Ný drög að loftslagsstefnu Evrópusambandsins kveða á um 65 prósent samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, miðað við árið 1990, fyrir árið 2030. Markmiðið er töluvert hærra en það sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur setti sér í stjórnarsáttmála, en þar er stefnt á 40 prósenta samdrátt.
Reuters fjallar um stefnuna sem framkvæmdastjórn ESB lagði fram í mars, en Evrópuþingið hefur nú lagt til að stefnan verði enn metnaðarfyllri. Stefnir þingið á 65 prósenta samdrátt í losun, langt umfram þann 50 til 55 prósenta samdrátt sem framkvæmdastjórnin lagði til. Í drögunum er einnig lagt til bindandi ákvæði um að hvert einasta af 27 ríkjum ESB þurfi að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050.
Ríkisstjórn Íslands hefur þegar sett sér markmið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Markiðið um samdrátt í losun miðað við árið 1990 gengur hins vegar ekki jafn langt og Evrópuþingið stefnir að, en miðað er við 40 prósenta samdrátt í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Þrátt fyrir markmiðið hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist undanfarin ár samkvæmt skýrslum Umhverfisstofnunar til alþjóðastofnana. 2018 er síðasta árið þar sem upplýsingar liggja fyrir og hafði þá losun aukist frá fyrra ári.
Sameinuðu þjóðirnar segja að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu þurfi að dragast saman um 7,6 prósent á hverju ári til 2030 til að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 gráður á Celsius. Undir þeim mörkum væri hægt að komast hjá verstu afleiðingum hlýnunarinnar.
„Vísindamenn tala um mörk plánetunnar,“ segir sænski þingmaðurinn Jytte Guteland, sem fer fyrir viðræðunum. „Ef við drögum ekki hraðar úr losun fyrstu 10 árin gætum við farið yfir þau mörk. Það er pólitísk ákvörðun hvort við gerum það eða ekki.“
Óvíst er þó hvort stefna Evrópuþingsins verði samþykkt þar sem framkvæmdastjórnin stefndi að vægari markmiðum og einstök aðildaríki hafa viljað fara hægar í sakirnar. Tékknesk stjórnvöld hafa kallað eftir því að markmiðin verði sett til hliðar á meðan Covid-19 faraldurinn gengur yfir og pólsk stjórnvöld leggjast gegn því markmiði að ESB í heild sinni nái kolefnishlutleysi árið 2050, sem þó er vægara en markmið þingsins um að hvert einasta ríki innan þess verði skuldbundið til að ná því.
Athugasemdir