Fylgi Pírata hefur aukist um þrjú prósentustig milli kannana MMR og mælist flokkurinn nú með 14,6 prósenta stuðning, næst mest flokka. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur nú sem fyrr mests stuðnings en 23,5 prósent aðspurðra segjast myndu kjósa flokkinn borið saman við 22,2 prósent í síðustu könnun sem birt var 8. maí síðastliðinn. Framsóknarflokkurinn mælist nú með 6,4 prósenta fylgi og hefur ekki mælst lægri frá síðustu kosningum. Í síðustu könnun var fylgi flokksins 9,4 prósent og er munurinn martktækur. Breytingar á fylgi annarra flokka eru innan vikmarka.
Samfylkingin mælist þriðji stærsti flokkur landsins, nýtur nú 13,3 prósenta stuðnings en mældis síðast með 12,3 prósenta stuðning. 11,3 prósent aðspurðra segjast nú styðja Viðreisn borið saman við 12,3 prósent í síðustu könnun. 10,8 prósent aðspurðra sögðust nú myndu kjósa Miðflokkinn ef gengið yrði til kosninga en voru síðast 9,7 prósent. Vinstri græn mælast með einu prósentustigi minni stuðning nú en 8. maí, 10,6 prósent nú en 11,6 prósent þá.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands stendur því sem næst í stað og er nú 4,1 prósent en mældist síðast 4,3 prósent. Þá segjast 3,6 prósent styðja Flokk fólksins borið saman við 3,9 prósent síðast. Stuðningur við aðra mældist 1,8 prósent samanlagt.
Svarfjöldi í könnuninn var 944 einstaklingar og þar af gáfur 76,9 prósent upp afstöðu. 6,7 prósent sögðust vera óákveðnir, 7,1 prósent sögðust myndu skila auðu, 2,7 prósent sögðus ekki myndu kjósa og 6,6 prósent gáfu ekki upp afstöðu.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar töluvert frá fyrri könnun. Hann mældist nú 47,5 prósent og minnkar um tæp sjö prósentustig en síðast mældist stjórnin með stuðnin 54,2 prósenta aðspurðra.
Athugasemdir