Nú er öld síðan frumsýnd var vestanhafs kvikmynd, sem þykir að vísu alls ekki í hópi listaverka á hvíta tjaldinu, en markaði þó furðu djúp spor og á sitt pláss í kvikmyndasögunni.

Myndin hét og heitir enn The Mark of Zorro og var gerð eftir ársgömlum reyfara eftir Johnston nokkurn McCulley.
Þar sagði frá spænskættuðum aðalsmanni sem bjó í Kaliforníu laust fyrir miðja 19. öld meðan svæðið var enn undir stjórn Mexíkóa. Don Diego Vega hét hann og þótti gæflyndur og meinlaus og hafðist ekki að þótt stjórnarfarið væri spillt og landeigendur færu illa með fátæka smábændur í skjóls grimmúðugs herstjóra Mexíkó-stjórnar.
Don Diego setur upp grímu
Á kvöldin setti Don Diego hins vegar upp svarta grímu, girti sig sverði og skikkju og stökk á bak glæstum svörtum fola. Þannig búinn fór hann ríðandi um sveitir að liðsinna hinum kúguðu og var ósmeykur að bregða sverði sínu gegn vondu köllunum.
Myndin varð mjög vinsæl í Bandaríkjunum. Mexíkó var mönnum ofarlega í huga eftir langvinnar róstur þar suður frá sem Bandaríkjamenn blönduðust inn í á ýmsan hátt. Þar höfðu komið við sögu litríkir kappar eins og Pancho Villa og Emiliano Zapata og í hugarheimi Bandaríkjamanna og síðar annarra þjóða varð Zorro arftaki þeirra.
Og Hróa hattar-þema sögunnar af Zorro fór auðvitað ekki framhjá nokkrum manni.
Umfram allt þótti Merki Zorros þó vera ærleg skemmtun og aðalleikarinn Douglas Fairbanks tók sig einkar vel út í skylmingasenum myndarinnar.
Þrælað út
Fairbanks var þegar orðinn einn vinsælasti kvikmyndaleikari vestanhafs, myndarlegur og glæsilegur á velli, traustvekjandi og ábyggilegur en bjó yfir kímnigáfu og þokka um leið. Hann var 37 ára árið 1920 og hafði leikið í um 30 myndum á sex árum. Yfirleitt voru þær rétt tæpur klukkutími að lengd.
Á þessum árdögum hafði kvikmyndaleikurum verið þrælað út og þeir fengu lágt kaup fyrir allt sitt streð. Eftir því sem vinsælustu leikararnir urðu stærri stjörnur í augum áhorfenda komust þeir hins vegar í betri aðstöðu til að semja um kaup og kjör. Og 1919 hafði Fairbanks tekið höndum saman við þrjá kunningja sína í bransanum og stofnað fyrirtækið United Artists, Sameinaðir listamenn, þar sem hagsmunir listamannanna skyldu í heiðri hafðir en ekki græðgi stúdíómógúla.
Eitthvað sögulegt
Þessir þrír kunningjar voru Charlie Chaplin, grínleikari sem þráði að gera sínar eigin myndir á eigin forsendum; D.W.Griffith, aðsópsmesti leikstjórinn í bandarískum kvikmyndaheimi, og vinsælasta stjarnan af kvenkyni, hin mjög svo dáða og elskaða Mary Pickford.
Eitthvað sögulegt hlaut að gerast þegar þetta fólk tók höndum saman, hugsuðu bandarískir kvikmyndaáhugamenn, og ekki minnkaði spennan þegar fréttist að Fairbanks og Pickford væru farin að draga sig saman. Í mars 1920 gengu þau í hjónaband með mikilli og glæstri viðhöfn og vakti tilstandið gífurlega athygli.
Uppþot er Fairbanks og Pickford birtast
Evrópumenn voru ekki síður ginnkeyptir fyrir fréttum af þeim skötuhjúum. Þegar þau fóru í brúðkaupsferð til Evrópu kom sums staðar til uppþota þegar fólk flykktist að til að reyna að koma auga á „konunginn og drottninguna í Hollywood“.
Þá þegar var fyrir UA byrjað að dæla út vinsælum myndum. Í ársbyrjun 1920 hafði Pickford til dæmis slegið rækilega í gegn í hlutverki Pollyönnu í samnefndri kvikmynd, þeirri fyrstu sem gerð var um þá jákvæðu og bjartsýnu stúlku.
Það var dæmi um persónutöfra Pickford á hvíta tjaldinu að áhorfendur skyldu kæra sig kollótta um að hin 12 ára gamla Pollyanna væri leikin af 27 ára gamalli konu, og Pickford lék svo kornungar sakleysislegar stúlkur í mörg ár til viðbótar og raunar allt þar til ferli hennar lauk er hún var komin nærri fertugu.

Lillian Gish
Allra vinsælasta mynd ársins 1920 var hins vegar hvorki Zorro-mynd Fairbanks né Pollyönnu-mynd Pickford. Það var myndin Way Down East eða Langt í austri. Æskuvinkona Mary Pickford lék þar aðalhlutverkið, hin hunangsfagra Lillian Gish.
Geta má þess að vinkonurnar Gish og Pickford voru til þess að gera nýstignar upp úr spænsku veikinni sem þær veiktust báðar af síðla árs 1918. En myndin Langt í austri fjallar um unga stúlku sem lendir í miklum raunum og mikilli dramatík og persónulegum hörmungum en allt fer vel að lokum og hún giftist rétta karlinum.
