtækjum. Mótmæli hafa nú einnig átt sér stað í New York, Denver, Phoenix, Memphis og Columbus í Ohio.
Uppþotin hafa átt sér stað í kjölfar þess að George Floyd, þeldökkur maður, lést eftir handtöku lögreglu í Minneapolisborg, eftir að lögreglumaður setti hné sitt og hvíldi þunga sinn á hálsi mannsins.
Mótmælendur hafa hrópað nafn George Floyd og „I can't breathe“, eða „Ég get ekki andað“, sem voru andlátsorð Floyd.
Floyd, sem var 46 ára gamall, lést eftir að lögreglan kom á vettvang til að sinna meintri fölsun í hverfisverslun.
Lögreglan í Minneapolis greinir frá því að lögreglumaðurinn, sem olli dauða Floyds, hafi fengið á sig 18 kvartanir. Lögreglumaðurinn, sem heitir Derek Chauvin, var rekinn ásamt þremur samstarfsmönnum sínum vegna andláts Floyds. Þeir hafa hins vegar ekki verið ákærðir fyrir glæp og vilja mótmælendur koma því til leiðar.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði á Twitter í gærkvöldi að mótmælendur mættu búast við því að skothríð hæfist ef gripdeildir ættu sér stað. „When the looting starts, the shooting starts,“ tísti Trump. „Þessir ÓÞOKKAR eru að vanvirða minningu George Floyd, og ég leyfi því ekki gerast. Var að tala við Tim Walz ríkisstjóra og sagði honum að Herinn sé með honum alla leið. Ef þetta verður vandamál munum við taka stjórnina, en þegar ránin byrja hefst skothríðin. Takk fyrir!“
Twitter faldi tístið, á grundvelli þess að um upphafningu ofbeldis væri að ræða. Það var þó enn sýnilegt undir viðvörun um að efnið bryti gegn reglum miðilsins, en þó væri í hagsmunum almennings að hægt væri að nálgast það.
Mark Zuckerberg, eigandi og forstjóri Facebook, hefur boðað að engin sambærileg ritskoðun verði á efni frá forsetanum á Facebook.
Trump hefur brugðist við staðreyndavöktun og viðvörunum Twitter með því að undirrita forsetatilskipun sem ætlað er að veikja réttarstöðu samfélagsmiðla. Samkvæmt lögum frá árinu 1996 eru samfélagsmiðlar ekki lagalega ábyrgir fyrir efni sem birtist á þeim og hafa þeir rúman rétt til þess að ritskoða efnið. Með tilskipun Trumps verður hægt að saksækja samfélagsmiðla ef þeir snerta við efninu með einhverjum hætti, til dæmis með því að setja viðvaranir á það eða fela það. Búist er við því að dómstólar muni taka afstöðu til tilskipunarinnar.
Athugasemdir