Mikil óánægja ríkir meðal íslenskra auglýsingastofa með þá ákvörðun Ríkiskaupa að fela alþjóðlegu auglýsingastofunni M&C Saatchi gerð kynningarherferðarinnar „Ísland saman í sókn“ eða Destination Iceland, sem ætlað er að laða erlenda ferðamenn aftur til Íslands. Allar stærstu auglýsingastofur hér á landi tóku þátt í útboðinu en í það heila bárust 15 tillögur, 8 erlendar og 7 innlendar. M&C Saatchi í samstarfi við íslensku auglýsingastofuna Peel varð fyrir valinu.

Greint var frá því í frétt á vef mbl.is í dag að M&C Saatchi sæti rannsókn breska fjármálaeftirlitsins vegna bókhaldsmisferlis. Í svari Halldórs Ó. Sigurðssonar, forstjóra Ríkiskaupa, við þeirri spurningu Stundarinnar hvort Ríkiskaup hafi verið meðvituð um þá rannsókn og hvort hún hafi verið tekin inn í myndina þegar ákvörðun var tekin um að skipta við stofuna, sagði hann frétt eða rannsókn á þessu stigi ekki hafa áhrif á val bjóðanda. Liggja þurfi fyrir dómur eða staðfesting frá opinberum aðilum um að einhver brot hafi átt sér stað. Í svari hans segir jafnramt að tilboðin séu valin út frá fyrirframgefnum valforsendum og hæfiskröfum sem fram koma í útboðsgögnum í samræmi við íslensk lög. „Ríkiskaupum ber skylda til að staðfesta að útilokunarástæður 68. gr. laga um opinber innkaup eigi ekki við um fyrirtæki áður en endanlegur samningur er gerður. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að um slíkt sé að ræða. Í 68. gr. segir m.a. að „bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi“ fyrir tiltekin afbrot skal útilokaður frá þátttöku í innkaupaferli. Lögin heimila ekki að ákvarðanir um val á bjóðendum byggi á fréttaflutningi heldur á staðreyndum og ef svo ber undir endanlegum dómum um afbrot. Fyrirtækið stóðst allar hæfiskröfur útboðsgagna en eins og fyrr er nefnt þá verður að leita endanlegra staðfestinga um hæfi bjóðandans áður en gengið er frá endanlegum samningi.“
„Fyrirtækið stóðst allar hæfiskröfur útboðsgagna“
Þá bendir hann á að lög um opinber innkaup byggi á þeirri forsendu að Ísland er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og skylt sé að auglýsa útboð þar ef fjárhæðir fara yfir ákveðin viðmiðunarmörk.
Auglýsingastofan M&C Saatchi sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi, þar sem brugðist var við umræðunni hér á landi um rannsóknina. Þar segir að aldrei hafi verið ætlunin að leyna neinu hvað hana varðar. „Fjallað hefur verið um þetta mál nokkuð ítarlega í breskum og alþjóðlegum fjölmiðlum. Um er að ræða gamalt mál sem tengist eingöngu málefnum eignarhaldsfélagsins og ferlum þess við upplýsingagjöf sem skráð félag. Mikilvægt er að fram komi að félagið upplýsti um það að eigin frumkvæði. Í kjölfarið hefur umrætt vinnulag verið endurskoðað og nýr fjármálastjóri og algjörlega nýtt fjármálateymi hafa tekið við hjá eignarhaldsfélaginu. Enginn þeirra sem ábyrgð báru starfa þar lengur. Málið hefur jafnframt engin áhrif haft á þau dótturfélög M&C Saatchi Group sem unnu að sigurtillögunni að komandi markaðsherferð íslenskrar ferðaþjónustu. Ekkert þessara dótturfyrirtækja og eða einstaklingar innan þeirra tengdust málinu sem fjallað er um í umræddri frétt Morgunblaðsins,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.
Munaði litlu á fyrstu og öðru sæti

M&C Saatchi hlaut 87,17 stig af hundrað mögulegum en auglýsingastofan Pipar/TBWA, sem hafnaði í öðru sæti, hlaut 86,35 og munaði því innan við einu stigi á tillögunum. Guðmudur Hrafn Pálsson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA, sem jafnframt er formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa, er meðal þeirra sem lýst vonbrigðum með niðurstöðuna. Í viðtali við mbl.is sagði hann bæði skrýtið og svekkjandi að á tímum þegar stjórnvöld séu með verkefni um að velja eigi íslenskt skuli jafnstórt verkefni og raun ber vitni fara úr landi. Verkefni hér á landi skapi bæði tekjur og vinnu fyrir Íslendinga.
Segir stóran hluta framleiðslunnar fara fram hér

Forsvarsmenn auglýsingastofunnar Peel, sem eru fyrrverandi starfsmenn Íslensku auglýsingastofunnar og unnu þar meðal annars að verkefninu Inspired by Iceland, hafa sent frá sér tilkynningu þar sem brugðist er við umræðu um niðurstöðu útboðsins. Þar segja þeir að meirihluti framleiðslunnar vegna herferðarinnar verði hér á landi. Peel hyggist ráða önnur innlend framleiðslufyrirtæki og fleira vant auglýsingafólk til að vinna með sér að átakinu. „Við ætlum að auglýsa Ísland sem áfangastað í öðrum löndum. Stór hluti af framleiðslunni mun fara fram hér því þekkingin á landinu sem við erum að markaðssetja skiptir máli. Við ætlum að ráða til okkar fjölda íslenskra undirverktaka á ýmsum sviðum framleiðslunnar og því munu margir fleiri njóta góðs af verkefninu,“ er haft eftir Magnúsi Magnússyni, stofnanda og framkvæmdatjóra Peel í tilkynningunni. Segir hann að til standi að markaðssetja Ísland í útlöndum. Til þess að ná góðum árangri þurfi að vinna með fólki sem þekkir vel til á þeim mörkuðum og starfa þar alla daga.
Athugasemdir