Leikstjóri var D.W.Griffith, sem segja má að hafi verið eins konar hugmyndafræðilegur faðir hinnar amerísku „stórmyndar“ sem kannski var helsta framlag Bandaríkjamanna til kvikmyndaheimsins þessa fyrstu áratugi – og svosem löngum síðar.
Löðrandi í rasisma
Griffith hafði gert brautryðjendaverkið The Birth of a Nation, eða Fæðing þjóðar, árið 1915. Hún var lengsta kvikmynd fram að því (þrír tímar) og fjallaði um eftirköst bandaríska borgarastríðsins með heilmiklum tilþrifum en er því miður löðrandi í rasisma og fyrirlitningu á afrískættuðu fólki. Myndin sýnir svertingja (sem flestir eru leiknir af hvítum mönnum með skósvertu í framan) sem einfeldninga og bjálfa er hugsa um fátt annað en að ríða hvítum konum.
Griffith svaraði gagnrýnisröddum með myndinni Intolerance, eða Vægðarleysi, ári seinna, þar sem byggðar voru rosalegustu leikmyndir fram að því fyrir einn kafla myndarinnar sem gerist í Babýlon til forna.
Rosalegar leikmyndir frá Babýlon
Vægðarleysi var eitt fyrsta raunverulega kvikmyndalistaverk Bandaríkjamanna og hafði sérlega mikil áhrif í Evrópu. Hún stóð hins vegar ekki undir kostnaði til skamms tíma og því var velgengni Langt í austri árið 1920 kærkomin fyrir Griffith.
En ég var að tala um The Mark of Zorro. Sú mynd treysti ekki bara vinsældir Fairbanks í sessi og gerði honum kleift að færa sig frá tiltölulega efnisrýrum gamanmyndum yfir í „búningamyndir“ með hasar og lífshættu. Vinsældir myndarinnar voru reyndar svo miklar að þótt grímuklæddar glaðbeittar hetjur hafi svo sem sést áður í kvikmyndum, þá var þaðan í frá farið að gera mun markvissar og eindregið út á þann markað sem þarna var bersýnilega fyrir hendi.
Batman og Avengers
Og skikkjuklæddir grímubúnir kappar hafa æ síðan lifað góðu lífi á hvíta tjaldinu og færst í aukana ef eitthvað er, þótt undanfarið hafi Batman og nú síðast ýmsir Avengers skyggt á Zorro sjálfan.
Myndir eins og Zorro og stjörnur eins og Fairbanks og Pickford voru hins vegar einmitt um 1920 að treysta mjög stöðu Bandaríkjanna, og ekki síst Hollywood-bæjar, sem yfirburðaveldis í kvikmyndaheiminum. Þýskaland og fleiri lönd voru þá heilmikil veldi í hinum splunkunýja bransa, en þótt mörg nýmæli í kvikmyndalistinni sjálfri spryttu upp þar tók Hollywood brátt að soga til sín æ fleiri fremstu listamenn annarra þjóða, ekki síst Þjóðverja – og fella þá smátt og smátt í sitt mót.
Chaplin springur út
En sú er önnur saga. Næstu árin gekk flest að óskum hjá fjórmenningunum sem stofnað höfðu UA. Að vísu hallaði undan fæti hjá Griffith þegar líða tók á þriðja áratuginn en 1921 sprakk Chaplin hins vegar út þegar frumsýnd var mynd hans The Kid, eða Krakkinn. Með þeirri mynd hófst sú ótrúlegra runa snilldarverka sem Chaplin sendi frá sér í Ameríku næsta hálfan annan áratuginn: Gullæðið (1925), Sirkus (1928), Borgarljós (1931), Nútíminn (1936) og Einræðisherrann (1940).
Verk sem vissulega skyggja á allt það sem Griffith, Fairbanks og Pickford tóku sér fyrir hendur um ævina.
Einstein gestur í Pickfair
En frægð og frami Fairbanks og Pickford óx stöðugt á þriðja áratugnum og farið var að líta á þau sem ekki bara kóng og drottningu í Hollywood heldur í Bandaríkjunum eins og þau lögðu sig. Þau bjuggu í glæsilegri villu í Beverly Hills, sem nefndist Pickfair eftir þeim hjónum, og þangað streymdu frægðarmenn af öllu tagi, stjórnmálaleiðtogar jafnt og listamenn, og fengu að snæða við borð hjónanna og baða sig stundarkorn í ljómanum frá þeim. Albert Einstein var til dæmis gestur þeirra oftar en einu sinni en hvort mikið var rætt u,m afstæðiskenninguna fylgir ekki sögunni.
Hallar undan fæti
Bak við glæst yfirborðið fóru þó að koma í ljós sprungur. Hvorki Zorro kóngur né Pollyanna drottning réðu við talmyndirnar þegar þær komu til sögunnar um 1930 og bæði flosnuðu upp frá ferli sínum. Fairbanks hélt framhjá og skildi að lokum við sína góðu Pollyönnu. Hann fékk hjartaslag í desember 1939 og dó skömmu síðar, 56 ára. Síðustu orð Zorros voru:
„Mér hefur aldrei liðið betur.“
Blekking, eins og svo margt í lífi hans og ferli.
Pollyanna var þá löngu týnd í myrkri veröld alkóhólisma og kojufyllería. Hún lokaði sig inni í svefnherbergi sínu og þegar gestir komu fengu þeir í hæsta lagi að tala við hana í síma. Hún dó 1979.
Athugasemdir